135. löggjafarþing — 59. fundur,  5. feb. 2008.

almannatryggingar.

60. mál
[15:35]
Hlusta

Flm. (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007. Meðflutningsmaður með mér er hv. þm. Ögmundur Jónasson.

Hæstv. forseti. Það fer vel á því þegar mælt er fyrir frumvarpinu, sem var lagt fram í haust, að þá sé upphaf tannverndarviku sem hófst í gær, en hún stendur frá 3.–8. febrúar. Í dag var fræðslufundur á vegum Lýðheilsustöðvar og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í tilefni af útgáfu margmiðlunardisks með fræðsluefni um munnhirðu. Þó að fundurinn hafi einkum verið ætlaður starfsfólki á heilbrigðisstofnunum — en einnig öðrum stofnunum sem vinna við fræðslu um heilbrigði og lífshætti — er það mikið fagnaðarefni að þessi fræðsludiskur skuli nú vera að koma út. Ég vona og hvet til þess að hann verði upphafið að nýju átaki í forvörnum og hvatningu til foreldra og barna um að sinna tannvernd og tannhirðu að sama skapi og var fyrir nokkrum árum þegar verulegt átak var gert í því að bæta heilbrigðisástand munnholsins sem tókst með ágætum. Það tókst með samstilltu átaki heilbrigðisstarfsfólks, tannlækna, Tryggingastofnunar, fjárveitinga héðan frá Alþingi og síðast en ekki síst með aðkomu skólatannlækna og heilbrigðisstarfsfólks í skólaheilsugæslunni sem hvatti til þess að börn færu til skólatannlæknis og foreldrar nýttu sér þá þjónustu.

Ég ætla því að vona, hæstv. forseti, að þessi margmiðlunardiskur verði upphaf að nýju átaki hvað varðar fræðsluna og að árið 2008 marki upphaf nýrrar sóknar til bættrar munnholsheilsu. Ég vona að það frumvarp sem hér liggur fyrir, og ég mun mæla fyrir, verði að lögum. Við finnum fyrir því í dag að það er kostnaðurinn við tannviðgerðir sem hefur hvað mest áhrif á það að tannheilsu skuli vera að hraka. Kostnaður foreldra er orðinn það mikill að stór hópur treystir sér ekki til að standa undir honum og það bitnar á tannheilsu barnanna.

Hæstv. forseti. Það er mjög mikilvægt að gera reglulega kannanir á tannheilsu íslenskra barna og unglinga og einnig fullorðinna og það er mikilvægt að það sé gert reglulega. Miklar kannanir voru gerðar á árunum 1986, 1991 og 1996 en svo ekki aftur fyrr en 2005. Þarna liðu níu ár á milli og það er synd að svo langur tími hafi liðið því að þar misstum við af þeim möguleika að fylgjast með þróun tannskemmda og grípa þá fyrr inn í. Eins er líka mikilvægt fyrir okkur sem þjóð að sjá hvort þær aðgerðir sem farið er í skila árangri. Það þarf ekki bara að fylgjast með tannheilsu tannheilsunnar vegna heldur til að sjá hvað opinberar aðgerðir, tannhirða, tannviðgerðir og fæðuval hefur að segja.

Í þeirri rannsókn sem var gerð árið 2005, sem kölluð var MUNNÍS-rannsókn og skilaði niðurstöðum í janúar 2007, koma fram mjög gagnlegar upplýsingar. Þær sýna því miður að í norrænum samanburði lætur nærri að íslensk börn og ungmenni séu að meðaltali með tvöfalt fleiri skemmdar tennur en samanburðarhópar í Svíþjóð það sama ár og staðan er verri en á hinum Norðurlöndunum. Hjá tólf ára barni á Íslandi eru að meðaltali tvær fullorðinstennur skemmdar og þarfnast viðgerðar eða hafa þegar verið fylltar. Meira er um skemmdir hjá telpum en strákum og tíðni tannskemmda fer vaxandi. Það er áhyggjuefni hversu algengt það er að ekki sé gert við tannskemmdir. Um 17% barna og ungmenna, 4 til 18 ára, mæta ekki reglubundið í eftirlit hjá tannlækni og fæst börn koma til tannlæknis á Vestfjörðum en flest í Skagafirði.

Það er áhyggjuefni að þróunin skuli hafa verið á þessa leið. Þegar við berum saman þá könnun sem var gerð 2005 og þær sem voru gerðar á árunum áður, 1986, 1991, og 1996, kemur í ljós að á þeim árum voru nær öll börn í reglubundnu eftirliti hjá tannlækni. Þá voru skólatannlækningar nokkurs konar öryggisnet fyrir þá hópa sem ekki sóttu reglubundna tannlæknaþjónustu á einkareknar stofur. Greiðslur almannatrygginga greiddu nær alfarið kostnað við grunnþjónustu barna og unglinga, þar með talið skoðun, forvarnir og nauðsynlega tannfyllingameðferð.

Rannsóknin sem var gerð 2005 er ekki fyllilega sambærileg því að við fyrri rannsóknir voru gerðar svokallaðar sjónrænar greiningaraðferðir en nú var notuð betri greiningaraðferð ásamt röntgenmyndatökum þannig að það er rétt að undirstrika það, eins og gert var við birtingu á niðurstöðum rannsóknarinnar, að ekki er hægt að bera hana nákvæmlega saman en samt sem áður er hún mjög vel samanburðarhæf. Því miður, eins og ég sagði, er niðurstaðan sú að tannskemmdir og tannáta hafa aukist. Á árunum frá 1986 til 1996, á því tíu ára tímabili, dró úr tannskemmdum og tannátu en eftir það hefur ástandið versnað aftur. Það er áhyggjuefni að staðan skuli vera svona og miðað við þau heilbrigðismarkmið sem við höfum sett okkur með heilbrigðisáætlun, sem á að gilda til 2010, er stefnt að því að tólf ára börn á Íslandi hafi eina eða færri skemmda, viðgerða eða tapaða fullorðinstönn að meðaltali það ár. Það er þar af leiðandi ljóst að þörf er á öflugri aðgerðum svo að stöðva megi þá óheillaþróun sem hér hefur verið lýst.

Við þurfum líka að hafa auga með og áhyggjur af glerungseyðingu sem er orðin algengari hjá piltum en stúlkum. Það eru sætir og sykurlausir gosdrykkir sem þar hafa mest áhrif og þar af leiðandi er gosdrykkjaþamb nokkuð sem við þurfum að horfa til út frá lýðheilsusjónarmiði, ekki eingöngu út frá holdafari, sem við þurfum að passa upp á, heldur ekki síður út frá tannheilsu.

Í könnuninni kom í ljós, út frá reikningum Tryggingastofnunar ríkisins frá árunum 2001 og 2004, að komum barna til tannlækna hefur fækkað. Það er misjafnt eftir landshlutum. Börn skiluðu sér síst til tannlæknis á Vestfjörðum og í Reykjavík. Ekki er hægt að segja að það sé vegna þess að erfiðara sé að komast til tannlæknis í Reykjavík eða á Ísafirði. En þetta er staðreyndin.

Það er líka staðreynd að útgjöld Tryggingastofnunar ríkisins vegna forvarna í tannheilsu barna að teknu tilliti til mannfjölda lækkuðu úr 1.390 kr. á hvert mannsbarn árið 1998 í 916 kr. á hvert mannsbarn árið 2005 á verðlagi ársins 2006. Það munar um minna en árið 1995 var tannlækniskostnaður heimilanna rúmar 12 þús. kr. en fór í rúmar 17 þús. kr. á árinu 2005, þ.e. á verðlagi ársins 2006.

Útgjöld heimilanna vegna tannlækninga barna, unglinga og fullorðinna hafa sannarlega hækkað og það er ekki síst ástæðan fyrir því að frumvarp til laga um breytingar á lögum um almannatryggingar er nú endurflutt, þar á meðal kaflinn um almenna tannlæknaþjónustu. Við leggjum til, hæstv. forseti, að 42. gr. laganna orðist svo:

„Fyrir almenna tannlæknaþjónustu greiðir Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt samningum, sbr. 44. gr. Takist ekki samningar skv. 44. gr. er ráðherra heimilt að setja gjaldskrá. Gjaldskráin gildir bæði um tannlækningar sem starfræktar eru á vegum hins opinbera og annarra.

Greiðslur sjúkratrygginga skv. 1. mgr. skulu vera sem hér segir:

a. Fyrir almennar tannlækningar barna og ungmenna, 20 ára og yngri, 100% kostnaðar.

b. Fyrir elli- og örorkulífeyrisþega, sem njóta tekjutryggingar, 100% kostnaðar.

c. Fyrir elli- og örorkulífeyrisþega, sem njóta ekki tekjutryggingar, 75% kostnaðar. Fyrir gullfyllingar, krónur, brýr og tannplanta gilda sérstakar reglur sem ráðherra setur. Heimilt er að hækka greiðslur fyrir þessa bótaþega í allt að 100% eftir reglum sem ráðherra setur.“

Eins og ég sagði fyrr, hæstv. forseti, hafa örlítið frábrugðin frumvörp í þessa veru verið lögð fram á 131., 132. og 133. löggjafarþingi. Síðan þá hafa verið gerðar breytingar á núgildandi lögum um almannatryggingar og við flutningsmenn fögnum þeim auknu réttindum sem leiddi af þeim breytingum. Við flutningsmenn teljum brýnt og eðlilegt að hlutfall greiðsluþátttöku sjúkratrygginga komi fram í lögum en ekki í reglugerð eins og fyrirkomulagið er nú. Við teljum að þetta sé mikil réttarbót og teljum að það eigi að vera ljóst og ákveðið af Alþingi fyrir hvaða tannlækningar og forvarnir eigi að greiða.

Ég tel, með vísan til rannsóknarinnar sem gerð var árið 2005, ljóst að mikilvægt er að fara í róttækar aðgerðir og stuðla að því að efnahagur ráði því ekki hvort fjölskyldur sinni tannhirðu eða fari til tannlæknis. Það er ljóst hvernig verðskrá tannlækna hefur þróast eftir að samningar við Tryggingastofnun ríkisins féllu úr gildi. Hvorki hafa náðst nýir samningar við tannlækna né verðskráin verið uppfærð samkvæmt verðlagi frá árinu 2004. Það er þekkt að viðgerðir og eftirlit hjá tannlæknum samkvæmt frjálsri gjaldskrá kostar umtalsvert meira en gert er ráð fyrir í gjaldskrá sem heilbrigðisráðherra hefur sett. Það stendur í fólki að fara með börn sín til tannlæknis. Þetta hleypur orðið á tugum þúsunda og er ófremdarástand.

Hæstv. forseti. Við segjum í 1. gr.: „Takist ekki samningar skv. 44. gr. er ráðherra heimilt að setja gjaldskrá.“ En á meðan ekki eru skólatannlæknar eins og áður þarf að semja við sjálfstætt starfandi tannlækna. Þá getur sú staða komið upp eins og raunin var árið 2004 að endurnýjun samningsins náðist ekki. Það verður jú að hafa gjaldskrá en sé hún ákveðin af ráðherra verður ráðherra sannarlega að gæta sanngirni í því og a.m.k. uppfæra gjaldskrána þannig að fylgi verðlagi svo ekki myndist mikið gap á milli hinnar opinberu gjaldskrár og gjaldskrár tannlækna.

Tannskemmdir og tannheilsa í munnholi á ekki eingöngu við um börn og unglinga þótt mestu máli skipti að tannheilbrigði barna og unglinga sé sem best hvað varðar líf þeirra og heilsu. Það skiptir líka miklu máli að fullorðnir og aldraðir búi við gott tannheilbrigði. Því er mikilvægt að elli- og örorkulífeyrisþegar eigi góðan aðgang að tannlæknaþjónustu og þurfi ekki að hafa áhyggjur af greiðslum. Því leggjum við til að þeir sem njóta tekjutryggingar fái 100% kostnaðar greiddan, þeir sem njóta ekki tekjutryggingar fái 75% af kostnaðar greiddan og þeir sem eru inni á dvalar- og hjúkrunarheimilum fái alla þjónustu endurgjaldslaust.

Ég vil aðeins bæta við, það er ekki nefnt í þessu frumvarpi eða greinargerðinni, að hvað varðar þjónustu við aldraða, sérstaklega við aldraða á hjúkrunar- og dvalarheimilum, má bæta mjög þjónustuna og sérstaklega þjónustu tannfræðinga. Það ætti að vera föst þjónusta á dvalar- og hjúkrunarheimilum, að tannfræðingar komi að rétt eins og aðrar heilbrigðisstéttir. Aukin þjónusta þeirra mundi bæta mjög líðan þeirra sem þar dvelja. Tannheilbrigði aldraðra þarf sannarlega að bæta og sérstaklega núna, með tilliti til þess að þjóðin eldist. Þeir sem eru núna að komast af miðjum aldri og á sitt síðasta æviskeið hafa búið við það góð kjör og hollustu í mataræði og tannlæknaþjónustu að langflestir þeirra eru með eigin tennur. Að því á að stuðla að fólk haldi eigin tönnum og fái þá þann stuðning við bit sem hægt er að veita með tannpörtum eða gómum án þess að fara út í þá miklu aðgerð að setja í menn falskar tennur. Á árum áður þótti það sjálfsagt og var hluti af ellinni að fá sér falskar. Svo er sem betur fer ekki lengur og það ætti að vera undantekning frekar en regla. Til þess þurfa fullorðnir að fá góðan fjárhagslegan stuðning. Það á ekki að vera þeim óyfirstíganlegt og ætti ekki að þurfa að vera val á milli þess að fá stíftennur eða parta eða velja það að fá falskar eingöngu út frá kostnaði en ekki út frá eigin óskum um útlit og heilsu.

Margt væri hægt að ræða út frá þessu frumvarpi. Mikilvægt er að draga úr jaðaráhrifum á elli- og örorkulífeyrisþega. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að draga úr kostnaði elli- og örorkulífeyrisþega við tannlækningar en mörg dæmi eru um að efnalítið fullorðið fólk og öryrkjar hafi ekki getað leitað sér lækninga af fjárhagsástæðum. Með þeim breytingum sem hér eru lagðar til yrði dregið verulega úr jaðaráhrifum innan almannatryggingakerfisins á elli- og örorkulífeyrisþega eins og fram kemur í greinargerð.

Fáist frumvarpið afgreitt á vorþingi mun sannarlega fylgja því töluverður kostnaður fyrir almannatryggingakerfið að koma breytingunum á en ég tel það tímabundin útgjöld og að hluta til sjálfsögð útgjöld. Sú 30% hækkun sem í dag ætti að verða á opinberri gjaldskrá er tekin inn í áætlaðan kostnað, 30% hækkun sem ekki hefur orðið og færist alfarið á einstaklinga sem þurfa á tannlæknaþjónustu að halda. Sá kostnaður hefur færst yfir á fjölskyldurnar, börn, fullorðna og aldraða. Eins er tekið tillit til þess að fyrir börn, frá fæðingu til 17 ára eins og er í dag, muni áætlaður kostnaður hækka úr 514 millj. kr. yfir í 754 millj. kr., rúmlega 200 millj. kr. að viðbættum þeim aldurshópi sem við teljum að eigi að njóta ókeypis tannviðgerða er kostnaður 162 millj. kr. og í forréttingar, þ.e. tannréttingar með lausum gómum, fari um 50 millj. kr.

Með þessum breytingum sem við leggjum til, að fleiri hópar fái stuðning auk 30% hækkunarinnar sem hefði átt að verða, er hækkunin í heild 1.272 millj. kr. Ég ætla að telja upp forsendur þessara hækkana, hæstv. forseti, á útgjöldum til almannatrygginga:

1. Breytingin verði til þess að 10% fleiri börn leiti til tannlækna en nú er.

2. Í hverjum árgangi 18–20 ára séu 4.000 einstaklingar og að 90% þeirra leiti til tannlæknis.

3. Kostnaður við hvern einstakling, 18–20 ára, verði 15.000 kr. á ári.

4. Forréttingar kosti 50 millj. kr. á ári.

5. Breytingin leiði til þess að fleiri lífeyrisþegar leiti til tannlækna og hver þiggi meiri meðferð, samtals aukning um 25%.

6. Sömu áhrif verði á aðra hópa, hér að ofan fært undir annað, svo sem börn með umönnunarbætur og fólk á sambýlum, sem nú fá 100%.

7. Hækka þarf gjaldskrá ráðherra, frá 2004, um a.m.k. 30%.

Þegar allt er talið með, m.a. sá fjöldi sem við reiknum með að skili sér betur til tannlæknis, yrðu útgjöldin nokkur en til lengri tíma litið drægi úr kostnaði. Þetta er spurning um að fjárfesta til framtíðar, fjárfesta í betri tannheilsu og líta til þeirrar þróunar sem er á annars staðar á Norðurlöndunum og hve mikið við höfum dregist aftur úr. Við þurfum að vera raunsæ og skoða hvað hefur áhrif. Þar er kostnaðarþátttaka barna og fullorðinna sannarlega stór áhrifavaldur. Jafnframt þurfum við að líta til mataræðis. Síðast en ekki síst þurfum við að líta í eigin barm og skoða hvort við tökum alvarlega þau heilbrigðismarkmið sem við höfum sett okkur og höfum fjarlægst ár frá ári eftir því sem síðasta rannsókn sýnir.

Ég vil nota þetta tækifæri til að hvetja til þess að margmiðlunardiskurinn sem verið er að gefa út verði notaður í miklu og góðu átaki og að fé verði veitt til að fylgja honum til þess að markmiðin náist og litið verði á tannlæknaþjónustuna sem hluta af heilbrigðisþjónustunni og munnholið sem hluta af líkamanum. Tannlækningar eiga ekki að vera á nokkurn hátt skilgreindar með öðrum hætti en önnur heilbrigðisþjónusta.

Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni umræðu vísað til heilbrigðisnefndar og að heilbrigðisnefnd leiti umsagna og leiti leiða til að Alþingi fái skapað það lagaumhverfi sem tryggi að við getum stuðlað að betri tann- og munnheilsu en er í dag.