135. löggjafarþing — 59. fundur,  5. feb. 2008.

almannatryggingar.

60. mál
[16:18]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Til 1. umr. er komið frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar. Flutningsmenn eru hv. þingmenn Þuríður Backman og Ögmundur Jónasson. Frumvarpið varðar aukna niðurgreiðslu vegna tannlæknaþjónustu. Komið hefur fram í umræðunni að sambærilegt frumvarp hafi verið lagt fram á nokkrum þingum á síðustu árum.

Frumvarpið felur m.a. í sér að náist ekki samningar við tannlækna setji ráðherra gjaldskrá um tannlækningar. Það felur jafnframt í sér verulega auknar niðurgreiðslur á tannlæknaþjónustu í gegnum almannatryggingar. Þannig verði tannlækningar barna og ungmenna að 20 ára aldri og tannlækningar elli- og örorkulífeyrisþega sem njóta tekjutryggingar greiddar að fullu en tannlækningar elli- og örorkulífeyrisþega sem ekki njóta tekjutryggingar verði greiddar að 75% hluta en heimild er til að hækka það í 100% samkvæmt reglum sem ráðherra setur. Í fljótu bragði er þetta efni frumvarpsins þó með ýmsum nákvæmari útlistunum sem ég ætla ekki að fara út í.

Í fylgiskjali með frumvarpinu kemur jafnframt fram að verði það samþykkt þýðir það aukningu á niðurgreiðslum ríkisins, á bilinu 750–1.300 millj. kr., á tannlæknakostnaði eftir því hvaða forsendur eru gefnar. Ég fékk það fram hjá hv. þingmanni í samtali úti í sal áðan að þetta væru nýjar tölur. Þess má geta að í fjárlagafrumvarpi 2008 er gert ráð fyrir að niðurgreiðslur ríkisins vegna tannlæknakostnaðar séu tæplega 1.400 millj. kr. Því er um að ræða verulega aukningu, allt að 100% aukningu, á niðurgreiðslum vegna tannlæknaþjónustu.

Ekki verður fram hjá því litið að verulega hefur dregið úr kostnaði hins opinbera vegna tannlæknaþjónustu á síðustu 15–20 árum og kemur þar ýmislegt til. Mig langaði í örfáum orðum að fjalla um það hvað hefur valdið því að niðurgreiðslur hafa minnkað. Í fyrsta lagi tóku stjórnvöld markvisst ákvarðanir um að lækka niðurgreiðslur eins og kemur ágætlega fram í greinargerð með frumvarpinu — ég tek undir það með hv. þm. Ögmundi Jónassyni að greinargerðin með frumvarpinu er einstaklega vönduð og gefur góða mynd af stöðu mála.

Það var sem sagt dregið úr niðurgreiðslum hins opinbera á tannlæknakostnaði fyrir um 15 árum eða á árunum 1992–1993 og það leiddi til þess að tannlæknakostnaður hins opinbera lækkaði um þriðjung á milli áranna 1993–1994, sem var veruleg minnkun, og ef ég man rétt var það á verðlagi ársins 2000 úr 1.200 millj. kr. í 800 millj. kr. Þegar ég skoðaði tölur, sem ég fékk reyndar fyrir nokkrum árum frá heilbrigðisráðuneytinu, um þróun ýmiss heilbrigðiskostnaðar, og þá á föstu verðlagi, og þegar maður dregur tannlæknakostnaðinn sérstaklega út, kemur í ljós að á milli áranna 1990 og 2000 lækkaði tannlæknakostnaður hins opinbera um 55% miðað við verðlag ársins 2000. Var 1,8 milljarðar kr. árið 1990 en var kominn niður í 800 millj. kr. á árinu 2000. Þessar tölur eru miðaðar við verðlag ársins 2000 og þróun landsframleiðslu, eins og ég sagði hér áðan. Ég leitaði reyndar eftir því að fá nýrri upplýsingar eins langt og tölur ná fyrir umræðuna í dag en það náðist því miður ekki. Ég vonast til að fá þær tölur þótt síðar verði. Á síðustu árum hafa niðurgreiðslur ríkisins aukist á ný, m.a. hefur viðmiðunaraldur verið hækkaður úr 16 árum í 18 ár, endurgreiðsluhlutfall til elli- og örorkulífeyrisþega hefur verið hækkað og langveik börn fá 90% kostnaðar endurgreiddan.

Í öðru lagi hefur það átt sinn þátt í því að kostnaðarhlutdeild hins opinbera hefur lækkað að ekki hefur verið í gildi samningur milli Tryggingastofnunar ríkisins og tannlækna um almenna tannlæknaþjónustu frá árinu 1998. Reyndar er í gildi samningur um þjónustu við börn sem var gerður ekki alls fyrir löngu en að öðru leyti er ekki samningur milli Tryggingastofnunar ríkisins og Tannlæknafélagsins um almenna tannlæknaþjónustu eins og var í gildi fyrir árið 1998. Frá þeim tíma hefur endurgreiðsla tekið mið af gjaldskrá sem ráðherra hefur sett og hún hefur verið hækkuð þrisvar frá 1998, á þessum tíu árum, um 20% á árinu 2002, um 3% á árinu 2003 og um 4% á árinu 2004. Gjaldskrá tannlækna er frjáls og hefur hækkað verulega á þessum tíma, reyndar hefur hún hækkað mismunandi mikið. Við höfum ekki áreiðanlegar upplýsingar um hvað hún er mikil, en þar sem hún er frjáls tekur hún stöðugum breytingum.

Ég skoðaði svar við fyrirspurn frá þingmanni sem ég man reyndar ekki hver var en henni var beint til heilbrigðisráðherra um mismun á gjaldskrá ráðherra og gjaldskrá tannlækna. Svarið kom í desember 2004 og í því kom fram að gjaldskrá tannlækna væri að meðaltali 25% hærri en gjaldskrá ráðherra. Gjaldskrár tannlækna voru allt frá því að vera 7,7% undir ráðherragjaldskrá, sem var þá almennur tannlæknir, og upp í 106% yfir ráðherragjaldskrá, sem var sérfræðingur.

Sjálfir hafa tannlæknar bent á könnun Neytendasamtakanna frá því í nóvember á síðasta ári sem sýndi fram á að munurinn væri milli 50 og 60%. Þessar tölur hef ég frá formanni Tannlæknafélagsins en ég hef ekki rekist á þessar tölur sjálf, fór og leitaði að þeim í gagnagrunnum, bæði í gagnasafni Morgunblaðsins og Fjölmiðlavaktarinnar, en hef ekki séð þessar tölur. En ég trúi formanni Tannlæknafélagsins sem heldur þessu fram. Það sýnir að gjaldskráin hefur hækkað verulega frá því í desember 2004 þegar munurinn var 25% en er þá kominn upp í milli 50 og 60%. Þetta þýðir því að verulega hefur dregið í sundur með gjaldskrá ráðherra og tannlækna og sérstaklega á síðustu þremur árum. Þetta hefur jafnframt þýtt að fólk hefur þurft að greiða æ stærri hluta af tannlæknareikningnum sínum og til marks má segja að ef 100% munur er á gjaldskrá ráðherra og gjaldskrá tannlæknis tekur ríkið þátt í tæplega 40% af tannlæknakostnaði vegna barna og unglinga, eða nákvæmlega 37,5%, barna og unglinga undir 18 ára aldri, þegar endurgreiðslan á að vera 75%.

Þessi aukni kostnaður vex fólki vitanlega í augum og nýlegar rannsóknir hafa sýnt fram á að of stór hluti barna að 18 ára aldri kemur ekki reglulega til tannlæknis. Nefndar hafa verið prósentutölur upp á 17%, mismunandi þó á milli landshluta. Ég er hins vegar ekki nægilega kunnug forsendunum, hvort að einhverjum hluta er byggt á upplýsingum um endurgreiðslur en það er ljóst að einhver hluti foreldra sækir ekki endurgreiðslur vegna tannlækna þannig að það þarf kannski að skoða hvort þetta hlutfall er of hátt.

Í þriðja lagi hefur því verið haldið fram í ræðu og riti frá tannlæknum og ýmsum öðrum að tannheilsa Íslendinga hafi batnað. Þegar við skoðum rannsóknir sem ná 10 til 15 ár aftur í tímann er engum blöðum um það að fletta að tannheilsa Íslendinga hefur batnað sem þýðir að viðgerðir á tönnum eru ekki eins umfangsmiklar í starfi tannlækna og áður var og forvarnaaðgerðir hafa tekið stærri hlut. Þegar við horfum til ársins 1986, 20 ár aftur í tímann, var fjöldi skemmdra, viðgerðra og tapaðra tanna hjá tólf ára börnum að meðaltali 6,57 tennur á árinu 1986 en var komið niður í 1,43 tennur árið 2005, sem segir okkur að viðgerðar tennur eru færri vegna þess að tannheilsan hefur batnað.

Ég tek hins vegar undir með hv. þm. Ögmundi Jónassyni að þessi umræða hefur verið út og suður. Í einu orðinu er sagt að tannheilsa Íslendinga hafi batnað en í öðru orðinu er sagt að hún hafi versnað. Ég vísa m.a. í ýmsar hátíðargreinar frá tannlæknum á undanförnum árum þar sem því hefur verið haldið fram að tannheilsan hafi batnað. Eins og segir ágætlega í greinargerð með frumvarpinu, þar sem verið er að tala um bætta tannheilsu fólks, með leyfi forseta:

„… bætt efnahagsleg staða fólks, góð tannlæknaþjónusta, notkun flúortannkrems, flúormeðferð, bætt munnhirða og hugarfarsbreyting almennings í tannheilsumálum“ er það að þakka.

Töluvert hefur verið rætt um rannsókn MUNNÍS, sem var kynnt á síðasta ári, og kom m.a. til umræðu í kosningabaráttunni síðasta vor. Þar kemur fram að þegar sama rannsóknaraðferð er notuð, sjónræn skoðun á ástandi tanna í börnum, kemur í ljós að þegar sama aðferð er notuð 1986, 1991, 1996 og 2005 hefur tannheilsan batnað, en þegar röntgenrannsókn er bætt við á árinu 2005 er hægt að greina fleiri tennur. Ef röntgenrannsókn hefði verið beitt á árunum 1986, 1991 og 1996 spyr maður sig hvort ekki hefði mátt fá sömu niðurstöðu, þ.e. að tannheilsa barna hafi batnað. Það breytir því ekki að tannheilsa íslenskra barna er ekki góð, hún er ekki góð. Við stöndum okkur illa í norrænum samanburði og lætur nærri að íslensk börn og ungmenni séu að meðaltali með tvöfalt fleiri skemmdar tennur en samanburðarhópar í Svíþjóð og almennt er staðan verri hér á landi en á Norðurlöndum.

Það hefur m.a. verið dregið fram að sykurneysla hér á landi er óhemjumikil, sérstaklega gosdrykkja og neysla sykraðra drykkja, reglubundið eftirlit með tönnum barna er heldur ekki sem skyldi og mikil aukning er á glerungseyðingu. Því er full ástæða til að skoða tannheilsumál Íslendinga. Ef ég dreg það saman sem ég hef verið að segja og skoðanir mínar á þessum málum er ljóst að niðurgreiðslur vegna tannlækninga hafa lækkað verulega á síðustu árum. Milli áranna 1990 og 2000 lækkuðu þær um 55% á föstu verðlagi. Það hefur dregið í sundur með gjaldskrá tannlækna og gjaldskrá ráðherra. Það hefur þýtt auknar álögur á almenning vegna tannlæknaþjónustu, efnaminna fólk leitar í minna mæli til tannlækna og fyrirsjáanlegt er að það komi niður á tannheilsu landsmanna þegar fram líða stundir. Tannlæknar fullyrða að þegar megi sjá merki um versnandi tannheilsu þó að það hafi í sjálfu sér ekki sýnt sig í rannsóknum. Ég rakst þó á mótsögn þess efnis að hlutfall tólf ára barna með allar tennur heilar hefur lækkað frá 1996 en á hinn bóginn er fjöldi skemmdra tanna að meðaltali færri — fleiri krakkar hafa skemmdar tennur en meðalfjöldi skemmdra, viðgerðra og tapaðra tanna á barn sem á annað borð eru ekki með heilar tennur er lægri. Það eru því ákveðnar þversagnir í þessu en við verðum að horfa á hlutina eins og þeir eru og velta því fyrir okkur hver árangurinn hefur verið.

Eins og áður hefur verið rætt er þess getið í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar um tannheilsumál að tannvernd barna verði bætt með gjaldfrjálsu eftirliti, forvarnaaðgerðum og auknum niðurgreiðslum á tannviðgerðum barna og tel ég mikilvægt að hrinda því í framkvæmd. Jafnframt þarf að leggja áherslu á að ná samningum við tannlækna um almenna og víðtæka tannlæknaþjónustu. Það er almenna reglan í lögum um almannatryggingar að ráðherra sé óheimil greiðsluþátttaka í sjúkratryggingum nema fyrir liggi samningur milli aðila um þjónustu. Ég tel að þetta eigi að vera prinsippið í samskiptum við heilbrigðisstarfsmenn og Tryggingastofnun því að í því felst m.a. eftirlit með þjónustunni og að ákveðnum reglum sé fylgt. Komið hafa fram ákveðnar undantekningar, sem við viljum reyna að koma í veg fyrir, t.d. varðandi hjartalækna og nýverið talmeinafræðinga. Það er afleitt form sem ekki á að festa sig í sessi.

Ég tel að myndast hafi svigrúm til aukinnar niðurgreiðslu tannlækninga og hvet til þess að tannlæknar og ný samninganefnd heilbrigðisráðherra og síðan ný stofnun um kaup á heilbrigðisþjónustu bretti upp ermarnar og gangi til þessara samninga með hagsmuni almennings að leiðarljósi. Það þýðir að meira fjármagn verður að fara til þessa málaflokks en jafnframt hljótum við að horfa til nefndar sem vinnur að því að skoða greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Sú nefnd er undir forustu hv. þm. Péturs H. Blöndals og við hljótum að horfa til þess að tannlæknaþjónusta og greiðslur vegna hennar falli undir þá skoðun.