135. löggjafarþing — 59. fundur,  5. feb. 2008.

almannatryggingar.

60. mál
[16:33]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að taka til máls í þessari umræðu um tannheilsu og greiðsluþátttöku almannatrygginga vegna tannlækninga. Þetta hefur verið góð umræða og nauðsynleg. Það hefur komið fram að mönnum beri ekki saman um hvort tannheilsa hafi batnað eða versnað. Það fer dálítið eftir því við hvern maður talar (Gripið fram í.) og hvenær.

Það er ljóst að ráða þarf bót á þessum málum öllum. Ég vek athygli á því að sérstaklega er tekið á þessu í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og sömuleiðis í samþykktinni frá í vor um aðgerðaáætlun í þágu barna. Þar er komið inn á tannvernd barna líkt og í stjórnarsáttmálanum, með leyfi hæstv. forseta:

„Tannvernd barna verði bætt með gjaldfrjálsu eftirliti, forvarnaaðgerðum og auknum niðurgreiðslum á tannviðgerðum barna.“

Ég tel þetta mjög mikilvægan þátt í velferðarþjónustu okkar. Ég á sæti í nefnd sem er að skoða greiðsluþátttöku almennings í heilbrigðisþjónustunni undir formennsku Péturs H. Blöndals og þar höfum við hitt ýmsa hópa heilbrigðisstarfsmanna sem veita þjónustu í heilbrigðiskerfinu til að fá upplýsingar um stöðu mála. Þegar við hittum tannlækna kom skýrt fram að ráða þarf bót á þessu máli. Fram kom að fimmta hvert barn fer ekki að staðaldri til tannlæknis, fimmta hvert barn á Íslandi, sem er verulegt áhyggjuefni. Það er ljóst að efnaminna fólk raðar tannlækningum aftar á forgangslistann.

Á meðan skólatannlækningarnar voru við lýði var betur fylgst með tannheilsu barna og börn voru sótt inn í skólana og send í skoðun. Á því virðist hafa orðið misbrestur á undanförnum árum eftir að skólatannlækningar hættu. Það kom fram í svari við fyrirspurn sem ég lagði fram á þingi fyrir 8 eða 10 árum að þá var ástandið strax farið að versna varðandi tannheilsu barna. Þetta er mjög mikilvægt atriði. Ég er sannfærð um að þetta lagast ekki og auka þarf fé til tannlækninga til að við getum ráðið bót á þessu. Það er greinilega vilji ríkisstjórnarinnar, eins og kemur fram í aðgerðaáætlun í málefnum barna og í stjórnarsáttmálanum, að taka á þessum málum.

Mér finnst það áhyggjuefni að maður skuli enn í dag fá hringingar og athugasemdir frá öldruðum sem ekki geta leyft sér að fá sér tennur eða láta gera við tennurnar í sér. Í gegnum tíðina hef ég iðulega fengið slíkar athugasemdir og enn í dag fæ ég slíkar athugasemdir. Eldra fólk og jafnvel öryrkjar eru með 20 ára gamlar tennur sem meiða og þeir geta illa notað en fá svo lágan styrk til að kaupa sér nýjar tennur að þeir hafa ekki efni á að borga það sem upp á vantar. Það er nokkuð sem á ekki að eiga sér stað og við þurfum að leysa úr því.

Í nefndinni sem ég minntist á áðan, og hv. þm. Ögmundur Jónasson á einnig sæti í, erum við að skoða hvort ekki eigi að setja hámarksgreiðslur fyrir heilbrigðisþjónustu. Þar eru menn að velta fyrir sér hvort tannlækningar eigi að heyra þar undir. Við þurfum að skoða hvort þær eigi að falla þar undir. Þar þarf auðvitað að huga að fólki eins og lífeyrisþegum sem hafa lítið milli handanna, eins og öryrkjar og aldraðir sem hafa nánast ekkert nema bætur almannatrygginga. Það þarf að koma til móts við það fólk því að við getum ekki liðið það að í samfélagi okkar geti fólk ekki leyft sér að fá sér tennur eða fá lágmarkstannlækningar.

Það þarf að beita sér fyrir því að semja við tannlækna um gjaldskrá. Þetta bil milli gjaldskrár ráðherra og gjaldskrár tannlækna er náttúrlega óþolandi. Í lögunum er talað um ákveðna prósentu í greiðsluþátttöku sem er síðan allt önnur þegar fólk kemur með reikningana vegna þess að gjaldskránum ber ekki saman. Á því þarf að taka.

Varðandi tannheilsuna ætla ég að taka undir það sem aðrir hafa sagt hér, að við eigum ekki að einblína á viðgerðir. Við eigum líka að skoða forvarnir. Þetta snýst um upplýsingu, um að foreldrar sinni tannheilsu barna sinna, kenni þeim að hirða tennurnar og svo auðvitað mataræðið. Mataræðið er mjög stór þáttur í tannheilsu. Gosdrykkjaþamb á Íslandi er verulegt áhyggjuefni. Gosdrykkja ungs fólks á Íslandi er meiri en nánast í nokkru öðru landi. Þarna er mikil sykurneysla og kolsýra sem skemmir og eyðileggur tennurnar. Það er verulegt áhyggjuefni og við því þarf að bregðast.

Áðan kom til umræðu að tannviðgerðir væru ekki eins umfangsmiklar í dag og áður. Það er auðvitað vegna nýrrar tækni í tannlækningum. Ég hef einmitt rætt þetta við tannlækninn minn. Orðið hafa miklar breytingar á þeirri tækni sem tannlæknar búa yfir í dag og verður vart líkt við það sem tíðkaðist áður.

Virðulegi forseti. Umræðan um tannlækningar og greiðsluþátttöku almannatrygginga í tannlækningum er þörf. Það er verið að vinna í þessum málaflokki hjá hæstv. heilbrigðisráðherra. Nefndin um greiðsluþátttöku almennings fjallar um þessi mál einnig og ég geri ráð fyrir að einhver niðurstaða fáist í þeim efnum. Ég held að það sé alveg ljóst það kostar að sinna tannheilsu og það kostar að gera tannvernd barna gjaldfrjálsa, forvarnaaðgerðirnar og einnig auknar niðurgreiðslur, eins og lofað er í stjórnarsáttmálanum. Það hlýtur fyrr en síðar að koma þingmál inn í þingið hvað það varðar.