135. löggjafarþing — 59. fundur,  5. feb. 2008.

almannatryggingar.

60. mál
[16:52]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fer nú að hafa nokkrar áhyggjur af framvindunni í starfi umræddrar nefndar ef þetta er hugmyndafræðin sem á að byggja á, að færa heilbrigðisþjónustuna almennt inn á markaðstorgið sem lúti lögmálum þess og þar sem sérfræðingar og einkareknar heilbrigðisstofnanir auglýsi til að keppa um kúnna. Ekki líst mér á það.

Hitt skal ég segja að ég misskildi hv. þingmann varðandi tal hans um að þetta frumvarp væri afmarkandi, ég misskildi hann hvað það snertir. Mér finnst alveg koma til greina að horfa til annarra hópa einnig og reyndar erum við flutningsmenn frumvarpsins á þeirri skoðun að tannlækningar almennt eigi að lúta sömu reglum og gerist í heilbrigðiskerfinu, að það eigi ekki að gera greinarmun á tannlækningum og lækningum á öðrum sjúkdómum. Hins vegar er verið að takast þarna á við það sem við teljum brýnast, þ.e. að koma til móts við börn og unglinga, þar er pottur brotinn mjög alvarlega, og svo örorku- og ellilífeyrisþega sem margir hverjir hafa ekki efni á að leita sér lækninga. Hitt er síðan alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að þetta á við um fleiri hópa, lágtekjufólk, og er sjálfsagt að skoða það, ekki stendur á okkur flutningsmönnum að leggjast í slíka athugun og styðja tillögur sem fram kæmu um það efni.