135. löggjafarþing — 59. fundur,  5. feb. 2008.

almannatryggingar.

60. mál
[16:55]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að nú er umræðan að byrja að verða spennandi. Hv. þingmaður vill að tannlækningar verði inni í heilbrigðiskerfinu og lúti sömu reglum væntanlega og gilda um aðra heilbrigðisþjónustu. Spurningin er þá á hvaða forsendum tannlækningar eigi að vera í heilbrigðiskerfinu og á hvaða forsendum eigi almennt að reka heilbrigðiskerfið. Á að gera það á þeirri forsendu sem hv. þm. Pétur H. Blöndal gerist nú talsmaður fyrir, að heilbrigðisþjónustan verði almennt færð inn á markaðstorgið?

Ég ætla ekki að elta ólar við þá einkunnagjöf sem hann gaf mér í umræðu um þetta efni, að ég vilji koma á einhverju sem heitir matvælaverslun ríkisins, þar gef ég mér að þingmaðurinn hafi verið að slá á létta strengi svona á sinn hátt.

Þetta hefur verið góð umræða um þetta frumvarp og vil ég leyfa mér fyrir hönd okkar flutningsmanna, hæstv. forseta þingsins, Þuríðar Backman, og mín og okkar annarra í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, sem stöndum að baki þessu frumvarpi, fyrir góðar undirtektir. Við teljum mjög brýnt að þetta mál fái framgang. Fyrsti flutningsmaður, hv. þm. Þuríður Backman, hefur bent á að þetta sé orðinn einn þyngsti bagginn sem hvílir á mörgum sjúkrasjóðum landsins, þ.e. umsóknir frá fólki sem leitar aðstoðar vegna tannlækninga. Það er ein birtingarmynd á þeim vanda sem hér er uppi.

Ég ítreka það sem ég sagði áður og hefur reyndar komið fram í máli annarra að upplýsingar sem fram hafa komið um þróun tannheilsunnar virðast vera nokkuð misvísandi. Eftir því sem ég skil þetta mál og eftir því sem ég hef skoðað það og eftir því sem við setjum fram í greinargerð okkar hefur tannheilsa almennt farið batnandi á Íslandi, bæði hvað varðar börn og unglinga og gamalt fólk einnig. Á hinn bóginn hefur komið fram í greinargerðum Lýðheilsustöðvar að við stöndum þar að baki öðrum Norðurlandaþjóðum. Í skýrslu Lýðheilsustöðvar sem kynnt var fyrir ári síðan kemur fram, með leyfi forseta:

„Í norrænum samanburði lætur nærri að íslensk börn og ungmenni séu að meðaltali með tvöfalt fleiri skemmdar tennur en samanburðarhópar í Svíþjóð“ — þetta er frá árinu 2005 og vísað í rannsókn þaðan — „og er staðan verri en á hinum Norðurlöndunum.“

Svo er þetta nánar skýrt og síðan segir, með leyfi forseta:

„Um 17% barna og ungmenna (4–18 ára), sem eru sjúkratryggð og búsett á Íslandi, mæta ekki í reglubundið eftirlit hjá tannlæknum yfir 18 mánaða tímabil.“

Síðan er einnig vísað í hópa sem verst eru settir, þetta er samanburður á ýmsum stærðum og hópum, að sá hópur virðist fara heldur stækkandi, heldur fjölgandi. Ég nefndi hér töluna 10–12%, að það hafi komið fram í rannsóknarskýrslum sem komu fram alla vega á tíunda áratugnum að 10–12% barna og unglinga færu ekki til tannlæknis. Hér er talan komin ívið hærra, 17%, samkvæmt þessari könnun. Ég held að þetta sé skýringin á þeim misvísandi upplýsingum sem fram koma, almennt fer ástandið batnandi en fjölgar heldur í þeim hópi sem verst er settur. Þarna er verk að vinna og það frumvarp sem við leggjum hér fram er liður í því að taka á þeim vanda.