135. löggjafarþing — 59. fundur,  5. feb. 2008.

Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra.

347. mál
[17:01]
Hlusta

Flm. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Það er ánægjuleg tilbreyting í nýjum þingsköpum að raða umræðum um tiltekin mál eftir málaflokkum og málasviðum eins og hér hefur verið gert í dag þar sem áhersla er lögð á heilbrigðismál. Mætti því ætla að þeir sem með þá málaflokka fara og eru í heilbrigðisnefnd þingsins væru hér viðstaddir alla umræðuna og þar á meðal ráðherrann sjálfur.

Það fór því miður svo að þegar hann hafði mælt fyrir þeim málum sem hann flytur hér, hæstv. ráðherrann, inn í þingið þá lét hann sig hverfa. Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að gera athugasemdir við þetta. Ég fullyrði að það er ekki í samræmi við þann skilning eða þá túlkun sem þingskapameirihlutinn frægi hafði hér uppi og ég og fleiri þingmenn höfðum gert okkur vonir um. Markmiðið var einmitt að geta átt orðastað við ráðherrann þegar mál sem snerta verksvið hans kæmu inn í þingið til umræðu. Ég ítreka því athugasemdir mínar við þetta, frú forseti.

Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga á heilbrigðissviði, fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra en þau lög eru nr. 18 frá 1984. Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Dýrleif Skjóldal sem sat hér í þinginu sem varamaður fyrir hv. þm. Steingrím J. Sigfússon sitt hvorum megin við áramótin, ef ég man rétt. Auk hennar flytja þetta frumvarp hv. þingmenn Þuríður Backman, Kristinn H. Gunnarsson og sú sem hér stendur. Frumvarpið gerir ráð fyrir að á eftir 1. mgr. 5. gr. laganna um Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra komi ný málsgrein svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Hafi sjónskertur til umráða leiðsöguhund sem stofnunin metur nauðsynlegt hjálpartæki skal hún veita hinum sjónskerta 15 þús. kr. framlag á mánuði vegna kostnaðar við umhirðu hundsins.“

Þannig háttar til að hv. þm. Dýrleif Skjóldal lagði hér fram hinn 10. desember síðastliðinn fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra um sama efni, þ.e. um leiðsöguhunda. Sú fyrirspurn, sem er að finna á þingskjali 419 í tveimur liðum, hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„1. Hvað er það sem kemur í veg fyrir að leiðsöguhundar fyrir blinda og daufblinda séu flokkaðir sem hjálpartæki en ekki sem gæludýr?

2. Stendur til að breyta þessari flokkun?“

Nú háttar svo til að hæstv. ráðherra er hér ekki á staðnum eins og ég hafði vænst og eins og full ástæða var til að ætla. Þannig er að fyrirspurnum sem þessum ber samkvæmt þingsköpum, nýjum og gömlum, að svara að jafnaði innan 10 virkra daga. Þessi fyrirspurn var lögð fram hér hinn 10. desember. Í dag er 5. febrúar og má af því sjá að töluvert er liðið fram yfir þann tíma.

Ég ætla því að leyfa mér að svara þessari fyrirspurn hér fyrir hæstv. ráðherra fyrst hann er ekki mættur sjálfur. Hv. þm. Dýrleif Skjóldal spurði hvað það er sem kemur í veg fyrir að leiðsöguhundar fyrir blinda og daufblinda séu flokkaðir sem hjálpartæki. Ég hygg að svarið sé einfalt. Það er vegna þess að heimildir skortir til þess. Það skortir reglugerð sem heimilar það. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur aðeins sett eina reglugerð við lögin um Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra sem tekur til 5. gr. um hjálpartæki og hún er um greiðslu kostnaðar við gleraugu.

Það er sem sagt andvaraleysi og skortur á fyrirhyggju, skortur á heimildum sem koma í veg fyrir það að leiðsöguhundar séu flokkaðir sem hjálpartæki. En hvað þýðir það að svo er ekki? Hvað þýðir það að leiðsöguhundar sem eru að flestra mati, vænti ég, nauðsynleg hjálpartæki fyrir blinda og daufblinda, eru flokkaðir sem gæludýr? Það þýðir töluverð fjárútlát. Kunnugir telja að það muni vera um 15 þús. kr. á mánuði að jafnaði sem það kosti að skrá og borga leyfisgjöld af slíkum hundi, greiða nauðsynlegan lækniskostnað sem upp kann að koma, hreinsun, eftirlit og svo auðvitað fóðrið sem kostar líka sitt.

Þarna er greinilega um töluverð útgjöld að ræða sem nauðsynlegt er að koma til móts við. Við höfum gert ráð fyrir því að koma megi til móts við og lækka þennan kostnað með því að setja, eins og ég nefndi fyrr, inn í 5. gr. laganna heimild til þess að veita hinum sjónskerta sem hefur leiðsöguhund 15 þús. kr. framlag á mánuði enda hafi Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra metið hundinn nauðsynlegt hjálpartæki.

En hvað er hjálpartæki? Skilgreininguna er að finna í reglugerð Tryggingastofnunar ríkisins vegna hjálpartækja. Í 2. gr. hennar segir, með leyfi forseta:

„Hjálpartæki er tæki sem ætlað er að draga úr fötlun, aðstoða fatlaða við að takast á við umhverfi sitt, auka eða viðhalda færni og sjálfsbjargargetu eða auðvelda umönnun.“

Í þessari sömu reglugerð kemur fram að áðurnefnd Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra annast úthlutun sérhæfðra hjálpartækja fyrir sjónskerta. Á heimasíðu stofnunarinnar kemur fram að Sjónstöð Íslands úthlutar samkvæmt þessari heimild sjónhjálpartækjum, tölvuhjálpartækjum, hvítum stöfum og hallandi borðum. Þar er auðvitað einnig hægt að kaupa ýmis önnur hjálpartæki.

Það verður að segjast eins og er að leiðsöguhundar eru ekki algeng sjón á götum borgarinnar eða yfirleitt á Íslandi. Hér á landi hafa til þessa aðeins verið þjálfaðir tveir leiðsöguhundar sem hjálpartæki fyrir blinda og aðeins annar þeirra er enn í notkun sem slíkur. Hann mun vera orðinn níu ára gamall, gigtveikur og mun hætta störfum fljótlega. Það var því mjög ánægjulegt þegar á síðasta ári var undirritaður samningur, reyndar fjórum dögum fyrir kosningar eins og svo margt annað sem undirritað var þá, nánar tiltekið 8. maí 2007. Þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, undirritaði samning og samkomulag við Blindrafélagið um kaup og þjálfun á fimm leiðsöguhundum fyrir blinda og sjónskerta. Í þessu samkomulagi fólst að ráðuneytið mundi leggja til rúmlega 17 millj. kr. til þess að standa straum af kostnaði við kaup og þjálfun á fimm leiðsöguhundum frá Noregi. Blindrafélagið legði á móti 8 millj. kr. Kostnaður við verkefnið var því áætlaður um 25 millj. kr.

Blindrafélagið gerði í framhaldi af þessu samning við hundaskóla norsku blindrasamtakanna um að þjálfa leiðsöguhundana og væntanlega notendur þeirra. Í maímánuði síðastliðnum fóru síðan væntanlegir eigendur hundanna, blindir og sjónskertir einstaklingar, utan til fyrstu þjálfunar. Þess má geta að þessi skóli hefur um 30 ára reynslu í þjálfun slíkra hunda og hundar þessir, fjórir eða fimm, eru væntanlegir hingað til lands nú í upphafi þessa árs. Það er auðvitað mjög gleðilegt fyrir þá sem hér eiga hlut að máli.

Leiðsöguhundar eru mikilvæg hjálpartæki fyrir blinda og sjónskerta og ekki síður mikilvægir félagar þeirra. Þeir auka frelsi og sjálfstæði notenda í daglegu lífi og þeir gera þeim kleift að sinna erindum sínum hjálparlaust sem annars krefðust aðstoðar frá öðru fólki. Á Norðurlöndum og víðar í Evrópu eru leiðsöguhundar algeng sjón í samfélaginu en eins og ég nefndi áðan þá eru þeir afar sjaldséðir hér á landi.

Nokkur vinna var lögð í það af hálfu hv. þm. Dýrleifar Skjóldal að finna þessu frumvarpi stað í íslenska lagasafninu því að spurning var um hvort það ætti heima í lögum um almannatryggingar eða hvort það ætti erindi í þau lög sem hér er gerð tillaga um að breyta varðandi Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra. Ég hygg að rétt sé að það eigi heima þar enda er í þessum lögum að finna ákvæði um að stöðin annist úthlutun sérhæfðra og nauðsynlegra hjálpartækja til skjólstæðinga sinna.

Ég tel að hér sé um mikið réttlætismál að ræða. Þeir einstaklingar sem núna á vordögum munu vonandi fá nýja hunda frá Noregi til þess að ferðast með hér um borgina og landið þurfa aðstoð til að reka þessi sérhæfðu hjálpartæki. Það er í góðu samræmi við þessi lög, um Sjónstöð Íslands, að ríkisvaldið taki þátt í kostnaði sem hlýst af umhirðu þessara hunda. Það er líka mikilvægt að styrkur sem þessi muni ekki að neinu rýra aðrar bætur sem hinn blindi eða sjónskerti hefur vegna fötlunar sinnar.

Ég vænti þess, frú forseti, að þessu frumvarpi verði vel tekið og að hv. heilbrigðisnefnd muni fara yfir það og veita því brautargengi hér inn í þingið sem fljótast aftur til þess að þeir einstaklingar sem taka á móti sínum hundum vonandi á allra næstu dögum, megi vera lausir við þann mikla rekstrarkostnað sem þeir ella hefðu af dýrunum.