135. löggjafarþing — 60. fundur,  6. feb. 2008.

mannréttindabrot í Guantanamo.

[13:44]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég þakka þær undirtektir sem þetta mál hefur fengið hér og skal ekki eyða meiri tíma í það í sjálfu sér. Ég er vongóður um að Alþingi taki myndarlega á þessu máli eins og það hefur stundum gert þegar grundvallarmannréttindamál eða stór utanríkispólitísk mál hafa átt í hlut. Það má í því sambandi minna á frumkvæði Alþingis að því að móta áherslur Íslands í sambandi við málefni Palestínu. Ég minni líka á að þetta er angi af stærra máli þar sem ærin ástæða er til að hafa áhyggjur af þróun grundvallarmannréttinda vegna ásækni í svonefndu stríði gegn hryðjuverkum til að víkja til hliðar klassískum borgaralegum réttindum og mannréttindum. Það tengist til dæmis umræðu sem hér var nefnd um fangaflug og ólögleg fangelsi eða ólöglega geymslustaði á föngum í Evrópu. Það tengist flutningum á föngum til landa þar sem pyndingar eru leyfðar eða að minnsta kosti látnar afskiptalausar og það tengist einu fyrirbæri enn sem nú er til skoðunar hjá Evrópuráðinu en það eru svonefndir svartlistar eða „blacklisting“ þar sem fólk er sett á lista og flokkað sem mögulegir hryðjuverkamenn án þess að koma við andmælum sjálft og án þess að eiga eiginlega nokkra leið út af þeim listum þó það reynist saklaust. Þetta fyrirbæri er núna til skoðunar hjá Evrópuráðinu og því miður bendir margt til þess að ekki síst séu gróflega brotin mannréttindi á saklausu fólki í þessu tilviki. Þetta er því angi af stærra máli sem allt hlýtur að þurfa að koma til skoðunar. En ég fagna því að hér skuli vera alger samstaða um að Alþingi taki af skarið fyrir sitt leyti og afgreiði ályktun þar sem mannréttindabrotin eru fordæmd og bandarísk stjórnvöld hvött til að loka fangabúðunum í Guantanamo.