135. löggjafarþing — 60. fundur,  6. feb. 2008.

skimun fyrir krabbameini.

330. mál
[14:00]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Herra forseti. Hinn 17. mars árið 2007 var samþykkt á Alþingi þingsályktunartillaga þar sem hæstv. heilbrigðisráðherra var falið að hefja undirbúning að skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi og skyldi leitin hefjast á árinu 2008. Það var Drífa Hjartardóttir, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokks á Suðurlandi sem var 1. flutningsmaður þingsályktunartillögunnar en auk hennar voru á tillögunni fimm þingmenn úr öllum flokkum.

Þessi tímamótasamþykkt Alþingis átti sér langan aðdraganda en allt frá árinu 2000 hafði Árni heitinn Ragnar Árnason þingmaður lagt á það áherslu hér í málflutningi og tillögugerð að auka fræðslu um þennan sjúkdóm og á mikilvægi þess að fólk þekkti fyrstu einkenni hans. Árni Ragnar Árnason var ásamt 17 öðrum þingmönnum úr öllum flokkum flutningsmaður þingsályktunartillögu sem var samþykkt hér á árinu 2002 um að gerðar skyldu tillögur um hvernig standa skyldi að forvörnum og leitarstarfi. Síðan birti nefnd á vegum landlæknisembættisins klínískar leiðbeiningar og mælti með að skimun fyrir ristilkrabbameini yrði framkvæmd en þá höfðu Finnar hafið slíka skimun. Þar var lagt til að hefja leit meðal karla og kvenna 50 ára og eldri á tveggja ára fresti auk þess sem gert var ráð fyrir sérstakri leit hjá áhættuhópum.

Krabbamein í ristli er annað algengasta krabbameinið sem greinist á Íslandi og er önnur algengasta dánarorsökin af völdum krabbameina á landinu. 120 manns greinast árlega með krabbamein í ristli, konur jafnt sem karlar, og látast 50 af hans völdum. Áhættan vex með hækkandi aldri, 67% þeirra sem fá ristilkrabbamein eru 75 ára og eldri en þess eru dæmi að fólk mun yngra, jafnvel niður í 40, 45 ára fái þennan sjúkdóm.

Alþingi lagði óvenjulega mikla áherslu og með mikilli samstöðu á þessa leit eða skimun eins og þetta mun kallað og því er forvitnilegt að heyra nú á nýbyrjuðu ári hvað undirbúningnum líði og hvenær þessi samþykkt þingsins kemur til framkvæmda.

Ég hef því lagt fram eftirfarandi fyrirspurn til heilbrigðisráðherra:

Hvað líður undirbúningi að skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi sem hefjast á á árinu 2008, samanber ályktun Alþingis frá 17. mars 2007?