135. löggjafarþing — 60. fundur,  6. feb. 2008.

skimun fyrir krabbameini.

330. mál
[14:07]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil undirstrika að ristilkrabbamein er algengasta krabbamein í Evrópu samkvæmt nýjum upplýsingum þegar austurhlutinn og EFTA-löndin eru tekin með, þ.e. nýgengi ristilkrabbameins er hærra en nýgengi lungnakrabbameins. Þetta er því mikilvægt mál.

Ég vil líka undirstrika að það var gerð forkönnun á skimun á vegum Krabbameinsfélagsins 1986 og 1988 og þá fundust einstaklingar með krabbamein eða í einu tilfelli af hverjum 800 sem tóku þátt í rannsókninni. Þá fannst líka fjöldi ristilsepa sem er forstig flestra krabbameina í ristli en brottnám þeirra skilar árangri í fækkun krabbameinstilfella í framhaldinu á næstu 7 til 10, 20 árum þar á eftir, þannig að þessi tillaga sem var samþykkt hér gengur bæði út á að finna krabbameinið sjálft og líka forstig krabbameinsins, þ.e. sepana.

Þetta er því mikilvægt mál og ég fagna því að við sjáum fyrir endann á því að hefja þessa skimun þó að við höfum reyndar samþykkt að hefja hana 2008 en ég heyri að það á að gera það 2009.