135. löggjafarþing — 60. fundur,  6. feb. 2008.

skimun fyrir krabbameini.

330. mál
[14:10]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa ágætu umræðu. Það liggur fyrir og þarf náttúrlega ekki að koma neinum á óvart að við vissum hvaða fjármunir voru lagðir í þetta í fjárlögum, það voru 20 millj. kr. til að undirbúa þetta. Ég held að við séum sammála um það, virðulegi forseti, þegar við skoðum mál eins og þessi að það borgar sig að leggja góða vinnu í undirbúning. Þetta er ekki einfalt mál og ef við ætlum að láta takast vel til, sem ég veit að við erum öll sammála um, skiptir máli að við leggjum okkur fram um að undirbúa málið eins vel og mögulegt er.

Það voru athyglisverðar upplýsingar sem komu fram hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur hversu miklu betri árangurinn er varðandi lífslíkur fyrir þær konur sem mæta í brjóstaskoðun. Þetta ætti að vera hvatning fyrir okkur að hvetja í þessu tilfelli konur til þess að nýta sér þetta úrræði og það er nokkuð sem við eigum að leggja mikla áherslu á. Við kannski tökum það sem sjálfsagðan hlut að þar sem þetta er í boði þá nýti fólk sér þetta en það er ekki svo, því miður. Það er einn þátturinn í þessu, eitt er að fara í verkefnið og annað að sjá til þess að það nýtist sem best. Það nýtist ekki vel nema fólk mæti í þessu tilfelli í viðkomandi skimun og aðrar fyrirbyggjandi aðgerðir.

Varðandi það hvort Krabbameinsfélagið eigi að koma að þessu tók ég það fram í svari mínu að að sjálfsögðu munum við kalla eftir því og í rauninni hef ég rætt við forsvarsmenn þeirra aðila og gerði það fyrir áramótin í tengslum við þessi mál. Auðvitað viljum við helst gera alla hluti sem allra fyrst og það er vel, en það borgar sig að leggja mikla og góða undirbúningsvinnu í mál eins og þetta ef við ætlum að sjá til þess að það beri tilætlaðan árangur.