135. löggjafarþing — 60. fundur,  6. feb. 2008.

krabbamein í blöðruhálskirtli.

334. mál
[14:21]
Hlusta

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir bráðnauðsynlega fyrirspurn og jafnframt hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svör hans. Því miður er það svo að þessi sjúkdómur sækir fleiri en þá sem eru orðnir fimmtugir og eldri og þess eru allt of mörg dæmi að einstaklingar allt niður í fertugt og jafnvel yngri fái þennan sjúkdóm sem sýnir alvarleikann.

Ég hjó eftir því að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir vitnaði í rannsóknir hjá Cancerfonden í Svíþjóð þar sem hún benti á að DNA-rannsóknir gætu skimað frá þá sem væru í meiri áhættuhópi en aðrir og ég gef mér þá að hv. þingmaður sé sammála því að DNA-kortlagning geti verið nauðsynleg í tilgangi sem þessum.