135. löggjafarþing — 60. fundur,  6. feb. 2008.

uppbygging heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu.

336. mál
[14:26]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég hlýt að nefna það í upphafi máls míns að ég sakna svars við fyrirspurn sem ég óskaði skriflegs svars við um fjölda heilsugæslulækna á höfuðborgarsvæðinu og hversu margir eru án heilsugæslu- eða heimilislæknis á starfssvæðinu, en svar við þessari fyrirspurn frá 16. janúar liggur því miður ekki fyrir. En því er ekki að neita að heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu, stærsta stofnun á því sviði í landinu með yfir 193 þúsund skjólstæðinga er í uppnámi og starfsemin lömuð af áratuga fjársvelti sem engan enda sér á.

Undanfarna daga höfum við fengið fregnir í fjölmiðlum m.a. af því að 30 þúsund manns á þessu svæði séu í raun án heilsugæslulæknis ef miðað er við að 1.500 manns skulu vera á bak við hvern lækni. En þeir eru víða mun fleiri sem hver læknir sinnir, allt að 2.300 manns þannig að samkvæmt opinberum tölum eru það aðeins um 8.500 sem teljast án læknis á höfuðborgarsvæðinu.

Við höfum líka fengið af því fregnir að það stefni í skort á læknum, að á næstu 10–15 árum séu 75 heilsugæslulæknar að hætta og aðeins 25 séu í sérnámi. Við höfum líka séð að 10 skjólstæðingar bætast við í hverri viku í Árbæ þar sem mikil uppbygging er bæði í Grafarholtinu og í Norðlingaholti og þó að þar sé verið að byggja stöð, sem er auðvitað sjálfsagt og lofsvert, þá eru engar heimildir til að fjölga þar læknum, það fæst ekki fjárveiting til þess og því er það að þegar læknir hættir þar af einhverjum ástæðum þá gerast þau ósköp að það er sent út bréf til 400 einstaklinga og þeim er sagt: Því miður, læknirinn þinn er hættur og þú færð ekki þjónustu. Þetta er auðvitað hneyksli. Ég skal taka það skýrt fram að þetta var leiðrétt en þarna varð fólki auðvitað verulega illa við. En þetta lýsir ástandinu og þegar umræddur læknir fer eitthvert annað þá er ráðningarbann í heilsugæslustöðinni, segir forstöðumaður heilsugæslustöðvarinnar.

Hvers vegna skyldi það vera? Það er vegna þess að það vantar 500 millj. kr. í heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu á þessu ári. Það vantar 120 millj. kr. í rekstur ársins ef ekki á að skerða þjónustuna og skuldir við birgja, uppsafnaður halli og fyrirsjáanlegur halli á þessu ári gerir það að verkum að þetta eru um 500 millj. kr.

Það er greinilegt að að mati heilsugæslunnar hér er ástandið verst í Árbæ og Miðbæ en það er einnig mjög slæmt í Glæsibæ, Grafarvogi og í Mosfellsbæ. Það er auðvitað mjög aðkallandi að mæta þessari fjölgun og byggja upp heilsugæslu í nýjum hverfum og auka þjónustuna í eldri hverfum. Þetta er óþolandi ástand sem við horfum fram á og því spyr ég hvernig ráðherra hyggist bregðast við þessu ástandi.