135. löggjafarþing — 60. fundur,  6. feb. 2008.

uppbygging heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu.

336. mál
[14:30]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn. Mér hefur fundist hv. þingmaður vera afskaplega málefnaleg í umræðum í dag en henni hefur væntanlega fundist ástæða til að breyta eitthvað örlítið út af því núna. Ég veit ekki hvers vegna menn hamast alltaf á því eða halda að með því að segja það nógu oft verði einhver sannleikur í því að það vanti 500 millj. kr. í heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu. Ég hef ekki hugmynd um af hverju það er. (Gripið fram í.) Hins vegar veit ég að það er alrangt, það er nákvæmlega ekkert sem bendir til þess að svo sé, enda mundi nú muna um minna ef þarna vantaði 500 millj. Ef menn vilja fá upplýsingar um þetta þá er það ekkert mál. En það er ekki gott þegar menn tyggja þetta upp hvað eftir annað, því að ef allir segja þetta nógu oft telja menn jafnvel að eitthvað sé til í því.

En varðandi þessa fyrirspurn þá fagna ég því að hér séu rædd málefni heilsugæslunnar sem og annarrar heilbrigðisþjónustu. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir spyr hvernig bregðast eigi við aukinni þörf fyrir þjónustu, bæði í eldri stöðvunum og í nýjum hverfum. Því er til að svara að ég tel að heilsugæslan sé og verði áfram hornsteinn grunnþjónustunnar á höfuðborgarsvæðinu sem og annars staðar á landinu. Alls staðar á landinu er mikilvægt að heilsugæslan sé nálæg, vel aðgengileg fyrir fólk og mönnuð af færu starfsfólki.

Eftir að ég kom í ráðuneytið var strax farið í það að skoða þessi mál. Við höfum verið að skoða reynsluna af þeirri þjónustu sem er til staðar núna. Rekstrarform er mismunandi og mismunandi hlutir sem verið er að nýta þarna og við höfum ágætisupplýsingar um gæði og þjónustu, afköst og annað slíkt. Þetta höfum við verið að skoða og ekki aðeins það, heldur hef ég, eins og ég hef lýst yfir, skipað sérstakan starfshóp undir formennsku Guðjóns Magnússonar, sem er fyrrum framkvæmdastjóri hjá Evrópuskrifstofu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í Kaupmannahöfn. Guðjóni er ætlað að leiða þennan hóp og hópnum að skila mér áfangaskýrslu strax á vormánuðum. Auk þess höfum við átt samræður við ýmsa aðila, forustumenn lækna og aðra slíka á heilsugæslunni til að fá fram hugmyndir þeirra um framtíðaruppbyggingu á þessu sviði og ég var bara fyrir nokkrum klukkustundum að ræða við yfirlækna um þessi mál. Ég mun bregðast frekar við þegar ég hef álit þessarar nefndar í höndunum.

Hvað varðar byggingaráformin þá er nú verið að vinna að byggingu nýrrar 10 lækna stöðvar í Árbæjarhverfi og á því verki að ljúka á þessu ári. Mun það bæta verulega möguleika þeirrar stöðvar til að sinna nálægum hverfum. Einnig er í skoðun sá möguleiki að stækka húsnæði heilsugæslustöðvar Miðbæjar en ákvarðanir hafa ekki verið teknar í því efni. Frekari áform um byggingar munu bíða þar til álit áðurgreindrar nefndar liggur fyrir.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan að ég tel að heilsugæslan sé og verði hornsteinn þjónustunnar. Hún mun fá vaxandi verkefni í framtíðinni og verður að geta sveigt sig og sinnt breyttum þörfum fólks, bæði hvað varðar aðgengi og úrlausnir.

Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í svari mínu er veruleg undirbúningsvinna í gangi er tengist þessari fyrirspurn og ég á von á því að frekari áætlanir liggi fyrir á fyrri hluta þessa árs eða um mitt þetta ár. Eins og hjá mörgum öðrum þjóðum sjáum við fram á aukna eftirspurn á þessu sviði. Til að einfalda hlutina aðeins getum við farið yfir það. Ef við tölum um heilbrigðisþjónustuna í heild og ef við berum okkur saman við nágrannalöndin, OECD-löndin, þá eyðum við eða setjum til hennar sem samsvarar því að við séum númer 5 eða 6 hvað útgjöld snertir á hvern íbúa. Það er kannski ekkert merkilegt vegna þess að við erum rík þjóð en það er merkilegt vegna þess að við erum ein yngsta ef ekki yngsta þjóðin innan OECD. Þumalputtareglan er sú að kostnaður vegna þeirra sem eru 65 ára og eldri eru fjórum sinnum meiri en vegna þeirra sem yngri eru. Og það sem er að gerast á Íslandi er einfaldlega það að þjóðin er að eldast mjög mikið eins og við vitum.

Við horfum fram á spennandi viðfangsefni, hvernig við mætum þessu og gerum góða þjónustu enn betri, og það er nokkuð sem við höfum verið að vinna að eins og ég nefndi áðan. Ég vonast til að þetta svari spurningu hv. þingmanns.