135. löggjafarþing — 60. fundur,  6. feb. 2008.

uppbygging heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu.

336. mál
[14:39]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég ætla ekki að þrátta hér við hæstv. ráðherra um þessar 500 millj. kr. Ég ætla að láta mér nægja, vegna þess stutta tíma sem ég hef hér, að leggja á borðið hjá honum viðtöl við tvo forsvarsmenn í heilsugæslunni. Annars vegar Guðmund Einarsson, forstjóra heilsugæslunnar, og hins vegar Gunnar Inga Gunnarsson, yfirlækni á heilsugæslustöðinni í Árbæ, þar sem þessar tölur koma fram og forsendurnar fyrir þeim eru raktar.

Ég tel afskaplega mikilvægt að tekið verði heildstætt á málefnum heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Ég get ekki annað en fagnað því að það skuli hafa verið sett nefnd í að vinna málið undir forustu Guðjóns Magnússonar og ég vona svo sannarlega að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu fái að koma að því verki.

Ég leyni ekki þeirri skoðun minni að Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins er í mínum huga allt of stór stofnun og of miðstýrð og of langt frá þeim sem eiga að njóta þjónustunnar, en það er kannski umræða sem við gætum tekið hér seinna.

Ég hlýt að ítreka það að ástandið á þessu svæði er miklum mun verra en nokkurs staðar annars staðar á landinu og í rauninni er um grófa mismunun að ræða gagnvart íbúum á þessu svæði. Það er vissulega ekki svo að 30 þúsund manns hafi ekki heimilislækni eða heilsugæslulækni hér á svæðinu. Þetta er útreiknuð tala út frá þeim forsendum sem læknar vilja hafa um að það eigi að vera aðeins 1.500 manns á bak við hvern lækni, en eins og ég rakti áðan eru það allt upp í 2.300. Samkvæmt tölum heilsugæslunnar eru það um 8.500 manns sem eru algjörlega án læknis og þvælast á milli í þessi dýru úrræði og fá ekki þjónustu nema að borga miklu meira fyrir hana. Þess vegna lagði ég fyrirspurn fyrir hæstv. ráðherra um tölur í þessum efnum en þar bíð ég enn skriflegs svars og vona að við eigum eftir að fjalla oftar um þetta mál hér og fá (Forseti hringir.) gleðilegri fréttir af því.