135. löggjafarþing — 60. fundur,  6. feb. 2008.

heimsóknir í fangelsi.

173. mál
[14:43]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Herra forseti. Allsherjarnefnd Alþingis heimsótti Litla-Hraun fyrir stuttu og var heimsóknin afar fróðleg og er ljóst að starfsfólkið þar vinnur gott starf við erfiðar aðstæður. Margt jákvætt hefur verið gert hjá Fangelsismálastofnun að undanförnu og ekki síst undir stjórn Valtýs Sigurðssonar. Ég vil nota þetta tækifæri og færa honum þakkir fyrir vel unnin störf í þágu þessa málaflokks en eins og alþjóð veit hefur Valtýr verið skipaður ríkissaksóknari.

Ég bind sömuleiðis miklar vonir við nýja fangelsismálastjórann, Pál Winkel. Ég vil einnig fagna skipun Margrétar Frímannsdóttur sem forstöðumanns Litla-Hrauns en það eru fáir einstaklingar sem hafa jafnmikla þekkingu og áhuga á fangelsismálum og Margrét.

Þótt margt gott hafi verið gert í þessum málaflokki, m.a. fyrir tilstuðlan núverandi dómsmálaráðherra, eru verkefnin því miður næg. Eitt þessara verkefna er að bæta fyrirkomulag heimsókna á Litla-Hrauni. Eins og allir vita er ein besta leiðin fyrir fanga til að ná fram betrun og auðvelda endurkomu hans í samfélagið, að hann glati ekki samskiptum við fjölskyldu sína.

Í nýlegu Verndarblaði gerir formaður Verndar og fangelsismálaprestur, Hreinn S. Hákonarson, það að umfjöllunarefni og segir, með leyfi forseta:

„Heimsóknaraðstaða barna í fangelsum ætti því að vera utan fangelsis í öllum tilvikum. Barnið ætti ekki að þurfa að ganga inn fyrir dyr fangelsis til að njóta samvista með foreldri eða öðrum nákomnum.“

Einnig segir Hreinn að afbrot foreldris séu barninu algjörlega óviðkomandi en að samskipti fanga við börn sín geti vakið með þeim það besta sem býr í þeim.

Ég er því sannfærður um að eitt það skynsamlegasta sem við getum gert í fangelsismálum sé að fjölga heimsóknartímum og bæta heimsóknaraðstöðuna til muna, m.a. þannig að börn þurfi aldrei að fara inn fyrir veggi öryggisfangelsis. Því spyr ég hæstv. dómsmálaráðherra hvort hann sé ekki tilbúinn að beita sér í þá átt.