135. löggjafarþing — 60. fundur,  6. feb. 2008.

málefni fatlaðra.

357. mál
[14:53]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Rósa Guðbjartsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Tilfærsla á málaflokki fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga hefur verið til umræðu og í bígerð í alllangan tíma líkt og málefni aldraðra. Sveitarfélögin kalla eftir frekari verkefnatilfærslu enda er almenn ánægja með þróun mála eftir að málefni leik- og grunnskóla voru flutt frá ríkinu til sveitarfélaga. Þannig hefur þjónustan eflst til muna, orðið skilvirkari og sveitarfélögin hafa mótað sínar eigin skólastefnur. Auk þess má horfa til góðrar reynslu Akureyrar og Hornafjarðar sem hafa sem reynslusveitarfélög annast rekstur málaflokka aldraðra og fatlaðra um árabil.

Kominn er tími til að fleiri stór verkefni verði færð til eins og málefni fatlaðra. Um hálft prósent íbúa landsins þarf á sérhæfðri þjónustu að halda vegna fötlunar sinnar. Þar er helst um að ræða búsetuform, liðveislu, skammtímavistun og dagþjónustu. Það gefur að skilja að fötluðu fólki og aðstandendum þeirra væri mikill stuðningur fólginn í því að þjónusta þeim til handa yrði öll undir einum hatti, fyrst og fremst notandanum sjálfum til góða en einnig yrðu þeir sem veita þjónustuna í meiri tengslum við þá sem á henni þurfa að halda. Nærþjónustan auðveldar öll samskipti.

Við tilfærslu á málaflokkum, eins og þessum frá ríki til sveitarfélaga, mun þjónustan ekki eingöngu aukast, heldur tel ég að ýmis tækifæri muni skapast til að brjóta núverandi kerfi upp. Sumt gerist vissulega sjálfkrafa við flutninginn en það væri mjög spennandi að huga sérstaklega að því hvort leggja ætti meiri áherslu á fjölbreyttari rekstrarform en við þekkjum í dag. Það geta skapast ýmis tækifæri fyrir fagfólk, einkaaðila, sjálfstæð fyrirtæki og aðra til að taka að sér í auknum mæli að reka ýmsa þjónustuþætti sem þarna falla undir.

Því spyr ég hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra:

„1. Hvernig stendur undirbúningur að tilfærslu málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga?

2. Er ráðherra hlynntur því að við undirbúning á tilfærslu málaflokksins verði hugað sérstaklega að fjölbreyttari rekstrarformum á sambýlum og annarri þjónustu við fatlaða en nú er?“