135. löggjafarþing — 60. fundur,  6. feb. 2008.

málefni fatlaðra.

357. mál
[15:03]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna þessari umræðu um málefni fatlaðra og tilflutning til sveitarfélaganna, ég held að mikil samstaða sé um þetta. Það er mjög mikilvægt að þessi mál verði færð til sveitarfélaganna þar sem hægt er að samþætta þjónustuna, bæta hana og skipuleggja með öðrum hætti en nú er gert.

Það þarf að drífa í þessu einfaldlega vegna þess að biðin reynist ávallt hættuleg. Menn eru í biðstöðu með að víkka út þjónustuna um landið. Sveitarfélögin halda að sér höndum. Ríkið gerir það að sumu leyti líka. Við höfum góð dæmi um að þjónustunni sé vel sinnt, eins og fram hefur komið, á nokkrum stöðum á landinu þar sem þjónustusamningar hafa verið gerðir. En ég hef ástæðu til að ætla að á sama tíma hafi önnur svæði setið eftir og þess vegna þarf að drífa í því að fjalla betur um þennan málaflokk, greina betur það verkefni sem við er að etja og efla þjónustuna í landinu í heild samhliða flutningnum.