135. löggjafarþing — 60. fundur,  6. feb. 2008.

málefni fatlaðra.

357. mál
[15:04]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að taka málið upp og hæstv. ráðherra fyrir skýr og greinargóð svör. Það er mikilvægt að flytja þessa sjálfsögðu nærþjónustu til sveitarfélaganna en um leið brýnt að þau séu nægilega stór til þess að geta veitt góða þjónustu. Það er því gott að gert sé ráð fyrir þjónustusvæðum með ákveðinn lágmarksíbúafjölda, 7.000–8.000 íbúa, til þess að tryggja að þjónustan verði góð. Það þarf líka að gæta sérstaklega að því, vegna þess að við erum lítið land og þekkingu á vissum atriðum í málaflokknum er aðeins hægt að hafa á landsvísu, að hafa miðlægar þekkingarmiðstöðvar til að styðja sveitarfélögin í því að veita þessa þjónustu.

Þó að við séum út af fyrir sig jákvæð gagnvart ýmsum rekstrarformum hljótum við, eins og fram kom hjá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni, að eftirláta sveitarfélögunum, hverju og einu, að ákveða rekstrarform (Forseti hringir.) þessarar þjónustu eins og annarrar þjónustu sveitarfélaganna.