135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

1. fsp.

[10:33]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um málefni er varðar almenna umræðu erlendis um stöðu þorsks, m.a. í Svíþjóð.

Nýlega hafa mér borist upplýsingar um að World Wide Fund for Nature, sem eru ábyrg samtök á sínu sviði, hafi talið og flokkað þorsk á þann hátt að ekki sé æskilegt fyrir neytendur á erlendum mörkuðum að beina sjónum sínum að slíkum kaupum, enda sé þorskurinn í útrýmingarhættu. Undir þetta hefur tekið á beinan og óbeinan hátt sænska fiskistofan, Fiskeriverket, og eins er áberandi í umræðu við sænskar verslunarkeðjur, sem lýsa þeirri sýn sem birtist neytendum þar í landi, að þegar talað er um fiskstofna í hættu sé verið að tala um verndun síðustu fiskanna á meðan við hér á landi tölum um verndun til að koma í veg fyrir hrun fiskstofna, þ.e. nokkurs konar forvarnir.

Ég er ekki viss um að allir átti sig á því, virðulegi forseti, að hér er um að ræða himin og haf milli nálgunar okkar á Íslandi til þessara mála og t.d. umræðunnar í Svíþjóð. Eitt af þeim verkum sem vinna má er að skilgreina betur Íslandsmið innan veiðisvæðis 27, en það nær yfir Eystrasaltið, Skagerak, Kattegat, Norðursjóinn, Norðaustur-Atlantshaf, Noregsmið og Barentshafið auk Íslandsmiða. Með því að skilgreina betur Íslandsmið innan veiðisvæðis 27 er síður hætta á að fiskstofnar okkar séu settir undir sama hatt og fiskstofnar á þessu svæði sem eru í verulegri hættu. Einnig væri hægt að hefja markvissa vinnu við að styrkja þá ímynd sem íslenskur fiskur hefur haft í gegnum tíðina erlendis og nota hana sem markaðsaðgerð til að örva sölu á íslenskum fiski. Sem dæmi má nefna að Norðmenn hafa í fjölda ára með samvinnu ríkis og hagsmunaaðila markvisst markaðssett norskan eldislax og nú er svo komið að hann er orðinn ímynd gæða um allan heim.

Því spyr ég hæstv. ráðherra hvort eitthvað sé unnið að því innan ráðuneytisins að skoða þessi mál þannig að unnið sé að því að koma íslenskum þorski betur á markaðskortið sem fiski veiddum af ábyrgð og úr fiskstofni sem reynt er að stýra af ábyrgð, m.a. þannig að við föllum ekki undir sömu flokkun innan veiðisvæðis 27 sem hefur þessi augljósu neikvæðu markaðsáhrif eins og ég hef lýst m.a. á Norðurlöndum, hjá World Wide Fund, hjá sænsku fiskistofunni og svo hugsanlega annars staðar í Evrópu.