135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

2. fsp.

[10:39]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Að undanförnu hefur allmikið verið rætt um reykingar á veitinga- og skemmtistöðum í kjölfar ákvörðunar nokkurra kráareigenda að virða reykingabann að vettugi og heimila reykingar innan dyra í trássi við skýr lagaákvæði. Eins og við mátti búast sýnist sitt hverjum í þessu máli. Þótt kráareigendur hafi ákveðið að láta af mótmælum sínum við reykingabannið að sinni a.m.k. heyrast einnig þau sjónarmið að knýja verði á um breytingar.

Þetta mál allt vekur hins vegar upp spurningar um tilganginn og markmiðið með reykingabanni í opinberu rými. Í tóbaksvarnalögunum segir m.a., með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er að draga úr heilsutjóni og dauðsföllum af völdum tóbaks með því að minnka tóbaksneyslu og vernda fólk fyrir áhrifum tóbaksreyks.

Virða skal rétt hvers manns til að þurfa ekki að anda að sér lofti sem er mengað tóbaksreyk af völdum annarra.“

Rannsóknir sýna að undanfarin ár hefur stöðugt dregið úr reykingum og vafalaust á þrotlaus barátta tóbaksvarnaráðs og Lýðheilsustöðvar undanfarin ár ríkan þátt í þeim árangri sem þrátt fyrir allt hefur náðst. Engu að síður er samfélagskostnaður vegna reykinga gífurlegur og í skýrslu Hagfræðistofnunar háskólans árið 2003 er hann áætlaður um 20 milljarðar kr. á verðlagi ársins 2000. Þar af er heilbrigðiskostnaðurinn einn og sér talinn á sjötta milljarð króna. Rannsóknir sýna enn fremur að árlega deyja fleiri af völdum beinna og óbeinna reykinga á Íslandi en vegna neyslu ólöglegra fíkniefna, áfengisneyslu, umferðarslysa, morða, sjálfsmorða og alnæmis samanlagt eða um 350–400 manns. Hér er því á ferðinni stórt heilbrigðismál, lýðheilsumál sem við verðum að taka alvarlega. Óbeinar reykingar valda miklum skaða og er réttur til hreins og ómengaðs andrúmslofts sjálfsögð mannréttindi. Markmið hins víðtæka reykingabanns samkvæmt tóbaksvarnalögum er vitaskuld að draga úr þjáningum og dauðsföllum af völdum reykinga, beinna og óbeinna, og bæta almenna lýðheilsu þjóðarinnar.

Vegna þeirrar umræðu sem ég gat um í upphafi og hugsanlegra áhrifa hennar er því rétt að leita eftir viðhorfum hæstv. heilbrigðisráðherra og spyrja að því hvort hann telji ekki nauðsynlegt að standa vörð um og hvika hvergi frá metnaðarfullum markmiðum tóbaksvarnalaga sem við eins og svo margar aðrar þjóðir höfum sett okkur.