135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

2. fsp.

[10:44]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég fagna því sem hæstv. heilbrigðisráðherra segir hér í svari við stuttri fyrirspurn minni. Ég fagna áherslum hans í þessu máli og ég get tekið undir með honum í því síðasta sem hann vakti sérstaklega máls á er varðar Alþingi sjálft. Það breytir ekki hinu að það sem er mikilvægast í mínum huga er að standa í lappirnar, þ.e. að standa með bættri lýðheilsu þjóðarinnar, standa með þeim metnaðarfullu markmiðum að draga úr þjáningum og fækka dauðsföllum af völdum beinna og óbeinna reykinga. Að sjálfsögðu á Alþingi sjálft og heilbrigðisráðherra ekki síst að ganga á undan og vera þar í fararbroddi með góðu fordæmi og hvika hvergi. Ég skil svar hæstv. ráðherra þannig að það sé afdráttarlaust af hans hálfu að hann muni ekki a.m.k. styðja það eða ljá máls á því að menn hviki frá þeim markmiðum og þeim ákvæðum sem núgildandi tóbaksvarnalög gera ráð fyrir í þessu efni.