135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

hugmyndir um uppkaup á mjólkurkvóta.

[10:56]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég fæ engan botn í hugmyndir framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins nema meiningin sé að öllum stuðningi við landbúnaðinn verði hætt samhliða uppkaupum á fjárfestingu bænda í mjólkurframleiðslukvótum. Það hlýtur að fylgja með í pakkanum, annars væri hugmyndin bara fullkomlega galin, satt að segja.

Ég er sammála hæstv. ráðherra um að það beri að halda áfram stuðningi við landbúnaðinn, bæði mjólkurframleiðslu og sauðfjárframleiðslu. Ég er hins vegar ekki viss um að sá stuðningur eigi að vera í því formi sem hann er nú. Ég held að skoða verði breytingar á þeim stuðningi.

Við verðum að þó grundvalla málið á þeim forsendum að hér sé um að ræða opna atvinnugrein þar sem stjórnarskrárákvæði um atvinnufrelsi tryggi hverjum manni rétt til að hefja framleiðslu. Við verðum að tryggja það umhverfi því að annars lendum við í sömu ógöngum og við erum komin með í sjávarútveginum. (Forseti hringir.)