135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

5. fsp.

[11:03]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Þetta var loðið svar. Þó var aðalinntakið sennilega í lokaorðunum þar sem hæstv. fjármálaráðherra sór af sér menntamálaráðherrann. Það er mjög dapurlegt en hæstv. menntamálaráðherra færir fram þau rök í máli sínu að kennarar hafi sannarlega dregist aftur úr, mönnunarvandinn á því sviði er þekktur sem og í umönnunarstéttum.

Ríkisstjórnin hefur þegar klúðrað samskiptum sínum við aðila almenna vinnumarkaðarins og er búin að hleypa málum þar í uppnám. En hún hefur enn tækifæri til að leggja eitthvað jákvætt á borðið og gefa mönnum von um að eitthvað geti gerst í launamálum opinberra starfsmanna. Þeirra samningar eru að losna eða lausir. Þar eru fjölmennar stéttir, m.a. kvennastéttir, t.d. kennarar eins og allir vita. Það eru miklar mótsagnir í þessu öllu hjá hæstv. fjármálaráðherra sé a.m.k. ekki gefin einhver von um (Forseti hringir.) að ríkisstjórnin sé tilbúin til þess að ræða við þessar stéttir (Forseti hringir.) með því hugarfari að laun þeirra verði bætt.