135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

5. fsp.

[11:04]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég held að það sé ekkert skrýtið þótt eitthvað sé loðið sem þeir segja sem standa í samningum eða stendur fyrir dyrum að fari í samninga. Þar af leiðandi held ég að hv. þingmaður hljóti að hafa skilning á því að það er engin leið fyrir fjármálaráðherra, sem á að standa í þessum samningum, að segja úr ræðustóli Alþingis hvernig samningarnir eigi að vera. (Gripið fram í.)

Hins vegar var ekkert loðið við það sem ég sagði um ummæli menntamálaráðherra. En það er ekki menntamálaráðherra sem fer með samninga við opinbera starfsmenn. Það er fjármálaráðherrann sem fer með þá. Hvað sem líður góðum hug menntamálaráðherra verðum við að gæta að því hvernig við stöndum að okkar samningum, hvernig þeir snúa að öðrum sem semja á almenna markaðnum og reyndar öðrum á hinum opinbera markaði. Það gæti kannski verið að þeir kennarar sem hafa dregist aftur úr séu frekar grunnskólakennarar (Forseti hringir.) en framhaldsskólakennarar.