135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

háhraðatengingar og starfsemi Fjarskiptasjóðs.

[11:06]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Þótt ég fagni snjónum og sé gefinn fyrir þá birtu sem hann veitir getur hann oft verið okkur landsbyggðarmönnum fjötur um fót. Internettengingar í dreifbýli eru mikið hagsmunamál þess fólks sem þar býr, ekki síst vegna þess hve öflugt tæki netið er til að afla upplýsinga og skiptast á þeim við aðra. Oft er það nauðsynlegt atvinnutæki, ekki síst fyrir þá sem koma til með að sækja um störf án staðsetningar eins og Samfylkingin boðaði fyrir síðustu kosningar en lítið hefur orðið úr.

Samkvæmt áætlunum hins opinbera er ætlunin að Fjarskiptasjóður, sem stofnaður var með 2,5 milljarða framlagi af söluverðmæti Símans, tryggi öllum þeim háhraðatengingar sem þess óska. Samkvæmt því sem Friðrik Már Baldursson, formaður Fjarskiptasjóðs, sagði á ráðstefnu Skýrslutæknifélags Íslands þann 4. maí 2007 er gert ráð fyrir tveimur útbreiðslusvæðum, annars vegar með tenginguna á bilinu frá 512 kílóbætum og hins vegar með 2 megabæta tengingu og yfir. Þá er átt við gagnaflutningshraða að notanda en hraði frá notanda er minni.

Samkvæmt fjarskiptaáætlun fyrir árin 2005–2010 er hins vegar talað um að á árinu 2007 verði fullnægjandi háhraðatenging að vera 50 megabæti á sekúndu að og frá notanda. Takið eftir, hér er miðað við árið 2007. Þetta bendir hugsanlega til þess að tækni gærdagsins sé notuð til að tengja einstök landsvæði við umheiminn. Þetta gerðist árið 2001 þegar Landssíminn tengdi lögbýli á landinu við ISDN-tæknina sem löngu er orðin úrelt og gagnast ekki í verkefnum ársins 2008 og gerði það varla árið 2001. Hér er samkeppnishæfni landsins alls í húfi því að á mörgum svæðum, sem byggð eru vinnandi fólki, er mönnum ekki kleift að vinna á samkeppnishæfum forsendum.

Samgönguráðherra og Fjarskiptasjóður hljóta að endurskoða áætlanir um viðmið um hvað telst háhraði og miða uppbyggingaráætlanir sínar við háhraða dagsins í dag. Mig langar til að spyrja hæstv. samgönguráðherra út í þetta og hlakka til að heyra svör hans.

Í stuttu máli sagt hefur gengið illa að koma á viðunandi háhraðatengingu til þeirra sem þess óska í dreifbýlinu. Upphaflega var áætlað að vinna við háhraðatengingar yrði boðin út um mitt síðasta ár og síðan færðist sú áætlun aftur til desember. Ekki varð af útboðinu þá heldur og ekki liggur enn fyrir hvenær það verður. Gott væri að fá svör frá hæstv. samgönguráðherra um dagsetningu þess útboðs.

Fjarskiptasjóður sendi í desember bréf til sveitarstjórna til að gefa þeim kost á að fara yfir lista yfir þau heimilisföng sem verði með í útboðinu, þ.e. skilgreint er nákvæmlega hvaða heimilisföngum verður gefinn kostur á að fá tengingar. Samkvæmt könnun Fjarskiptasjóðs vantar háhraðatengingar á allt að 1.500 sveitabæi um land allt en ekki 200 eins og áður var talið. Í fréttum í vikunni boðaði samgönguráðherra skjótar úrbætur í þessum efnum og er það vel. Hann notaði hins vegar það orðalag sem ráðherrum Samfylkingarinnar er nokkuð tamt þessa dagana, þ.e. að háhraðatengingum verði komið á hvert býli á næstu missirum.

Ég óska eftir skýrara orðalagi frá ráðherra hvað þetta varðar og spyr hvenær komið verði á háhraðatengingum við þessa sveitabæi. Hvenær á fyrrgreint útboð að fara fram og við hvaða hraða tenginga verður miðað? Ég spyr jafnframt hvort fjármagn til verksins liggi ekki fyrir fyrir þá 1.500 sveitabæi sem vantar háhraðatengingar.

Framsóknarmenn lögðu á það áherslu þegar ríkið seldi hlutafé sitt í Símanum að hluti af andvirði fyrirtækisins yrði lagður í Fjarskiptasjóð til að tryggja íbúum dreifbýlisins sambærilega fjarskiptaþjónustu og öðrum landsmönnum. Í þessu samhengi langar mig til að nefna að borið hefur á að einstök fyrirtæki á fjarskiptamarkaði haldi minni byggðarlögum í gíslingu með loforðum um þjónustu. Það hefur komið í veg fyrir aðkomu Fjarskiptasjóðs að því að bæta netaðgang. Fjarskiptasjóður kemur nefnilega bara til aðstoðar á svæðum þar sem markaðsbrestur er skilgreindur, þ.e. á svæðum þar sem fjarskiptafyrirtæki byggja ekki upp þjónustu á eigin vegum og án aðstoðar hins opinbera.

Við framsóknarmenn teljum nauðsynlegt að setja fjarskiptafyrirtækjum frest þannig að ef ekki verði komin viðunandi þjónusta gegn sambærilegu verði og aðrir landsmenn búa við innan tólf mánaða verði litið svo á að á svæðinu sé engin þjónusta. (Forseti hringir.) Þá fari Fjarskiptasjóður inn á svæðið og tryggi fullnægjandi netsamband. Til þess að þetta megi verða þarf væntanlega að auka fjármagn í Fjarskiptasjóð. Ég kalla eftir svörum frá (Forseti hringir.) samgönguráðherra um hvort hann styðji ekki þessar tillögur okkar framsóknarmanna.