135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

háhraðatengingar og starfsemi Fjarskiptasjóðs.

[11:24]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við erum hér að ræða um fjarskiptaþjónustuna og hæstv. samgönguráðherra var svo skemmtilegur að segja að ríkisstjórnin væri á háhraða í uppbyggingu á fjarskiptaþjónustunni. Ég verð nú, virðulegi forseti, að líta svo á að hæstv. ráðherra hafi verið með, eins og krakkarnir segja, „smádjók“ (Gripið fram í.) eða „hábrandara“. Hraðinn hjá ríkisstjórninni er ekki háhraði, það er unnið á hraða snigilsins og það vita allir landsmenn. Landsbyggðin veit það vel að það er unnið á hraða snigilsins í þessu máli því miður.

Á sínum tíma glöddumst við framsóknarmenn mjög þegar átti að setja fjármagn, m.a. að okkar kröfu, í að byggja upp fjarskiptaþjónustu þannig að hún yrði sambærileg á öllu landinu. Þetta hefur gengið afar hægt. Við vitum öll að í nútímasamfélagi er fólk meira og minna á netinu, bæði fyrirtæki og fjölskyldur. Hver þekkir það ekki bara heima hjá sér? Börnin eru á netinu, við erum öll sjálf á netinu, það er varla að maður fari í rúmið nema vera á netinu. Já, þetta er bara raunveruleikinn í dag. Lítið til ykkar barna, þið skuluð ekki gera grín að þessu, þetta er bara svona í flestum fjölskyldum landsins í dag.

Um daginn hringdi ég í fólk til þess að ræða um heimasíðuna sem ég rek, siv.is, og um myndir sem þar voru og hvort þau hefðu tekið eftir ákveðnum myndum. Þau sögðu: Jú, við skoðuðum þetta, að vísu fórum við í kaffi meðan myndirnar voru að hlaðast inn. Það var bara kaffipása, þetta gekk svo hægt. Það er ekki hægt að bjóða fólki á landsbyggðinni upp á þetta og við getum ekki skilið svona á milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar þannig að landsbyggðin verði eftir. Það verður að spýta í, hæstv. samgönguráðherra verður að standa sig betur, þetta er ekki hægt.

Því sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði áðan ætla ég að vísa til föðurhúsanna. Framsóknarflokkurinn hefur staðið á bak við þetta verkefni og hefur viljað að þetta gengi miklu hraðar og það á (Forseti hringir.) hv. þingmaður að vita.