135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

háhraðatengingar og starfsemi Fjarskiptasjóðs.

[11:28]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Ég vil skoða þetta mál í nokkuð öðru samhengi. Okkur þingmönnum, ríkisstjórn, stofnunum ríkisins og sveitarfélögum, fyrirtækjum og reyndar öllum borgurum landsins ber að virða stjórnarskrána, hlíta henni í hvívetna og ekki síst jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar sem kveður á um að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til efnahags og stöðu að öðru leyti. Búseta er eitt reginatriðið í þessu jafnræðishugtaki, að menn njóti jafnræðis eftir búsetu.

Þrátt fyrir þessa skýru reglu sitja íbúar landsbyggðarinnar ekki við sama borð og íbúar höfuðborgarsvæðisins og það gildir svo sannarlega í þessu máli þar sem heilu landsvæðin t.d. í Suðurkjördæmi og úti á landi eru dæmd úr leik, ekki bara varðandi háhraða heldur líka aðrar símatengingar. Því miður er það svo að íbúum á landsbyggðinni er mismunað á fjölmörgum öðrum sviðum, ég nefni póstþjónustu, ég nefni banka, ég nefni læknisþjónustu, ég nefni menntun, ég nefni aðgengi að lánsfé og þannig mætti lengi telja.

Þessi stjórnarskrárbrot eru um margt afleiðing af ríkisstjórnarstefnu Sjálfstæðisflokksins síðastliðin ár. Þar er byggt á þröngum sértækum gróðasjónarmiðum. Einokunarfyrirtæki þjónusta ekki byggðir og býli þar sem hámarksgróði er ekki af starfseminni, hver þjónustuleggur verður að skila sértækum hámarksgróða algjörlega óháð samfélagslegum ávinningi eða heildarhagsmunum okkar. Þetta er viðvarandi og óþolandi ástand, þetta hamlar atvinnustarfsemi, þetta hamlar félagsstarfsemi, þetta hamlar pólitík, þetta hamlar okkur landsbyggðarþingmönnum í starfi og þetta hamlar fjarnámi. Ég verð að minna á það í þessu samhengi að 70% nemenda við fjarnám eru konur.

Íbúar á landsbyggðinni (Forseti hringir.) eru ekki að biðja um ölmusu eða styrki. Þeir eiga skýlausan rétt á því að sitja við sama borð og íbúar höfuðborgarsvæðisins.