135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

háhraðatengingar og starfsemi Fjarskiptasjóðs.

[11:31]
Hlusta

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka þá ágætu umræðu sem hér fer fram um uppbyggingu fjarskiptakerfisins á landsbyggðinni. Ljóst er að Fjarskiptasjóður hefur miklu hlutverki að gegna og stofnun hans á sínum tíma bar því vott um mikla fyrirhyggju hjá stjórnvöldum. Það er forsendan fyrir þeirri öflugu uppbyggingu sem nú stendur fyrir dyrum um allt land á sviði fjarskipta og samgönguráðherra kom inn á áðan.

Ég tek heils hugar undir nauðsyn þess að háhraðavæða landið allt. Öflugt gagnaflutningskerfi er nauðsynlegur þáttur í lífi, starfi og, eins og fleiri hafa komið inn á, leik allra landsmanna. Í mínum huga er það brýnna verkefni nú að koma upp háhraðatengingum um land allt en var að koma á sjónvarpsútsendingum um allt land á sínum tíma.

Fjarskiptasjóður hefur líka öðru mikilvægu hlutverki að gegna en það er að byggja upp GSM-kerfi á þeim svæðum sem ekki þykja markaðsvæn. GSM-kerfið er ekki aðeins nauðsynlegt til að byggja upp atvinnulíf úti á landi heldur er þar líka um mjög mikilvægt öryggistæki að ræða. Nú er svo komið að ýmsir aðilar sem stunda ferðaþjónustu lenda undir í samkeppninni ef ekki er GSM-samband á viðkomandi svæði. Þetta er því mjög nauðsynlegt í þessu tvennu tilliti að bæta samkeppnisstöðuna og eins að bæta öryggi þeirra sem ferðast um landið. Nýlegt dæmi, sem kom upp fyrir nokkrum dögum, sýndi fram á að GSM-síminn getur bjargað miklu.

Hæstv. samgönguráðherra kom inn á að ýmsar skýringar eru á því að þessu verkefni hefur seinkað. Meðal annars hefur tækninni fleygt fram auk þess sem býlum sem verða hluti af útboðsferlinu hefur verið að fjölga mjög mikið. En það er greinilegt að samgönguráðherra er að taka á þessum málum og hann hefur lýst því yfir að háhraða GSM-væðingunni verði lokið nú um áramót. Hann tekur háhraðavæðinguna föstum tökum.