135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

háhraðatengingar og starfsemi Fjarskiptasjóðs.

[11:33]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Uppbyggingu fjarskipta hefur verið beðið með mikilli óþreyju víða á landsbyggðinni. Í mínu kjördæmi má nefna svæði eins og Reykhólahrepp, Dalabyggð, mestalla Strandasýslu svo dæmi séu tekin. Útbreiðslan er afar léleg víða og sums staðar engin. Það ber að þakka það sem gert hefur verið og áfanga var vissulega náð við Húnaflóa með aðgerðum Vodafone sem setti upp sendi sem m.a. nær út á fiskimiðin og vítt um svæðið.

Með minni atvinnu og uppsögnum fólks víða vegna óheppilegs niðurskurðar á þorskafla er landsbyggðarfólk enn frekar ósátt við þann hægagang sem verið hefur í fjarskiptamálum. Það gæti vissulega opnað nýja möguleika ef átak verður gert eins og að var stefnt en ekki hefur enn orðið af.

Við hljótum að spyrja okkur hvað valdi þessum hægagangi. Ég veit ekki hvort ég á að fara yfir svör hæstv. samgönguráðherra en held ég verði að gera það, hæstv. forseti. Samgönguráðherra sagði áðan að Fjarskiptasjóður hefði verið á ferð um landið við að hnitsetja bóndabæi. Ég hélt að slík gögn væru til hjá Landmælingum Íslands og mér er næst að halda að þessi ferð Fjarskiptasjóðsins um landið hafi verið farin á gönguhraða eða einhverju annars konar ferðalagi miðað við hvernig þetta hefur gengið síðustu þrjú ár. Ég fagna því hins vegar ef nú er að verða bylting, eins og hæstv. samgönguráðherra sagði. Vonandi gengur það eftir að við náum miklum áföngum á næstu mánuðum við að ljúka því ætlunarverki sem að var stefnt varðandi útbreiðslu grunnnetsins og að opna aðgengi allra landsmanna að tækninni á jafnréttisgrundvelli.