135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[11:41]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um tekjuskatt, um staðgreiðslu opinberra gjalda, um tryggingagjald, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur og um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

Í frumvarpi þessu er að finna tvíþætta tillögu að mikilvægum breytingum á skattlagningu lögaðila í atvinnurekstri. Annars vegar er um að ræða breytingar á reglum um skattskyldu söluhagnaðar en hins vegar á skattaumsýslu þeirra lögaðila sem mest umsvif hafa í íslenskum þjóðarbúskap.

Fyrst vil ég koma inn á þann hluta í frumvarpinu er snýr að skattskyldu söluhagnaðar hjá lögaðilum. Forsögu þessa má rekja allt til vorsins 1998. Þá voru samþykkt á Alþingi lög sem fólu í sér verulegar breytingar á reglum um skattskyldu arðgreiðslna og söluhagnaðar varðandi aðila í atvinnurekstri.

Tekin var upp sú regla varðandi arð að hann myndaði ekki skattstofn væri hann greiddur milli hlutafélaga eða sambærilegra félagsforma heldur væri móttakanda arðsins heimilt að draga hann frá rekstrartekjum sínum áður en til skattlagningar kæmi. Samhliða var hlutafélögum heimilað að fresta skattlagningu söluhagnaðar af hlutabréfum ef þau keyptu önnur slík innan tveggja ára frá sölunni. Þessar reglur sem taka til söluhagnaðar af hlutabréfum annarra en veltuhlutabréfa, þ.e. hlutabréfa sem alla jafna ganga kaupum og sölum innan ársins, eru að meginstefnu til enn í gildi. Með þeim var í senn komið í veg fyrir að fjármagn væri bundið í tilteknum hlutabréfum af skattalegum ástæðum, þ.e. til að forðast skattlagningu, og jafnframt hvatt til áframhaldandi hlutabréfaeignar. Ekki voru gerðar breytingar á skattlagningu söluhagnaðar hjá lögaðilum á þessum tímapunkti en tekið fram að fylgst yrði með þróun í þeim málum með tilliti til breytinga síðar.

Frá því að framangreindar breytingar voru samþykktar hefur alþjóðlegt skattaumhverfi tekið miklum stakkaskiptum, ekki síst í okkar helstu samkeppnislöndum innan Evrópu. Skatthlutföll hafa lækkað samhliða því að afnumdar hafa verið ýmsar sértækar reglur í því skyni að gera skattkerfið einfaldara og skilvirkara. Verulega hefur dregið saman með Íslandi og öðrum ríkjum á skattasviðinu á undanförnum árum þegar horft er til skattlagningar á atvinnurekstur og á það ekki hvað síst við um skattlagningu fjármagnstekna, svo sem söluhagnaðar af hlutabréfum. Þannig hafa íslensk félög í einhverjum mæli flutt eignarhald sitt á hlutabréfum yfir í dótturfélög sem staðsett eru í ríkjum þar sem skattlagning á söluhagnaði er talin hagstæðari en hér á landi. Má þar nefna sem dæmi Holland og Noreg.

Að auki hafa komið upp ágreiningsmál varðandi túlkun á því hvort frestunarheimild söluhagnaðar á hlutabréfum nái einungis til beinnar fjárfestingar í hlutabréfum en ekki til hagnaðar á veltuhlutabréfum samanber túlkun skattyfirvalda. Þessi þróun virðist hafa leitt til þess að tekjur ríkissjóðs af söluhagnaði hlutabréfa hafa verið óverulegar á undanförnum árum.

Í ljósi þessarar þróunar er í frumvarpinu að finna tillögur um breytingar á skattskyldu hagnaðar af sölu hlutabréfa. Megintillagan er sú að hagnaður lögaðila með takmarkaða ábyrgð eigenda, þ.e. hlutafélaga og einkahlutafélaga, af sölu hlutabréfa af hvers kyns tagi sé frádráttarbær eða skattfrjáls með sama hætti og greiðslur arðs milli lögaðila í sömu félagsformum, m.a. í þá veru að þær eru ekki bundnar við hlutabréfaviðskipti innan Evrópska efnahagssvæðisins heldur nær skattfrelsið einnig til hlutabréfa í fyrirtækjum sem staðsett eru utan Evrópska efnahagssvæðisins, þó ekki á lágskattasvæðum. Samhliða er lagt til að heimild til frestunar á skattlagningu söluhagnaðar af hlutabréfum verði felld brott.

Grunnregla tekjuskattsálagningar þegar um atvinnurekstur er að ræða er að sá rekstrarkostnaður sem gengur til öflunar, viðhalds eða tryggingar á skattskyldum tekjum, sé frádráttarbær frá þeim tekjum áður en til tekjuskattsálagningar kemur. Með öðrum orðum, skattfrelsi tiltekinna tekna takmarki frádráttarheimild lögaðila við þann kostnað sem sannarlega gengur til öflunar skattskyldra tekna.

Samkvæmt þeirri tillögu sem hér liggur fyrir er takmörkun á frádráttarbærni rekstrarkostnaðar vegna skattfrjáls hagnaðar af sölu hlutabréfa á söluári hlutabréfanna, eða á því ári sem söluhagnaður er færður til tekna hjá viðkomandi lögaðila. Ekki má mynda yfirfæranlegt rekstrartap á því ári nema að því marki að rekstrarkostnaður sé umfram skattfrjálsan söluhagnað að frádregnum rekstrarkostnaði ársins. Sama gildir um yfirfæranlegt rekstrartap vegna fyrri ára.

Ljóst er sú aðferð sem felst í tillögu frumvarpsins og hér hefur verið lýst felur í sér ákveðna ónákvæmni varðandi raunverulegan frádrátt á móti bæði skattfrjálsum og skattskyldum tekjum. Þar á móti vegur augljóst hagræði vegna einfaldara uppgjörs, bæði fyrir fyrirtækin og skattyfirvöld. Sé viðkomandi fyrirtæki í blönduðum rekstri skiptist rekstrarkostnaður í réttu hlutfalli við tekjurnar. Í frumvarpinu er jafnframt lagt til að tap sem kann að myndast vegna sölu hvers kyns hlutabréfa sé ekki frádráttarbært. Hafa ber í huga, að þessi takmörkun á frádráttarbærni rekstrarkostnaðar nær einungis til söluhagnaðar en ekki arðgreiðslna.

Þá er rétt að árétta að skattfrelsi hagnaðar af sölu hlutabréfa er bundið við það félagsform þar sem skattlagning er endanlega í hendi eiganda eins og í tilviki hluthafa í hlutafélagi og einkahlutafélagi og við úthlutun arðs, en ekki önnur félagsform. Engin takmörkun er á frestun söluhagnaðar eftir félagsformum í gildandi lögum.

Að lokum ber að nefna að fjármálaráðuneytinu hafa þegar borist ábendingar um að texti lagaákvæðis í 2. gr. frumvarpsins sé ekki nógu skýr. Sérfræðingar ráðuneytisins skoða þessar ábendingar og munu koma tillögum og nauðsynlegum leiðréttingum á framfæri við frekari meðferð málsins í efnahags- og skattanefnd.

Hin meginbreytingin sem lögð er til í þessu frumvarpi varðar skattaumsýslu stórra og umsvifamikilla fyrirtækja, en þeim hefur fjölgað mjög hratt hérlendis á örfáum árum. Þar á vaxandi útrás íslenskra fyrirtækja stóran hlut að máli, þar sem saman fer vöxtur vegna stækkandi markaðssvæða óháð landamærum og sameining íslenskra fyrirtækja við erlend, oftast í hagræðingarskyni. Við slíkar aðstæður verða viðskipti oft afar flókin enda lagalegt umhverfi, jafnt frá sjónarmiði skattareglna sem annarra, oftar en ekki ólíkt að uppbyggingu og eðli. Slíkar kringumstæður kalla á aukna sérfræðiþekkingu á öllum sviðum og meiri sérhæfni í allri umsýslu gagnvart þessum aðilum.

Þessi þróun er ekki séríslensk heldur er hún alþjóðlegt fyrirbæri sem löndin í kringum okkur hafa brugðist við með ýmsu móti. Flest þeirra fara þá leið að setja á fót sérstakar stjórnsýslueiningar í skattkerfinu sem annast alla skattalega umsýslu með þessum aðilum. Það á til dæmis við um hin Norðurlöndin og virðist þetta fyrirkomulag hafa gefið góða raun. Með hliðsjón af því er í þessu frumvarpi lagt til að skattaumsýsla fyrirtækja sem falla undir þá skilgreiningu að teljast stórfyrirtæki fari einungis fram í einu umdæmi í stað níu, nánar tiltekið í Reykjavíkurumdæmi, í sérhæfðri stjórnsýslueiningu. Með því fyrirkomulagi skapast möguleikar á að tryggja að skattlagning sambærilegra eða tengdra fyrirtækja sem hafa mikil umsvif verði samhæfðari og skilvirkari auk þess sem þjónusta við þau batnar.

Þau fyrirtæki sem tillaga frumvarpsins gerir ráð fyrir að verði skipað undir einn hatt á grundvelli viðmiða um tekjur og eignir af tiltekinni stærðargráðu dreifast í dag á nær öll skattumdæmi landsins. Álitamál þeim tengd hafa í sumum tilfellum ekki fengið úrlausn sem skyldi. Verði frumvarpið að lögum verður forræðið varðandi skattaleg úrlausnarefni þeirra fyrirtækja á hendi eins skattstjóra, sem hefur hefðbundið framkvæmdar- og úrskurðarvald í málum sem þeim tengjast óháð því hvar á landinu þau hafa skráð heimili.

Þær viðmiðanir sem lagt er til að verði beitt við skilgreiningu á því hvað teljist stórfyrirtæki eru annars vegar rekstrartekjur að meðtöldum fjármagnstekjum samkvæmt ársreikningi, að lágmarki 10 milljarðar kr., eða hins vegar heildareignir samkvæmt ársreikningi, að lágmarki 5 milljarðar kr. Aðeins annað þessara skilyrða þarf að vera uppfyllt til að lögaðili teljist stórfyrirtæki.

Samkvæmt upplýsingum úr skattframtölum lögaðila fyrir árið 2007 falla 249 lögaðilar undir ofangreindar viðmiðanir. Þar af eru 211 fyrirtæki í Reykjavík og Reykjanesi, eða 85% af heildinni. Af heildarfjölda stórfyrirtækja eru 174, eða 70% af heild, með skattalegt heimilisfesti í Reykjavík þó að innan við helmingur af heildarfjölda lögaðila sé skráður þar. Jafnframt sýna upplýsingar úr skattframtölum að stórfyrirtækin í Reykjavík eru margfalt umfangsmeiri en flest þeirra sem eru annars staðar, bæði er varðar tekjur og eignir. Í ljósi þessa er talið rökrétt að skattaumsýsla stórfyrirtækja falli undir Reykjavíkurumdæmi.

Nú er í sérstakri athugun í fjármálaráðuneytinu hvernig styrkja megi starfsemi einstakra skattstofa úti á landsbyggðinni, til að mynda með tilflutningi annarra verkefna til þeirra, m.a. í tengslum við ofangreinda breytingu. Í þessu samhengi er vert að benda á að rétt fyrir jól voru samþykkt lög nr. 166/2007 sem veita fjármálaráðherra heimild til að flytja einstök verkefni á milli skattumdæma með það að markmiði að auka svigrúm fjármálaráðherra til verkefnaflutninga innan skattkerfisins þannig að unnt sé að nýta mannafla þess sem best hvar sem er á landinu. Of snemmt er að tilgreina á þessari stundu hvers eðlis þau verkefni eru en reiknað er með að verkefnatilflutningur geti skapa allt að tíu ný stöðugildi á landsbyggðinni með samsvarandi fækkun stöðugilda á höfuðborgarsvæðinu.

Í frumvarpinu einnig að finna nauðsynlegar breytingar á öðrum skattalögum er varða skattaumsýslu stórfyrirtækja.

Að lokum vil ég nefna að í frumvarpinu er lögð til sú breyting á lögum um virðisaukaskatt að tekin verði af öll tvímæli um að ógerilsneydd mjólk, svokölluð hrámjólk, eigi að vera í efra þrepi virðisaukaskatts þar sem ekki er litið svo á að hún sé matvara til manneldis í skilningi laganna. Við þær breytingar sem samþykktar voru á lögum um virðisaukaskatt í lok árs 2006 þar sem virðisaukaskattur á matvöru til manneldis var lækkaður úr 14% í 7%, virðist hafa skapast óvissa varðandi þetta atriði. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til er þeirri óvissu eytt.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.