135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

tekjuskattur.

54. mál
[11:58]
Hlusta

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um tekjuskatt. Frumvarpið snýst um það að heimilað verði og sett inn í löggjöfina um tekjuskatt að sannanlegur útlagður ferðakostnaður við atvinnusókn einstaklinga megi dragast frá tekjum áður en skattlagt er en þó innan þess ramma að hann verði að nema meiru en 180 þús. kr. á ári og ekki sé heimilt að draga frá hærri upphæð en 600 þús. kr.

Frumvarpið hefur áður komið í sali Alþingis og verið farið yfir það í ræðum og ýmsir tekið þar til máls. Efnislega er lagt til eins og áður sagði að kostnaður manna við ferðir til og frá vinnu verði frádráttarbær frá tekjum áður en til skattlagningar kemur en þó með áðurgreindum lágmörkum og hámörkum. Við framkvæmd ákvæðisins er gert ráð fyrir að sambærilegar reglur gildi um sönnun á útlögðum kostnaði og gilda um sönnun á kostnaði á móti ökutækjastyrk eins og hann er í dag, þ.e. að kostnaður verður að vera sannaður, það verður að færa sönnur fyrir því að kostnaðurinn hafi verið greiddur vegna atvinnusóknarinnar til þess að það fáist viðurkennt að draga megi hann frá tekjum áður en skattlagt er.

Í núverandi löggjöf er þekkt reglan um ökutækjastyrk þar sem menn færa sönnur á það hvaða kostnað þeir hafa á móti greiddum ökutækjastyrk sem einhver annar greiðir, atvinnurekandi oftast nær, og launþeginn sem fær þennan styrk greiddan þarf að sýna fram á hvaða kostnað hann hefur af ferðalaginu o.s.frv. Ef sá kostnaður er ekki jafnhár ökutækjastyrknum og sannaður sem slíkur þannig að mark sé tekið á þá er það sem umfram er og á milli ber skattlagt sem tekjur hjá viðkomandi launþega. Þetta fyrirkomulag er algerlega þekkt í kerfinu þó að það sé auðvitað háð þeirri reglu að það sé annar sem leggur út fjármunina en viðkomandi launþegi sem þarf hins vegar að sanna kostnaðinn.

Í þessu tilviki er hins vegar verið að leggja það til, hæstv. forseti, að launþegi sem ber sérstakan kostnað við það að sækja atvinnu megi draga þann kostnað frá tekjum áður en skattlagt er sem er í rauninni sama aðferðin og á við um ökutækjastyrkinn eins og hann er greiddur í dag svo framarlega sem menn sanni það að þeir hafi kostnað á móti ökutækjastyrknum. Ég veit að við alþingismenn þekkjum þetta fyrirbæri ágætlega, enda fáum við greiddan ökutækjastyrk ef við erum á ferðalögum í sambandi við atvinnu okkar.

Í þessu frumvarpi er krafist sönnunar á útlögðum kostnaði sem er alveg sjálfsagt, auðvitað verður svo að vera, og ef menn geta ekki sannað kostnaðinn eiga þeir ekki rétt á að nýta sér það ákvæði sem hér er lagt til. Hins vegar má kannski segja að bæta megi inn í þessa tillögu annarri hugsun, ef menn vildu setja þessu skýrari ramma, því að auðvitað er það svo að langflestir Íslendingar eru vanir að ferðast að og frá vinnu akandi á eigin bifreiðum og einkum kannski þegar þeir fara lengri vegalengdir. Ef menn vildu hafa skýrari reglur utan um þetta ákvæði og kannski þannig hugsað að það nýttist betur þeim sem þurfa raunverulega að fara um langan veg vegna atvinnusóknar sinnar þá væri auðvitað hægt að hafa lágmarkskílómetraviðmiðun inni í slíku ákvæði sem væri þá viðbótartakmörkunarákvæði við þær upphæðir sem hér eru settar þannig að atvinnusóknin fengist ekki viðurkennd nema hún væri umfram ákveðin ferðalög til og frá vinnu. Ég hygg t.d. að atvinnusókn til Alþingis frá Reykjanesbæ sé viðurkennd sem slík og frá Akranesi, svo einhver dæmi séu tekin um viðmiðunarreglur sem þekktar eru í stjórnkerfi okkar.

Það væri auðvitað ekkert því til fyrirstöðu að ræða þann möguleika í hv. nefnd að skoða slíkt viðbótarákvæði þar sem meiri hluti Íslendinga ferðast til og frá vinnu á eigin bifreið eins og áður sagði og menn taka sig saman og ferðast kannski tveir eða þrír saman í bifreið um langan veg ef um atvinnusókn á milli byggðarlaga er að ræða. Þetta er eitthvað sem nefndin mun væntanlega skoða og kann að vera fullkomlega eðlilegt að setja einhverja slíka viðmiðun inn til að marka þennan ramma betur og kannski líka til að ná fram enn frekar þeirri hugsun sem í frumvarpinu er, að reyna að efla atvinnusókn á milli staða og að þetta styrki og stækki atvinnusvæðið og atvinnusókn landsmanna. Það hefur verið stefna margra ríkisstjórna á undanförnum árum, held ég, að eðlilegt væri að stækka atvinnusvæði á landsbyggðinni og við landsbyggðarþingmenn höfum unnið að því og reynt eftir fremsta megni að þrýsta á samgöngubætur, m.a. á þjóðvegum landsins, til þess að byggðirnar eigi betra með að vinna saman og fólk eigi þar af leiðandi auðveldara með að sækja atvinnu á milli svæða.

Það er þekkt að mikill ferðakostnaður getur hamlað slíkri þróun og er til þess fallinn að draga úr samkeppnishæfni byggðarlaga um vinnuafl. Mikill ferðakostnaður vegna atvinnusóknar getur einnig virkað vinnuletjandi með þeim afleiðingum að menn sjá sér kannski frekar hag í því að þiggja atvinnuleysisbætur en sækja vinnu í næsta byggðarlag þar sem kostnaðurinn við atvinnusóknina er það mikill að menn hafa nánast ekkert upp úr sér, eins og löngum var sagt á Íslandi á árum áður þegar menn voru að tala um hvort þeir hefðu næga afkomu eða ekki. Ég held að það sé kannski aldrei brýnna að afgreiða þetta frumvarp á hv. Alþingi en einmitt nú þegar við horfum upp á það að í mörgum byggðarlögum stefnir í atvinnustopp og allt að því atvinnubrest, leyfi ég mér að segja, m.a. vegna niðurskurðar í fiskafla, og við þingmenn erum að reyna að finna leiðir sem geta orðið til þess að fólk eigi möguleika á að takast á hendur önnur störf. Menn hafa kallað það öðru orði: mótvægisaðgerðir, og ber ekki að gera lítið úr því en ég vil hins vegar segja það, hæstv. forseti, að ýmislegt í þeim mótvægisaðgerðum hittir ekki inn á þá hópa sem verða verst úti í niðurskurðinum á þorskaflanum og þar er ég tala um fiskvinnslufólk og sjómenn og smærri þjónustuaðila sem þjóna útgerð og fiskvinnslu á þessum stöðum. Þeir verða líka fyrir algerum atvinnubresti.

Við vitum að sum fyrirtæki eru með áætlanir um að starfsfólk þeirra verði atvinnulaust í fimm mánuði á þessu ári. Ég nefni staði eins og Þingeyri og Húsavík og skyldi ekki muna um það fyrir fólk sem missir atvinnu á þessu svæði ef slíkt ákvæði sem hér um ræðir væri í lögum og það væri gert auðveldara t.d. fyrir Húsvíkinga að sækja atvinnu til Akureyrar, ef það stæði til boða, eða fyrir fólk á Þingeyri að sækja atvinnu til Ísafjarðar, ef það stæði til boða? Með góðri útfærslu á þessu ákvæði mætti jafnvel finna því stað að yfir sumartímann, sem virðist vera sá tími sem menn ætla að hafa fólk atvinnulaust á þeim stöðum sem ég nefndi í fimm mánuði, gæti fólk jafnvel frá Þingeyri sótt atvinnu til suðvesturs eins og áttum hagar á Vestfjarðakjálkanum og inn í Vesturbyggð eða Tálknafjörð ef svo hagaði til, þótt ekki sé hægt að hæla þeirri leið fyrir fólk til að fara dags daglega, það verður að segjast eins og er. Þar er yfir fjallvegi að fara og þó að þeir séu oftast nær greiðfærir yfir sumartímann þá er ekki eins og málum er háttað hægt að ráðleggja fólki það beinlínis til atvinnusóknar daglega.

En fólk leitar vissulega lausna við að reyna að halda uppi atvinnu og tekjum. Þess vegna er það auðvitað svo að í landshlutunum sumum hverjum, ég nefni Vestfirði, Norðurland vestra, Norðurland eystra að hluta til, hefur orðið mikil fólksfækkun af því að fólk unir því ekki að vera atvinnulaust og tekjulaust og leitar út af svæðunum. Fólk er vant því að hafa atvinnu og vill hafa atvinnu og þess vegna leitar það út af svæðunum. Við þingmenn höfum allir, held ég, haft miklar áhyggjur af því hvernig þessi mál hafa verið að þróast á undanförnum árum, og m.a. með tilliti til þess sem boðaður niðurskurður þorskaflans kann að leiða af sér þá held ég að það sé enn frekar ástæða til þess að frumvarp það sem þingmenn Frjálslynda flokksins flytja hér enn og aftur, um breytingu á lögum um tekjuskatt vegna atvinnusóknar um lengri veg, verði tekið til afgreiðslu og útfært þannig að það gagnist í þessu sambandi. Ég held að það hafi kannski aldrei hitt betur í mark en einmitt nú að flytja þessa tillögu og fái frumvarpið hraða og málefnalega afgreiðslu getur hún þar af leiðandi virkað sem mótvægisaðgerð, sem ég held að hún mundi mjög auðveldlega gera fáist frumvarpið afgreitt sem lög.

Það er ekki eins og hér sé verið að leggja til eitthvert nýmæli sem hvergi er þekkist. Það er auðvitað þekkt í nágrannalöndum okkar, m.a. í Noregi, að einstaklingar megi draga kostnað frá tekjum vegna atvinnusóknar og við erum því ekki að brydda upp á neinu nýmæli sem ekki er hægt að finna fyrirmyndir fyrir í öðrum löndum sem við að jafnaði berum okkur saman við, þ.e. skandinavísku þjóðirnar. Þess vegna held ég að það sé enn frekari þörf og ríkari ástæða til að afgreiða þetta mál nú og útfæra það þannig að það megi gagnast m.a. í þá veru sem ríkisstjórnin hefur verið að leggja til og kallað hefur verið einu nafni mótvægisaðgerðir.

Aðalmótbáran gegn þessu máli er sú að menn hafa stundum sagt að það væri ófært að vera að opna ákvæði um sérstakan frádrátt í skattalögum og menn ættu ekki að flækja skattkerfið o.s.frv. Ég ætla ekki að fara að rekja það hér, hæstv. forseti, hvaða undanþágur eru í skattalögunum. Þær eru ýmsar eins og menn vita sem það hafa skoðað og sennilega er enginn betur kunnugur þeim en hæstv. fjármálaráðherra sem ætti að vita nánast allt um slíkar útfærslur og getur rakið það fyrir okkur á eftir okkur til upplýsingar.

Ég tel að við þingmenn eigum alls ekki að víkjast undan því að taka þetta mál til málefnalegrar afgreiðslu og fylgja því eftir inn í nefnd og út úr nefnd vegna þess að annað er ekki verjandi á sama tíma og við tölum fyrir mótvægisaðgerðum og ríkisstjórnin hefur boðað endurskoðun á mótvægisaðgerðum sínum til þess einmitt að ná markvissari árangri fyrir það fólks sem verður fyrir skaða. Þetta er tillaga sem gæti beinlínis verið sniðin að því að ná sérstaklega til þess fólks sem er að missa atvinnu sína. Eins og ég benti á áðan er hugsanlega hægt að útfæra inn í þetta einhvern lágmarkskílómetrafjölda þannig að þetta gagnist enn betur því fólki sem þarf raunverulega að sækja atvinnu um langan veg af því að hún stendur ekki lengur til boða á viðkomandi vinnusvæði.

Ég legg eindregið til, hæstv. forseti, að þetta mál verði rætt, m.a. út frá þeim sjónarmiðum sem ég hef rakið, og menn finni því stað hvernig megi útfæra þetta. Þetta er ekki flókin útfærsla, sönnunarbyrðin er hjá launþeganum sjálfum og síðan fara skattyfirvöld og skatteftirlitsaðilar yfir framtöl manna og ákvarða hvort tekið er mark á því o.s.frv. Auðvitað þurfa menn leiðbeiningar um það hvernig eigi að telja þetta fram og hvernig halda eigi utan um kostnað sem því er samfara. En ég skora á hæstv. fjármálaráðherra að taka þetta mál til gaumgæfilegrar skoðunar með tilliti til þess að þetta mun gagnast þjóðfélaginu mjög vel, held ég, við ríkjandi aðstæður og það sem í stefnir með minnkandi atvinnu í landinu.