135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

tekjuskattur.

54. mál
[12:15]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við höfum rætt þetta frumvarp áður og ég hef áður haldið ræðu, ég er orðinn dálítið leiður á mínum eigin skoðunum. Ég held að barátta næstu ára verði gegn góðum málunum. Það er svo mikið af góðum málum, t.d. virðisaukaskattur á barnaföt. Af hverju í ósköpunum borgar barnafólk virðisaukaskatt af barnafötum? Virðisaukaskattur á ylskó handa öldruðum sem eru með kalda fætur, af hverju skyldu aldraðir borga virðisaukaskatt? Hér mætti nefna margt fleira.

Hér er gert ráð fyrir að taka einn þátt úr sem er kostnaður við að afla tekna en menn gleyma því að það er ekki stærsti kostnaðurinn. Stærsti kostnaðurinn við að afla tekna er menntunin og menn geta ekki dregið hana frá. (Gripið fram í.) Stærsti kostnaðurinn við að afla tekna hjá einstæðum mæðrum er barnaheimiliskostnaður. Ekki er hægt að draga hann frá frekar en fatnað til dæmis. Við, alla vega karlkyns þingmenn, þurfum að hafa bindi en það er bara hluti af starfinu en við getum ekki dregið það frá skatti, ekki sérstaklega.

Við höfum fylgt þeirri stefnu á Íslandi að hafa skattkerfin einföld, ekki með frádráttum. Ég hef kynnt mér skattkerfið í Þýskalandi. Það er með fádæmum flókið. Þar eru tvær þykkar bækur um alla frádrætti sem nýta má varðandi hitt og þetta, t.d. batterí í heyrnartæki ef það er notað í vinnunni, að sjálfsögðu. (Gripið fram í.) Draga má batterí frá tekjuskatti í Þýskalandi að því leyti sem heyrnartæki er notað í vinnutímanum. Þá þurfa menn að reikna út og sanna það þannig að þetta gengur út í algerar öfgar mjög víða. Það er alveg óskapleg vinna, flækir skattkerfið og veldur kostnaði út um allt, bæði í eftirlitinu og hjá skattgreiðandanum sjálfum. Við höfum fylgt þeirri stefnu síðustu 15 árin að einfalda skattkerfin, gera þau einfaldari, gera skattstofnana flatari og hafa þetta almennt og það hefur gefið ágætisraun. Tekjur hafa hækkað hér á landi, hagnaður fyrirtækja hefur hækkað, allir skattstofnarnir sem skattlagðir hafa verið hafa stórhækkað. Það er líka í samræmi við kenningu prófessors sem kom hingað fyrir stuttu og heitir Arthur B. Laffer og sýndi fram á að skattstofnar eru breytilegir eftir skattprósentunni. Ég verð þess vegna því miður, herra forseti, að vera á móti þessu fína og góða máli.