135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

tekjuskattur.

54. mál
[12:28]
Hlusta

Hanna Birna Jóhannsdóttir (Fl):

Herra forseti. Ég vil koma með smáinnlegg í þessa umræðu. Allt sem varðar byggðamál og kemur byggðum landsins til góða er okkur í Frjálslynda flokknum viðkomandi.

Ég lýsi yfir fullum stuðningi við frumvarp þingmanna Frjálslynda flokksins sem kemur hér fram í fjórða sinn og borið var upp af hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni. Hv. þingmaður hefur farið yfir þær upphæðir sem miða skal við og þarf ekki að endurtaka þær.

Frumvarpið er réttlætismál að mínu mati vegna þess að verið er að gera fólki mögulegt að sækja atvinnu utan heimabyggðar sinnar án þess að atvinnusóknin verði það dýr að menn sjá sér ekki hag í að sækja þá vinnu vegna ferðakostnaðar. Fram kemur að sams konar fyrirkomulag er þekkt í öðrum löndum svo að ekki er verið að leggja til nýmæli miðað við löndin í kringum okkur.

Við lifum í síbreytilegu þjóðfélagi og hraðinn er mikill. Það sem gekk vel í gær er úrelt í dag. Mín heimabyggð, Vestmannaeyjar, var þekkt fyrir það áður fyrr að óska eftir vinnufúsum höndum. En tímarnir breytast og sú staðreynd liggur fyrir að Eyjamenn leita eftir atvinnu upp á fastalandið með tilheyrandi kostnaði líkt og aðrir landsmenn leita í önnur byggðarlög og þá að sjálfsögðu með tilheyrandi ferðakostnaði. Það er trú mín að hv. þingmenn styðji þetta réttlætismál, herra forseti.