135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

tekjuskattur.

54. mál
[12:30]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Það mál sem hér liggur fyrir er á margan hátt hið merkilegasta og þarft að ræða það. Eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu er þetta ekki nýtt mál, það hefur verið lagt fram á Alþingi a.m.k. fjórum sinnum áður. Umræðan er ekki ný. Eins og kom fram í máli hv. þm. Péturs Blöndals hér áðan hefur hann rætt þetta allnokkrum sinnum áður. Ég nefni það einnig til stuðnings því að þetta er ekki nýtt mál að í tillögu til þingsályktunar um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1998–2001, sem var lögð fram af þáv. forsætisráðherra, kemur þetta atriði fram í kafla 2.1.2, sem ber heitið Óbein jöfnun. Þar er ákvæði sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Kostnaður einstaklinga sem sækja atvinnu langt að verði að hluta frádráttarbær til skatts.“

Um þetta ákvæði hafa örugglega spunnist miklar og gagnlegar umræður. Eftir þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér greiddi hv. þm. Pétur H. Blöndal atkvæði með þingsályktunartillögunni og einnig hæstv. fjármálaráðherra þannig að menn hafa verið og eru að sjálfsögðu fúsir til að ræða þessi atriði. Annað mál er það hvernig við komum því til framkvæmda og hvort það sé gerlegt á hverjum tíma. Hv. þm. Pétur Blöndal nefndi hér áðan að nú væri runninn upp sá tími að við yrðum að berjast gegn hinum góðu málum — (PHB: Alltaf.) alltaf, eins og hann kýs að kalla það. Það má vel vera en í þeim tilgangi að forða ríkissjóði frá kostnaði vænti ég að afstaða hans byggist á þessari staðhæfingu. (PHB: Flækingur.) Flækingur, kallar hv. þingmaður fram í.

Ég er tvímælalaust talsmaður þess að hafa skattkerfið einfalt og vil undirstrika það hér. En ég vil líka leggja áherslu á það að í umræðu um byggðamál hefur hinn sameiginlegi sjóður okkar líka óhjákvæmilega kostnað af þeirri þróun í byggð landsins sem verið hefur síðasta áratuginn. Það er bara svo einfalt mál og við ættum þá á móti þeim útgjaldatillögum sem hv. þm. Pétur H. Blöndal leggst gegn að reyna að leggja mat á þann kostnað sem samfélagið verður fyrir af þeirri byggðaröskun sem óhjákvæmilega hefur verið undanfarna áratugi og er óhjákvæmileg á næstu áratugum. Það er einfalt mál að geta fullyrt slíkt því að það er þróunin og í fljótu bragði sér maður ekkert sem muni vinna sterkt gegn henni.

Ég tek undir þau sjónarmið sem koma fram hjá hv. flutningsmanni með frumvarpinu. Í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er í atvinnumálum, sérstaklega utan höfuðborgarsvæðis, í kjölfar samdráttar í þorskaflaheimildum ber okkur að skoða allar þær leiðir sem lúta að því að stækka atvinnusókn fólks. Það hlýtur að vera kostur í þessari stöðu, ef við kjósum að tiltaka það, að skoða þá hugmynd sem felst í frumvarpinu, að gera fólki kleift að draga frá tekjum kostnað við að afla sér atvinnutekna. Einn kostur í stöðunni hlýtur að vera sá hvort menn geti forðað samfélaginu frá einhverjum tilteknum framkvæmdum meðan þetta er að ganga yfir. Ég bendi á að í tillögum nefndar sem starfaði á vegum forsætisráðuneytisins og var ætlað að styrkja byggð á Vestfjörðum, var eitt atriði sem er til á minnisblaði sem útfært er af skrifstofustjóra í samgönguráðuneytinu og verkefnisstjóra sem býr vestur á fjörðum. Þar kemur fram að unnt sé að greiða niður og reikna sig niður með niðurgreiðslur flutningskostnaðar til Vestfjarða þar til úrbætur í samgöngumálum í þeim sama fjórðungi hafa átt sér stað, þannig að það er alveg hægt að ræða slíka hluti í því samhengi.

Engu að síður vil ég taka undir þau sjónarmið sem koma fram í þessu. Ég lýsi mig fúslega reiðubúinn til að skoða alla hluti í þessum efnum. Ég bendi einnig á að atvinnusamsetningin er að breytast. Við höfum til muna miklu meira af einyrkjum á vinnumarkaðinum í dag sem afla sjálfir eigin tekna í stað þess að vera í vinnu hjá öðrum og hvers vegna skyldum við ekki líta til þeirrar breytingar sem orðið hefur á samsetningu atvinnumarkaðar á síðustu árum?

Meginatriðið í umræðunni sem hér er hafin og haldið er úti og sá tónn sem hér er sleginn hlýtur að vera það þegar við ræðum byggðamál — ef þetta á að vera sérstaklega tengt byggðaumræðu hljótum við að geta verið sammála um að meginhlutverk stjórnvalda á hverjum tíma eigi að vera það að gera fólki kleift að kjósa sér búsetu þar sem það vill í landinu. Meðan það greiðir sömu skatta og undirgengst sömu skyldur og ábyrgð og aðrir samfélagsþegnar hlýtur það sama fólk að geta gert kröfu til sambærilegra lífsgæða á hvaða sviði svo sem það er með tilliti til opinberrar þjónustu, gert þessa sömu kröfu hvar svo sem það kýs sér búsetu í landinu.

Ég vil undir lok máls míns nefna í sambandi við umræðu um þjónustustig á landsbyggðinni og mismunandi skattgreiðslur og skatthlutföll þar til ríkisins að ég er ekki hallur undir mismun í skattgreiðslum til ríkissjóðs eftir því hvar fólk býr. Ég tel að við eigum að geta byggt samfélagið þannig upp að við greiðum öll sömu skatta og skyldur til samfélagssjóðsins og bendi á að við höfum þó nokkurn breytileika í skattgreiðslum til samfélagsins á sveitarstjórnarstiginu þar sem er mismunandi útsvarsprósenta og það er eini breytileikinn sem hefur verið í skattgreiðslum þangað. Það er vegna þess að takmörkunin á þeim verkefnum sem sveitarfélögunum er falið að sinna er til muna meiri að mínu mati en ríkissjóðs. Ég er því ekki talsmaður þess að vera með mismunandi skattgreiðslur til ríkissjóðs eftir því hvar fólk hefur valið sér búsetu í okkar ágæta landi.

Þjónustustigið á landsbyggðinni og mat á því er líka mjög vandmeðfarið. Ég er þeirrar skoðunar að víða á landsbyggðinni séu til muna betri búsetuskilyrði en gerast á þéttbýlli svæðum landsins. Ég met kannski aðra hluti meir til stuðnings búsetu minni á Akureyri en einstaklingur sem kýs að búa hér innan múra höfuðborgarsvæðisins, svo að maður tali nú ekki um á þeim tímum sem nú ríkja í ljósi harðnandi veðra. Það er ekkert auðveldara að komast um hér en í einhverjum afdalahrepp langt úti á landi, þetta er höfuðborgin sjálf. Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að eiga fund uppi í iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti í morgun og mætti þar hæstv. iðnaðarráðherra sprengmóðum eftir að hafa brotist um í ófærðinni. Hann hafði það af, blessaður, og við áttum ágætan fund og ágætar viðræður. (Gripið fram í.) Ég efast ekki um það.

Ég vil við lok míns máls um þetta frumvarp lýsa mig fullkomlega reiðubúinn til að ræða það út frá öllum hliðum.