135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

tekjuskattur.

54. mál
[12:44]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar verkefni eru flutt frá ríki til sveitarfélaga og tekjustofnar færast á milli fara menn þessa leið. Þegar grunnskólinn var fluttur frá ríki til sveitarfélaga var hluti af tekjuskattinum fluttur yfir í útsvarið, með öðrum orðum menn fluttu skattheimtu, sem var eins yfir allt landið, yfir í skattheimtu þar sem hver sveitarstjórn hafði tiltekið svigrúm til að hafa mismunandi skatt. Ég geri ráð fyrir því að ríkisstjórnin vilji halda áfram á þeirri braut að fela sveitarfélögum fleiri verkefni og þá í leiðinni fara með stærri hluta af innheimtu skatta hins opinbera, væntanlega þá í formi þess að breyta tekjuskatti í útsvar. Ég býst því við að sú þróun haldi áfram, að auka breytilega skattheimtu í landinu af heildarsköttum sem hver einstaklingur borgar.

Ég held að það sé alveg rétt, sem hv. þingmaður sagði, að ef menn gera kröfu um sömu þjónustu eiga menn að borga sömu skatta, sem er auðvitað eðlilegt. Hitt veit hv. þingmaður, og það kom fram í hans máli, að menn fá ekki sömu þjónustu. Þrátt fyrir að stjórnvöld hafi áratugum saman lagt sig fram um að ná því þá eru mörg landsvæði þannig að ýmist er þjónustan mun lakari í nokkur ár áður en hún nær því stigi þar sem hún er best eða hún verður aldrei jafngóð hvort sem það er á sviði samgangna, fjarskipta, launa — nú fer það að verða vaxandi vandamál að laun eru mun lægri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Þegar sú staða er uppi er nokkuð augljóst mál að ríkisstjórnin getur ekki, og vill hugsanlega ekki, náð jöfnuði að fullu leyti og er það óskynsamlegt að mínu mati að neita sér um þann möguleika að (Forseti hringir.) jafna muninn með mismunandi skattheimtu.