135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

tekjuskattur.

54. mál
[12:48]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson gat um áðan, að umræðan í sambandi við þetta frumvarp hefur þróast almennt út í umræður um skattamál og það er í sjálfu sér eðlilegt og hæstv. fjármálaráðherra gaf alveg upp boltann hvað það varðar.

Meginvandamálið sem við glímum við er sú ofurskattheimta á launþega sem um er að ræða þar sem launþegar fá ekki nema innan við helming af tekjum sínum í launaumslagið, þar sem hið opinbera, ríki, sveitarfélög og lífeyrissjóðir taka meginhluta eða meira en helming tekna hins venjulega launamanns. Þegar um slíka ofurskattheimtu er að ræða er eðlilegt að menn velti fyrir sér hvernig sé réttlátt að gera og setja ákveðnar undanþágur.

Ríkisbáknið hefur þanist út og kallar á stöðugt meiri peninga, meiri fjármuni og þá verður að taka úr vösum skattgreiðenda. Það er höfuðviðfangsefnið að draga úr ofurskattheimtunni og draga úr ríkisbákninu. Ef menn ætla að búa til réttlátt skattkerfi er forsenda þess að það geti orðið að verulega dragi úr umsvifum hins opinbera.

Varðandi undanþágur frá skattreglum þá get ég tekið undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal að ég er almennt á móti undanþágum, en það er hins vegar það skattkerfi sem við búum við og það er sá veruleiki sem við verðum að vinna út frá. Þá komum við að því efni sem lagt er hér til af flutningsmanni Guðjóni A. Kristjánssyni ásamt okkur öðrum þingmönnum Frjálslynda flokksins. Hér er lagt til að dreginn verði frá skattstofni sannanlegur ferðakostnaður að og frá vinnu. Er það óeðlilegt? Þá er komið með það inn í umræðuna að margvíslegur annar kostnaður geti komið til eins og hæstv. fjármálaráðherra benti réttilega á. Þá er spurningin þessi: Er ekki eðlilegt að taka þau mál öll til endurskoðunar? Mælir nokkuð í sjálfu sér á móti samþykkt þessa frumvarps þó til komi og geti verið um að ræða að eðlilegt væri að setja undanþágur varðandi annan kostnað sem launþegar geta haft í sambandi við tekjuöflun?

Hitt er annað mál, og mér fannst hæstv. fjármálaráðherra gefa alveg upp boltann með að það gæti komið til skoðunar að setja undanþágur eins þær sem hér er um að ræða og ég gat ekki heyrt annað á hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni en að hann tæki undir þau sjónarmið sem koma fram í því frumvarpi sem hér er um að ræða.

Það er hins vegar, hygg ég, nokkur misskilningur að tala um þetta frumvarp og jafnvægi í byggð landsins á sama tíma. Í raun er enginn greinarmunur gerður á milli þess hvar menn búa varðandi þá undanþágu sem hér er um að ræða þannig að Reykvíkingur eða Kópavogsbúi sem mundi sækja vinnu til Akraness og hefði af því sannanlegan kostnað mundi með sama hætti fá skattívilnun vegna ferðakostnaðar eins og til dæmis maður á Stykkishólmi eða kona sem þyrfti að sækja vinnu í Borgarnes eða Akranes. Í sjálfu sér virkar þetta í báðar áttir og þetta hefur fyrst og fremst þýðingu að vera sanngjarn mælikvarði þannig að það sé ekki verið að skattleggja borgarann vegna þess að hann hefur ekki í raun þær tekjur úr að spila sem fara í kostnað við að afla teknanna. Þarna getur verið um verulegan kostnað að ræða.

Í frumvarpinu er ekki talað um annað en að sannanlegur kostnaður við tekjuöflun verði til frádráttar. Það er nú einu sinni þannig að þeir sem reka fyrirtæki hafa slíkan sannanlegan kostnað frádráttarbæran þegar um er að ræða að skattar eru á þá lagðir. Í bókhaldi fyrirtækja, hvort sem um er að ræða eins manns fyrirtæki eða stærra, þá kemur ferðakostnaðurinn að sjálfsögðu að fullu leyti til frádráttar og það er það ójafnvægi sem hefur meðal annars skapast í okkar skattkerfi milli annars vegar launþeganna og hins vegar þeirra sem eru í fyrirtækjarekstri hvað varðar möguleika til þess að draga frá sannanlegan kostnað vegna tekjuöflunar sem verið er meðal annars að reyna að lagfæra með ákvæðum þessa frumvarps. Hér er ekki um neitt annað að ræða en sanngirniskröfu.

Það sem ég sé sem helstu kosti þess þegar menn tala um búsetuþróun og þau ákvæði sem hér er um að ræða þá get ég út af fyrir sig séð að þetta muni hafa jákvæð áhrif hvað það varðar að það yrði auðveldara fyrir ýmsa sem eiga þess kost að búa fyrir utan þéttbýlissvæði og vilja það eins og stór hluti landsmanna með því að hafa sannanlegan ferðakostnað frádráttarbæran.

Ég heyrði á fólki rétt utan við Akureyri að ýmsir sem ættu þess kost að gera valið þar búsetu, þyrftu ekki að mæta til vinnu frá níu til fimm á hverjum degi, kysu þann möguleika umfram það að búa þess vegna á þéttbýlissvæðinu á suðvesturhorninu eða þess vegna inni í Akureyri sjálfri. Þetta er bara spurningin um valmöguleika einstaklinganna sem er nokkuð sem ég tel að við eigum að stefna að, þ.e. gefa fólki kost á að velja sér þá staðsetningu sem það óskar sér og þá er það þannig að með því að gefa það svigrúm sem þetta frumvarp kveður á um er möguleikinn meiri og líkur á því að það verði svipuð þróun og hefur gerst í sumum öðrum löndum, að fólksfjölgunin í þéttbýli stöðvist og snúist við. Á sama tíma og ég þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir það að taka upp málstað og hagsmuni Reykvíkinga með góðum og sanngjörnum hætti þá hygg ég að við séum öll sammála um að það er markmið sem við hljótum að vilja stuðla að að fólksfjölgunin verði ekki öll á því svæði sem við erum hér á, á suðvesturhorninu, heldur geti orðið meiri dreifing þannig að það verði blómlegar byggðir um allt land. Það sem ég sé sem kost, ef það frumvarp sem hér er til umræðu verður að lögum, er í fyrsta lagi að það gefur fólki, einstaklingum, aukinn sveigjanleika til að velja sér búsetu og þess vegna velja sér atvinnu og það hlýtur að vera markmið sem við hljótum að vera sammála um að beri að keppa að.

Í öðru lagi er um að ræða hagræðingu sem ég tel líka mjög mikilvægt bæði fyrir einstaklingana og þess vegna atvinnuveitendur og svo tel ég að þegar allt er virkt og miðað við þær langanir og viðhorf sem eru meðal þorra fólks þá muni þetta frumvarp, ef að lögum verður, stuðla að því að fólksfjölgunin dreifist betur og meir um landið.