135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

einkarekstur og útvistun á starfsemi Landspítala.

[13:32]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að koma sér upp formúlu fyrir einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Hún er svona: Skattgreiðandinn borgi fyrir heilbrigðisþjónustuna að uppistöðu til. Þjónustan verði hins vegar einkarekin eftir því sem kostur er, þ.e. sá hluti hennar sem auðvelt er að græða á, hann á að fara í einkarekstur. Takið eftir að nú má ekki lengur tala um einkavæðingu heldur bara einkarekstur. Engu að síður eru það fyrirtæki sem hafa gróða og sérhagsmuni að leiðarljósi sem ásælast einkarekstur innan heilbrigðisþjónustunnar og það er slíkum aðilum sem bitarnir eru ætlaðir. Undir forræði ríkisstjórnarinnar er nú allt gert til að búa í haginn fyrir einkareksturinn, þröngva stofnunum út í einkarekstur. Í því skyni er beitt pólitísku handafli, annars vegar með sveltistefnu í fjárveitingum og hins vegar pólitískum handlöngurum innan dyra spítalanna.

Fyrst að sveltistefnunni. Við höfum fylgst með því hvernig fjárveitingum til Landspítalans er nú haldið niðri undir því lágmarki sem sjúkrahúsið þarf. Er nú svo komið að lengra verður ekki gengið í niðurskurði. Erfitt er að manna störf og veita þá þjónustu sem er lögboðin. Hvað gerist síðan? Pólitíkin, sem er ábyrg fyrir fjársveltinu, þvær hendur sínar eða hvað sagði ekki Guðlaugur Þór Þórðarson, hæstv. heilbrigðisráðherra, í umræðu hér á Alþingi hinn 17. janúar sl. þegar hann ræddi niðurskurð til Landspítalans og hættulegar afleiðingar hans?

Hann sagði, með leyfi forseta:

„Það er þannig með okkar góðu heilbrigðisþjónustu að við treystum forsvarsmönnum, sem eru að öllu leyti faglegir forsvarsmenn, læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn, til að stýra þessum stofnunum.“

Við hæstv. heilbrigðisráðherra vil ég segja af þessu tilefni að almennt treysti ég stjórnendum Landspítalans mjög vel þótt þar séu undantekningar á eins og ég kem að síðar. Ég treysti einnig starfsfólki sjúkrahússins. Ætli það séu margir vinnustaðir í landinu þar sem eins vel er unnið, af eins mikilli alúð og af eins mikilli óeigingirni og einmitt á Landspítalanum? Ég held ekki. Það er hins vegar ríkisstjórninni sem er vantreyst og mér finnst það aumt hlutskipti að hún skuli hunsa yfirlýsingar forsvarsmanna Landspítalans um afleiðingar alvarlegs fjársveltis en láta þá síðan sitja uppi með ábyrgðina eins og hæstv. heilbrigðisráðherra gerir.

Hann veit hins vegar sem er að sú blanda sem við búum við í heilbrigðiskerfinu af almannarekstri og einkarekstri veldur því að niðurskurður á almannareknum stofnunum brýst út í auknum útgjöldum í einkarekstri. Þannig er Landspítalabyggingu frestað og hvað gerist? Í Garðabæ eru áform um að einkarekinn spítali rísi og við borgum samkvæmt formúlu Sjálfstæðisflokksins. Þannig er sveltistefnan notuð, skorið er niður í mannahaldi og viti menn, til verður Starfsmannaleigan Impró.

Nú eru það læknaritararnir og þá er ég kominn að hinum pólitísku handlöngurum innan veggja Landspítalans, hvernig skyldi standa á því að fyrirtæki sem ásælast ritun sjúkraskráa fyrir Landspítalann skuli fá afhent ekki bara símanúmer heldur vakta- og launaskrár læknaritara á sjúkrahúsinu? Það á m.a. við um fyrirtækið Registur, fyrirtæki Ásdísar Höllu Bragadóttur. Hún var bæjarstjóri í Garðabæ og einn innsti koppur í pólitísku búri Sjálfstæðisflokksins. Var einhver að tala um einkavinavæðingu? Ég spyr alla vega um hagsmunatengsl.

Ég þekki nokkur dæmi þess að háttsettir aðilar innan stjórnsýslu Landspítalans hafi haft milligöngu fyrir hönd einkafyrirtækja, beitt stjórnunaráhrifum sínum og verkstjórnarvaldi til að vinna einkavæðingunni framgang. Þetta kalla ég pólitíska handlangara. Þeir segja, viðkomandi lækningaforstjórar, að tilgangur þess að bjóða út störf læknaritara sé að draga úr launakostnaði. En hvers vegna skyldi vera ráðist á læknaritara í því skyni? Læknaritarar eru með innan við 200 þús. kr. í grunnlaun á mánuði. Hvað skyldu lækningaforstjórarnir vera með sjálfir? Á aðra milljón á mánuði? Væri ekki rétt að upplýsa um það á sama hátt og þeir upplýsa um launakjör læknaritara á Landspítalanum?

Hvað með persónuverndina? Er í lagi að fara með viðkvæmar persónuupplýsingar út í bæ? Ekki sýnist mér það vera í samræmi við lög um réttindi sjúklinga. Læknaritarastarfið er lykilstarf í heilbrigðiskerfinu. Það er allt of illa launað og fráleitt að búa að læknariturum eins og gert er. Að ráðast að þessari stétt er ekki sæmandi. Í stað þess að skera niður og einkavæða á kostnað læknaritara ber að stórbæta kjör þeirra.

Spurningar mínar til hæstv. heilbrigðisráðherra eru eftirfarandi:

Hvernig réttlætir ráðherra útvistun á störfum læknaritara?

Finnst honum réttlætanlegt að starfsmenn innan stjórnsýslu Landspítalans hafi milligöngu um ráðningu starfsfólks til einkafyrirtækja?

Hefur verið kannað hvort það standist landslög að útvista ritun sjúkraskráa? (Forseti hringir.)

Hvað sér ráðherra sem næstu skref í einkarekstri og útvistun á Landspítala? (Forseti hringir.)

Finnst ráðherra það rétt forgangsröðun að spara á kostnað réttinda og launa láglauna- og millitekjuhópa? Stóð ekki til að bæta stöðu kvennastétta?