135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

einkarekstur og útvistun á starfsemi Landspítala.

[13:45]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Stundum finnst mér að vinstri grænir séu nánast viljandi að afvegaleiða umræðuna þegar kemur að ólíkum rekstrarformum í heilbrigðiskerfinu. Kreddutrúin virðist ráða þar ríkjum. Reyndar tókumst við Ögmundur Jónasson, hv. málshefjandi, á í ritdeilu fyrir rúmum tveimur árum einmitt um einkarekstur í heilbrigðiskerfinu og eins og þá erum við báðir enn sömu skoðunar, enda hefur ríkisstjórnarþátttaka Samfylkingarinnar í millitíðinni ekki breytt neinu í þessum efnum.

Samfylkingin hefur hafnað einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu og mismunun á grundvelli efnahags. Samfylkingin vill hins vegar auka sjálfstæðan rekstur í heilbrigðiskerfinu og það vill þessi ríkisstjórn einnig. Það er grundvallarmunur á einkarekstri og einkavæðingu. Einkarekstur leggur til almannaþjónustu á kostnað ríkisins en einkavæðing felur í sér greiðsluþátttöku almennings. Einkarekstur er nú þegar víða að finna í íslensku heilbrigðiskerfi, svo sem í öldrunarþjónustu og sérfræðilækningum. Þegar glasafrjóvgunardeildin var færð út af Landspítalanum og yfir í sjálfstæðan rekstur batnaði þjónustan og ánægja sjúklinga og starfsfólks jókst.

Á meðan tryggt er að hið opinbera greiðir fyrir heilbrigðisþjónustuna á ekki að skipta máli hver veitir hana. Samfylkingin er ekki að fara að gefa neinn afslátt á grundvallaratriðum jafnaðarstefnunnar eða öryggi sjúklinga en einkarekstur og útvistun verkefna í heilbrigðiskerfinu hlýtur að vera jákvætt skref ef markmiðið um jafnan aðgang og óháðan efnahag er virt. Ef við höfnum svona hugmyndum erum við einfaldlega föst í fortíðinni og í kreddunni þar sem vinstri grænum líður best. (Gripið fram í.)