135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

einkarekstur og útvistun á starfsemi Landspítala.

[14:02]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvað maður á að eyða miklum tíma í að reyna að leiðrétta hv. þm. Ögmund Jónasson en ég vek þó athygli á einu sem er augljós og hrein og klár hugsunarvilla hjá hv. þingmanni. Hann hamast við að reyna að sannfæra menn, þrátt fyrir að allir hafi aðgang að fjárlögum, allir geti skoðað útgjöld til heilbrigðismála sem sýna hækkun þar ár frá ári og þó að við berum okkur saman við önnur lönd erum við með þau allra hæstu, samt sem áður hamast hann við að halda því fram að hér sé sveltistefna í gangi.

Hann talar um leið og segist sannfærður um það að ef menn skoði einkareksturinn sé hann miklu dýrari en opinberi reksturinn en á sama tíma segir hann: „Sveltistefnan er leið til að fara út í einkarekstur.“ Þetta gengur bara ekki upp. (ÖJ: Einkarekstur er dýrari þegar upp er staðið.) Hv. þingmaður er nú það oft hér í pontu að hann ætti að láta sér þann tíma nægja. En það er alveg ljóst, ef hv. þingmaður er að halda því fram að verið sé að svæla stjórnendur spítala og stofnana út í einkarekstur með því að láta þá fá litla peninga, að þá getur hann ekki á sama tíma sagt að það sé dýrara. Það gengur bara ekki upp. (ÖJ: Þegar upp er staðið.)

Nú er komið eitthvað annað hljóð í strokkinn, virðulegi forseti. Og aðeins til að upplýsa þetta þá er mjög athyglisvert að skoða hvaða aðilar hafa boðið í þessa ágætu þjónustu. Það eru m.a. heilbrigðisstofnanir úti á landi og ýmsir aðilar. Og allar þær dylgjur sem hér hafa komið fram standast ekki nokkra einustu skoðun.

Ég vil nota tækifærið og þakka fyrir annars mjög góða umræðu. Hér fóru flestir, ef undan er skilinn málshefjandi, vel yfir málið og ég get tekið undir mjög margt af því sem kom fram hjá þeim, enda er það svo að við erum sammála um markmiðin, Íslendingar almennt. Við erum að skoða hvaða leiðir er best að fara og það hefur engin grundvallarbreyting orðið hvað þessi mál varðar eftir að ný ríkisstjórn tók við, hvað sem hv. þm. (Forseti hringir.) Ögmundur Jónasson reynir að búa til í því efni. (ÖJ: Þetta er geysilega málefnaleg umræða.)