135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

fjáraukalög.

148. mál
[14:56]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir nokkuð langt að ætla að bíða eftir nýrri samgönguáætlun sem á þá að endurskoðast eftir tvö ár, að mínu mati er það sjálfstæð ákvörðun að taka þetta mál upp. Eins og hv. þingmaður rakti svo vel í ræðu sinni var aðdragandi fjármögnunar Hvalfjarðarganga með þessum hætti, það voru sérlög. Það eru nánast alfarið opinberar stofnanir og opinber fyrirtæki sem mynduðu hlutafélag um göngin, það var eina færa leiðin til fjármögnunar.

Í skýrslum, m.a. frá Ríkisendurskoðun, liggur fyrir að þessi leið í fjármögnun vegaframkvæmda sé ekki endilega sú besta, sú ódýrasta eða sú hagkvæmasta, síður en svo. Allt bendir til þess að framkvæmdir í vegamálum séu miklu hagkvæmari á ábyrgð hins opinbera. Það hefur ekki sýnt sig að einkaframkvæmdir eins og verið er að gæla við, og mér fannst hv. þingmaður koma inn á, séu neinn valkostur.

Varðandi áhrif á samkeppnisstöðu og réttlæti og jöfnuð íbúa á Vesturlandi og áfram norður og vestur um tel ég að ekki eigi að bíða með þá ákvörðun að ríkið losi vegfarendur undan gjaldtöku á þessum vegi. Ætli það séu ekki bara Hvalfjarðargöngin og síðan ferjan til Vestmannaeyja — það er líka óréttlátt að Vestmannaeyingar (Forseti hringir.) skuli vera skattlagðir sérstaklega á þjóðvegum landsins. (Gripið fram í.)