135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

fjáraukalög.

148. mál
[15:11]
Hlusta

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Því er til að svara spurningum hv. þingmanns að við gerum ekki ráð fyrir því að yfirtaka skuldanna verði greidd af vegafé eða hlut kjördæma í því heldur einfaldlega að ríkið yfirtaki þessar skuldir. Ég hlýt hins vegar að vekja athygli á sjónarmiði hv. þingmanns í ljósi þess til dæmis að hann taldi að ef menn færu þessa leið þá yrði að tengja það við kjördæmi. Það hlýtur þá að þýða að það sé afstaða Sjálfstæðisflokksins að verði valin gangaleið við Sundabraut þá eigi Reykjavíkurborg að borga mismuninn. Ég get ekki fengið annan skilning út úr ræðu hv. þingmanns, varaformanns fjárlaganefndar.

Ég spyr hann hvort hann muni þá beita sér fyrir því að sá kostnaðarauki sem fellur á ríkið vegna þess að valin var sú leið að fara Héðinsfjarðargöng í stað þess að fara með göng í Fljót og þaðan endurbyggja veginn um Lágheiði sem tvöfaldaði kostnaðinn sem er 3–4 milljarðar umfram það sem þurfti, þ.e. hvort hann muni beita sér fyrir því að sá umframkostnaður verði tekinn af sérstaklega kjördæmahlut Norðausturkjördæmis. Ég vil segja, virðulegi forseti, að mér fannst ræða hv. þingmanns dapurleg. Ég vil kannski ekki taka sterkar til orða þó önnur orð séu mér ofar í huga þessa stundina. En ég ítreka að þetta var dapurleg ræða.