135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

fjáraukalög.

148. mál
[15:17]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Þegar við ræðum Hvalfjarðargöngin og sögu þeirra og stöðu í dag sér maður hvað góðar hugsjónir og mikil markmið taka oft langan tíma. Ég minnist þess þegar ég var drengur í námi uppi í Borgarfirði að þá sat minn gamli skólastjóri, Guðmundur Jónsson á Hvanneyri, í nefnd um vegabætur í Hvalfirði og brúargerð. Þá þegar voru menn að velta þessu fyrir sér, ég man ekki hvort rætt var um göng á þeim tíma, ég efast um það, en það var verið að tala um brú. 30 árum síðar varð það að veruleika að þarna komu jarðgöng. Nú eru menn að velta því fyrir sér hér hvort við eigum að breyta um stefnu hvað þetta stóra mál varðar, greiða upp skuldir Hvalfjarðarganganna og setja þau inn í hið almenna vegakerfi.

Þessi barátta stóð lengi yfir. Framkvæmdir hófust 1996 og lauk á tveimur árum. Ég geri mér grein fyrir að þá var verið að fara í eina stærstu vegaframkvæmd á Íslandi í kreppu, í rammskuldugum ríkissjóði sem var í rauninni í þá daga að skera niður allt til félagsmála og samgöngumála í landinu. Staðan var með allt öðrum hætti þá. Ef ríkissjóður skuldaði í dag eins og hann gerði á þeim tíma mundi hann skulda hátt í 300 milljarða. Nú skuldar ríkissjóður nánast ekki neitt. Þetta er hin breytta staða í samfélaginu. Við getum líka spurt okkur að því, ef ríkissjóður ætlar að borga kostnað og vexti af þessu fjármagni sem eru tæpir 4 milljarðar til 2018, hvað kostar það skuldlausan ríkissjóð mikið. Er kannski hagkvæmara fyrir ríkissjóð að semja við þá sem hann tók þetta lán hjá og greiða lánið upp?

Nú eru sjálfstæðismenn oft að telja þjóðinni trú um, sem ég reyndar efast um, að þeir séu allir miklir bisnessmenn og ég heyrði það á málflutningi hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar, 1. þm. Norðaust., að hann hugsar þetta ekki út frá hagsmunum ríkissjóðs. Hann hugsar þetta mál ekki út frá hagsmunum byggðanna. Þetta getur verið alveg gríðarlegt hagsmunamál. Við skulum gá að einu, að þegar ráðist var í þessa mestu framkvæmd Íslandssögunnar í samgöngumálum þá var þetta einstök aðgerð og þetta er hringvegurinn á Íslandi sem á í hlut. Ég er þeirrar skoðunar, og ég sakna þess að hvorki hæstv. samgönguráðherra né hæstv. fjármálaráðherra skuli vera við þessa umræðu, að það hljóti að vera hagkvæmt fyrir ríkissjóð að greiða þessar skuldir upp. Ef skuldlaus ríkissjóður með gríðarlegan afgang — mig minnir að hæstv. fjármálaráðherra hafi fundið einhverja 70 milljarða óvart sem komu af eyðslu síðasta árs — greiddi upp skuldirnar væri líklegt að þá vexti sem þær bera á næstu árum og við verðum að borga væri hægt að nota í vegaframkvæmdir. Við græðum sem sé á því að semja um þessa skuld og greiða hana upp.

Ég er þeirrar skoðunar að það verði aldrei farið í svona framkvæmd á hringveginum héðan í frá (Gripið fram í.) og þegar göngin verða tvöfölduð, sem ég tel ekki tímabært, því að margar aðrar framkvæmdir er mikilvægar, þá er ég líka þeirrar skoðunar að þessi leið verði ekki farin aftur. Það verður ekki sæst á það á Vesturlandi og Norðurlandi. Þetta er kostnaður, þetta er þrenging og þetta dregur úr samkeppnishæfni byggðarlaganna handan Hvalfjarðar, því að málið er bæði búsetu- og byggðamál. Það er hagsmunamál fólksins sem þar býr og vinnur á höfuðborgarsvæðinu að þarna verði breyting á. Það er hagsmunamál ríkisvaldsins til að auðvelda umferð að gjöldin verði felld niður. Gjöldin tefja umferð um Hvalfjarðargöngin, skapa biðraðir og erfiðleika í umferðinni fyrir fólk, höfuðborgarbúa og aðra, ekki síst á sunnudögum. (Gripið fram í: Milli mjalta og messu.) Milli mjalta og messu. Gjöldin valda miklum töfum og það þekkja Reykvíkingar best. Sú ríkisstjórn sem ég sat í tók stærstu ákvörðun allra tíma í samgöngumálum og gott ef hæstv. fyrrverandi samgönguráðherra sem … (Gripið fram í: Hver?) Ég hef nú hrósað hæstv. forseta þingsins fyrir að hafa verið góður samgönguráðherra og ég dreg ekkert úr því. Það voru teknar voru stórar ákvarðanir, það voru teknar ákvarðanir sem varða höfuðborgina alveg gríðarlega, að allar stofnæðar frá höfuðborginni og að henni verði tvöfaldaðar, að vegurinn austur fyrir Selfoss verði tvöfaldaður, Vesturlandsvegur í Borgarnes verði tvöfaldaður og verið er að klára veginn frá höfuðborginni til Reykjanesbæjar eða Keflavíkur. Vegagerðin er oft neikvæð, hún er oft sein til breytinga og hefur verið það, því miður, en þetta var ákveðið og þetta eru stærstu verkefni í samgöngumálum sem snúa að höfuðborginni með Sundabraut og öðru slíku og er mikilvægt að þau líti dagsins ljós. Ég er því talsmaður þess að menn fari virkilega yfir þetta.

Ef hæstv. fjármálaráðherra væri í húsinu mundi ég biðja hann að reikna það út fyrir mig, því að fjármálaráðherrar eru oft fljótir að reikna, hve ríkið mundi spara mikið á því að greiða skuldina upp en láta ekki einhverja hagnast á henni og hafa af því vexti og vaxtavexti frá ríkinu. Það er hagkvæmt að greiða lánið upp og ég hygg að margir sjálfstæðismenn sem ég þekki og eru ágætir peningamenn mundu greiða slíka skuld upp við þessar aðstæður. — Nú sé ég að það glaðnar yfir hv. þm. Ellerti B. Schram, sem eitt sinn var sjálfstæðismaður og kann með peninga að fara, og ég hugsa að hann sé mér sammála í þessu máli. — Við skulum hugsa um þetta í alvöru vegna búsetu og byggðamála, vegna þess að þetta er réttlætismál. Þetta var gert í kreppu á Íslandi, þetta verður ekki gert aftur á hringveginum, þetta verður ekki gert með Vaðlaheiðargöng en hins vegar kann vel að koma til greina að hyggilegt sé að fara þessa leið við einstaka vegi sem munu hafa mikil áhrif. Ég var einhvern tíma og er enn flutningsmaður tillögu um Kjalveg t.d. Ég útiloka ekkert slíkt.

Hér hefur líka verið minnst á að menn borgi í Herjólf og Grímseyjarferju. Það gæti líka verið mjög mikilvægt fyrir þessar eyjar, af því að ríkissjóður er skuldlaus, að hafa frítt í ferjurnar til þessara byggðarlaga og taka þar með þátt í byggðamálum og lífi þess fólk sem býr á afskekktum eyjum og þarf að fara yfir hafið. Oftast hefur verið rætt um að gjaldtakan verði með þeim hætti að þetta kosti ekki meira en að fara sambærilega leið á þjóðvegi. Það er hið eilífa stríð sem við stöndum í. En auðvitað gæti það verið mikið byggðamál fyrir eyjalífið, sem við viljum vernda og verja, að fella niður gjöldin og það yrði frítt í Herjólf og í Grímseyjarferjuna frægu og mundi þannig hafa mikil áhrif á mannlíf og atvinnulíf á þeim stöðum sem þurfa á því að halda.

Ég vildi koma því að að ég er þeirrar skoðunar að það sé tímabært að setjast yfir þetta í fullri alvöru, að það sé sanngirnismál fyrir alla Íslendinga og hagkvæmt fyrir ríkisvaldið sjálft að greiða upp skuldirnar sem hvíla á Hvalfjarðargöngunum, að ná að semja um það við eigendur skuldarinnar að fá að greiða hana upp er hagkvæmt fyrir ríkið. Og fyrir afganginn, hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, gætum við þess vegna lagt Kjalveginn eða ráðist í einhverjar aðrar mikilvægar framkvæmdir. (Gripið fram í.) Þetta er nefnilega bisnessmál. Mér finnst mjög athyglisvert að í greinargerð — ja, nú er kominn í salinn mestur peningamaður þingsins. Nú er kominn hér hv. þm. Pétur Blöndal, sem er frægur smali í mínu héraði austur í Skaftafellssýslu og ég hef farið yfir þá sögu, en það er gaman að sjá hann hér því að hann er ekki bara góður smali að reka fé á haustin með Skaftfellingum, heldur er hann líka mestur fjármaður á peninga. Nú væri gaman að spyrja hv. þm. Pétur Blöndal fyrst ráðherrarnir eru ekki hér og hv. þingmaður hefur mest vit okkar allra á peningum, að sagt er: Er ekki hagkvæmt fyrir skuldlausan ríkissjóð að greiða upp skuldina á Hvalfjarðargöngum og nota þá peninga í annað? Ég bið hv. þm. Kristján Þór Júlíusson að spilla ekki hv. þingmanni hvað þessa spurningu varðar. Ég vil að hann fái að hugsa þetta hlutlaust og hann þarf ekki á hjálp að halda í þeim efnum.

(Forseti (ÞBack): Forseti vill áminna hv. þingmann um að beina orðum sínum til forseta en ekki til hv. þingmanna úti í sal.)

Ég er nú hér, hæstv. forseti, að tala eins og flestir þingmenn gera. Við getum ekki farið eftir hinu flókna stríði forsetanna um að gera þetta svo flókið að enginn nenni að tala í þinginu. Ég frábið mér slíka afskiptasemi.

Ég þarf ekki að bæta meiru við þetta. Ég minni á það í lokin að við byggðum Hvalfjarðargöngin í mikilli kreppu og með skuldugan ríkissjóð. Þau hafa reynst hagkvæm. Þau eru vegartálmi í dag, þau aftra framgangi í byggðum, og ég ætlaði að fara að minnast á það þegar forseti truflaði mig með athugasemd sinni að hér kemur fram í greinargerðinni, með leyfi forseta, að miðað við tiltekna forsendu telur Vífill Karlsson hagfræðingur að heildarávinningur Vestlendinga af niðurfellingu gjaldsins verði á bilinu 4,5–5 milljarðar kr. að núvirði eða að jafnaði 275–306 millj. kr. árlega. Þetta er ekki lítill ávinningur fyrir byggðarlagið á Vesturlandi, fyrir Akranes og Vesturland allt, og þetta mun hafa áhrif allt norður og vestur í land. Ég bið hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins og ekki síður hæstv. ráðherra sem fara með þessi mál, bæði hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. samgönguráðherra, að fara rækilega yfir þessi mál og velta því fyrir sér hvort ekki sé hyggilegt að bregðast við þessu máli með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi.