135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

fjáraukalög.

148. mál
[15:32]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér þykir nú vænt um þáttinn Út og suður og mun vera í honum næsta laugardagskvöld þannig að það er nú gott að minnast á hann. (Gripið fram í.) En ég vil segja að þetta var ræða sem ég skildi ekki og er það nú einn sjálfstæðismaðurinn enn sem ekkert hefur vit á peningum.

Það er sitthvort að greiða upp skuld sem hefur engin áhrif önnur en til hagnaðar fyrir heil byggðarlög og samfélagið í heild sinni eða að ráðast í vegaframkvæmdir sem skapa þenslu upp á 4 milljarða. Það eru tvö ólík verkefni svo að við verðum að hugsa það þannig.

Ég tel það sanngirnismál að hringvegurinn — þessi síðasta hindrun sem tekin var upp í kreppu — að gjaldtaka fari fram í Hvalfjarðargöngunum, það var sanngirnismál og við ákváðum það. En nú er bara allt önnur staða í samfélaginu. Það leyfir mér enginn annað en að vera vitrari í dag en ég var í gær. Við hefðum ekki komið Hvalfjarðargöngunum í framkvæmd öðruvísi þá en með þessum hætti. Nú er staðan bara allt öðruvísi.

Hv. þm. Kjartan Ólafsson getur lagst á koddann sinn í kvöld og hugsað alla sína pólitík upp á nýtt hvað samgöngumál varðar. (KÞJ: Hvað er afgangurinn mikill?) Afgangurinn? Ég sé það náttúrlega að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins — hér kallar Kristján Þór Júlíusson hv. þingmaður fram í: Hvað er afgangurinn mikill? Það hvíla 3,9 milljarðar á göngunum. Það er spurning um hvort sé hægt að semja um að borga þau upp. Það getur líka verið að ekki semjist um það.

En að það sé sanngirniskrafa og réttlát að ríkið greiði þá afborgun skuldarinnar, það er önnur hlið málsins. Ég mundi fremur leita eftir því við eigendur sem samið var um að fá að borga þessa skuld upp. Það geri ég í ljósi þess að mikill afgangur er á ríkissjóði ár eftir ár og skuldlaus staða.