135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

fjáraukalög.

148. mál
[15:34]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu athyglisvert og stórt mál sem við þekkjum vel mörg hver. Menn hafa rætt um forsögu málsins og ég er einn af þeim sem þekkja hana þokkalega. Á þeim tíma þegar þessi framkvæmd var að komast á koppinn upp úr 1990 var ég einn af sveitarstjórnarmönnum á Vesturlandi þar sem mikið var fjallað um málið.

Auðvitað höfðu menn skiptar skoðanir um verkefnið. Þetta var ný leið sem fara átti í samgöngumálum og auðvitað höfðu ýmsir enga trú á því að hægt væri að gera veggöng undir sjó. Sumir voru með heitingar um að þessa leið færu þeir aldrei vegna þess að þeir óttuðust mikinn leka í göngunum. Reynslan hefur sem betur fer verið önnur og framsýni og dugur þeirra sem stóðu að gerð ganganna á sínum tíma eru auðvitað virðingarverð og hafa skilað okkur miklu. Um málið náðist góð samstaða, bæði á Vesturlandi og á Alþingi á sínum tíma og þess vegna komst verkefnið til framkvæmda.

Vitnað hefur verið í — og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu — rannsókn sem varðar hag Vestlendinga af göngunum. Auðvitað sjá allir sem skoða að ávinningur, ekki bara Vestlendinga heldur allrar þjóðarinnar, er mikill af framkvæmdinni. Ég veit reyndar að sumir þingmenn af höfuðborgarsvæðinu sakna þess að ekki sé rætt um íbúa á höfuðborgarsvæðinu í þessu sambandi en ég geri það hér með og við sjáum öll að göngin hafa skilað miklu.

Framkvæmdin hefði aldrei komist af stað og verið farið í hana nema vegna þess að ákveðið var að taka veggjald til þess að fjármagna verkið. Fullkomin samstaða var um það á þeim tíma að fara í verkefnið með þeim hætti, að fjármagna framkvæmdir með veggjaldi. Það þótti sjálfsagt og voru ekki svo miklar heitingar eða umræður um það á sínum tíma.

Á þeim tíma sem liðinn er frá því að göngin voru opnuð hefur gjaldið lækkað að raungildi. Það hefur ekki hækkað í krónutölum, að ég hygg, að minnsta kosti ekki nú síðustu árin. Það er auðvitað til mikilla hagsbóta fyrir alla þá sem nýta þessa samgönguæð.

Hér hafa hv. þingmenn rætt mikið um fjármögnun framkvæmda og gjaldtöku o.s.frv. Við þekkjum auðvitað að gjaldtaka af þessu tagi er alþekkt um allan heim þar sem menn hafa farið í einstaka framkvæmdir og innheimt veggjöld, tolla af þeim sem þau nota. Það er alþekkt leið og hefur reynst vel alls staðar og er góð til þess að flýta framkvæmdum í samgöngumálum eins og Hvalfjarðargöngin eru skýrt dæmi um.

Ég vil taka undir það sem fram kom hjá einhverjum hv. þingmanni sem ég man nú ekki hver var í svipinn. Það snýr að því að móta þurfi skýra stefnu um gjaldtöku af umferðinni. Mér finnst það vera mjög mikilvægt og ég veit að hæstv. fyrrverandi samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson, vann í þessum málum og ég átti sæti í nefndinni sem fjallaði um þetta. Ég hvet núverandi hæstv. samgönguráðherra til að skoða málið og vinna að mótun framtíðarstefnu um hvernig standa eigi að gjaldtöku af umferð. Það tengist auðvitað þessu máli að hluta til þannig að það er mikilvægt og verðugt verkefni.

Menn ræða hér um, eins og frumvarpið kveður á um, að ríkið yfirtaki skuldir eða eignist göngin fyrr en áætlað hefur verið. Það er auðvitað mjög gott mál ef samstaða næst um það. Ég leyfi mér að hvetja hv. þingmenn stjórnarliðsins til að beita sér í því gagnvart ríkisstjórn sinni. Menn hafa bent á ýmsar leiðir í því sambandi og er eflaust hægt að finna þær nokkrar. Það er verðugt verkefni fyrir hv. þingmenn stjórnarliðsins, ekki bara tala um málið, heldur líka að beita sér í því.

Ég hef smáreynslu af því að fjalla um málið á síðustu árum. Ég hef orðið var við að ýmsar hindranir eru í veginum að ná þessu marki. Án þess að ég ætli að benda á einhverja sökudólga þar þá vitum við að fjármálaráðuneytið leikur þar stórt hlutverk. Þar hefur málið verið rætt oft og tíðum án þess að náðst hafi árangur í því. M.a. hefur verið rætt um að virðisaukaskatturinn sem tengist framkvæmdunum kæmi til góða fyrir fyrirtækið og þá einnig umferðina en það hefur ekki náðst fram. Ég óska núverandi hv. stjórnarþingmönnum velgengni við að ná árangri í því máli.

Einnig var borin upp mikilvæg spurning hér — ég held að það hafi verið hv. þm. Kristján Þór Júlíusson sem það gerði. Hún er auðvitað mikilvæg og grundvallaratriði: Hvað vill Spölur? Hver er hugur manna sem stýra því fyrirtæki og fara með eignarhald þar? Er það yfir höfuð einhver kostur? Er einhver möguleiki á því að fyrirtækið Spölur sé tilbúið að ganga til samninga við ríkið? Það hlýtur að vera grundvallaratriði. Hvað er um að ræða varðandi kaupverð? Ríkið þyrfti auðvitað að semja við fyrirtækið um einhvers konar kaupverð á göngunum og mannvirkjunum, um meðferð skulda sem á því hvíla. Ég hef ekki heyrt vísbendingar um það í þessari umræðu að hv. þingmenn hafi upplýsingar um afstöðu fyrirtækisins í þessu sambandi.

Hæstv. forseti. Ég ætla nú ekki að hafa ræðuna mikið lengri en ítreka að þetta er mikilvægt mál og ég tel að tilkoma Hvalfjarðarganganna hafi verið bylting í umferðarmálum. Það var algjör bylting fyrir Vesturlandið og reynslan af göngunum er góð og auðvitað hlýtur það að hvetja okkur til að halda áfram á svipaðri leið. Ég verð að segja að mér finnst að menn eigi ekki að útiloka að fara í framkvæmdir af þessu tagi með einhvers konar gjaldtöku. Það er góð reynsla af því um allan heim og við höfum hana einnig í þessu tilfelli. Menn hljóta að þurfa að hafa það með á blaði þegar þeir velta fyrir sér möguleikum á því að flýta stórframkvæmdum í samgöngum. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra, virðulegi forseti, en þetta er góð umræða og við eigum örugglega eftir að ræða málið oftar.