135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

fjáraukalög.

148. mál
[15:42]
Hlusta

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu sína. Það er alveg rétt sem hann minntist á og áður hafði komið fram í umræðunni að menn spyrja: Hvað vill Spölur? Fyrir því er auðvitað engin klár vissa. Þess vegna er frumvarpið sett upp sem heimildargrein eins og margar aðrar sem eru á fjárlögum af því ríkið eitt er ekki einn aðili að þeim ákvörðunum sem eru í heimildarákvæðum fjárlaga. Síðan þarf að kanna hvort samkomulag næst, hvort sem það er um þessa yfirtöku eða kaup á húsnæði eða öðru slíku sem fjárlögin hafa að geyma.

Hins vegar hef ég enga ástæðu til að ætla annað en að forsvarsmenn Spalar muni vera fúsir til samninga og hafi engin önnur sjónarmið en hagsmuni umferðarinnar í huga því að Spölur er ekki fjárfestingarfélag heldur félag til að bæta búsetuskilyrði á Vesturlandi. Þar eru opinberir aðilar, eins og fram kom í máli hv. þm. Guðbjarts Hannessonar, sem eru eigendur.

Samkvæmt samningnum við Spöl sem gerður var 1995 kemur fram í 7. gr., að samkomulag er milli ríkisins og Spalar um að við lok samningstímans verði veggöngin ásamt tilheyrandi mannvirkjum eign ríkisins án endurgjalds. Um það er því samkomulag. Þess vegna þarf ekki að efast um að ríkið eignast þessi mannvirki án nokkurrar greiðslu þegar þar að kemur. Heimildin snýst þá aðeins um að láta hlutina gerast áratug fyrr en ella væri og að ríkið yfirtaki skuldirnar og annist greiðslu á þeim.