135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

fjáraukalög.

148. mál
[15:56]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það má skilja á máli hv. þm. Kjartans Ólafssonar að hann óttist trúverðugleikann í sambandi við svona framkvæmdir með þeim hugmyndum sem hér hafa komið fram. Þá er ég ekki að tala sérstaklega um þetta mál sem nú er til umræðu heldur almennt að fella niður gjaldið í göngunum.

Ég vil taka það sérstaklega fram að Spölur hefur frá upphafi reynst afar traustur og trúverðugur aðili og staðið frábærlega að framkvæmdum og öllu viðhaldi og eftirliti með Hvalfjarðargöngum. Spölur eignarhaldsfélag hefur ekki óskað eftir því að hverfa frá framkvæmdum eða gjaldtöku eða með neinum hætti reynt að komast undan samningnum. Tillögur sem hafa verið fluttar um breytingar sem varða veggjaldið eiga að koma frá ríkisvaldinu vegna breyttra aðstæðna. Samningur sem gerður var til 20 ára, miðað við ákveðnar forsendur, hefur reynst vera gerður til of langs tíma miðað við þær miklu breytingar sem hafa orðið síðan þá, á umferð og á framkvæmdum. Það merkilega er að þetta varð ekki fordæmisskapandi til veggjalda á öðrum leiðum einhverra hluta vegna og það út af fyrir sig er umhugsunarefni.

Spurning mín til þingmannsins er hvort hann geti ekki verið sammála mér um að nauðsynlegt sé að fara í prinsippumræðu og yfirferð á hverjar tekjur eru af umferð og með hvaða hætti eigi að ráðstafa þeim tekjum og hvernig eigi að haga gjaldtöku og þá um leið líka á siglingaleiðum, t.d. í Vestmannaeyjaferjunni eða öðrum ferjusiglingum þar sem um er að ræða ferjur sem einu flutningaleiðina. Ég tel mikilvægt að fara í slíka úttekt og það er það sem ég hef óskað eftir og þar með komi Hvalfjarðargöngin til skoðunar í leiðinni. Ég spyr hv. þm. Kjartan Ólafsson hvort hann sé ekki sammála mér um að það væri kannski fyrsta og mikilvægasta skrefið.