135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

fjáraukalög.

148. mál
[16:14]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er auðvitað hreinn og klár útúrsnúningur, að snúa því upp í andhverfu sína og segja að ef við greiðum skuldir eða að sé hagkvæmt að greiða upp skuldir og leita eftir samningum þá verði menn að fresta einhverju öðru. Auðvitað kemur það ekki til greina að fresta Suðurlandsveginum eða öðrum áformum út af þessu. (Gripið fram í: Góður við alla.) Nei, þetta fjallar um heilmikið hagsmunamál höfuðborgarinnar og fólks sem sækir hingað atvinnu. Það getur líka verið mjög hagkvæmt fyrir ríkið við núverandi aðstæður. Það mundi ég vilja fara yfir.

Ég sé að það er kennt af ýmsum mönnum sem hafa vit á fjármálum að við ýmsar aðstæður sé heppilegt að borga upp skuldir sínar. Ég hitti vitran þingmann frammi sem hafði gert þetta fyrir tveimur árum. (Gripið fram í.) Nei, hann setti sér langtímamarkmið.

Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson hefur sagt og boðar í fjárlögum að það verði 39 milljarða kr. afgangur á fjárlögum þessa árs. Við vorum að nota þessa peninga, þegar ég var í ríkisstjórn, til þess að bæta stöðu lífeyrissjóða og gera ýmislegt sem er ríkinu hagkvæmt, greiða niður skuldir ríkissjóðs. Þetta eru skuldir ríkissjóðs. Ég bið hv. þingmann að tala ekki eins og hann hefur gert.

Ég vil að lokum spyrja hv. þingmann: Á hann sér ekki þann draum að Hvalfjarðargöng verði gjaldfrí?