135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

fjáraukalög.

148. mál
[16:19]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er ekki hægt að láta svo áhugaverða umræðu fara fram hjá sér án þess að taka þátt í henni. Svo vítt og breitt hafa menn farið í umræðu um málið. Ég ætla eiginlega að gera það líka, hæstv. forseti, fara nokkuð vítt og breitt yfir sviðið í því sem við getum kallað samgöngumálaumræðu, gjaldtökuumræðu, forgangsröðunarumræðu, búsetuþróunarumræðu og lífskjaraumræðu fyrir fólk eftir því hvar það býr á landinu.

Í fyrsta lagi vil ég segja að umrædd tillaga snýr að því að taka mið af því sem við getum kallað áhrif ríkisvaldsins á búsetuþróun með því að sums staðar séu tekin gjöld en annars staðar ekki. Í þeirri umræðu mætti fara vítt og breitt í gegnum og hún nær ekki bara til gjaldtöku í Hvalfjarðargöngum heldur og til gjaldtöku á öðrum þjóðleiðum. Við getum nefnt ferjurnar út í Grímsey og Hrísey og ekki síst Herjólf. Við gætum þess vegna rætt um Bakkafjöru eða það að menn klári ekki rannsóknir varðandi jarðgöng til Vestmannaeyja o.s.frv. Þannig væri hægt að tína margt til í þessari umræðu. En hún er fyrst og fremst til komin vegna þess að við þykjumst sjá að ríkið stýri búsetuþróuninni með þeirri gjaldtöku sem viðgengst í Hvalfjarðargöngunum.

Það var vissulega mjög merkur áfangi þegar Hvalfjarðargöngin voru sett á dagskrá. Ég hygg, hæstv. forseti, að það að velja að fara með Hvalfjarðargöngin í einkaframkvæmd hafi m.a. verið vegna þess, að þrátt fyrir að menn samþykktu þessa framkvæmd með þessum hætti höfðu ýmsir vantrú á að hægt væri að fara með jarðgöng undir sjávarbotninn. Reyndar voru margir á Íslandi sem höfðu ekki trú á því að á Íslandi gætu menn gert jarðgöng svo vel færi. Það er umræða út af fyrir sig og umræðan um möguleg jarðgöng til Vestmannaeyja ber keim af því viðhorfi. Þótt engar rannsóknir hafi sýnt fram á að það sé ófær leið. En þeim rannsóknum er því miður ekki lokið og menn hafa ekki endanlega úrvinnslu úr þeim upplýsingum sem nauðsynlegar væru málinu. En vonandi liggja þær upplýsingar fyrir einn daginn, hvenær sem það verður og hver sem ákvörðunin verður.

Hæstv. forseti. Þær samgöngubætur sem unnið hefur verið að á þessu stóra svæði, ef við getum talað um hið víða Stór-Reykjavíkursvæði sem tengist með ýmsum hætti upp í Borgarfjörð, austur fyrir Selfoss og á Suðurnes, hafa verið miklar. Ein merkasta samgöngubótin núna er kannski Reykjanesbrautin, en henni lýkur væntanlega fljótlega eftir þær uppákomur sem þar hafa orðið. Einnig stendur til að lagfæra mjög veginn austur yfir Hellisheiði, austur um til Selfoss, gera þá leið á sama hátt og á Reykjanesi.

Í annan stað hafa menn horft á svæðið frá Reykjavík til norðurs að Hvalfjarðargöngum og þess vegna upp að Borgarnesi og áfram. En þar eru, eins og réttilega kom fram í máli hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar, í raun ekki nein áform um tvöföldun á næstu missirum. Þau eru ekki föst í hendi og inn í þá umræðu spilar svo Sundabrautin, í jarðgöngum eða ekki í jarðgöngum og allt það. Við erum því að skoða málið í heild sinni með umræðunni eins og hún hefur verið í dag.

Eitt er þó algjörlega ljóst, hæstv. forseti, að jarðgöng bæta umferðaröryggi. Um það er örugglega ekki deilt lengur. Það hefur sýnt sig í Hvalfjarðargöngum, í Vestfjarðagöngum og í göngum milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar og það mun væntanlega sýna sig í þeim miklu framkvæmdum sem nú eru á Norðurlandi og munu tengja saman Siglufjörð og Ólafsfjörð um svokölluð Héðinsfjarðargöng. Menn deila því ekki lengur um að með jarðgöngum fæst mikið umferðaröryggi og verulega bættar samgöngur af því að menn geta treyst á þær leiðir, nánast óháð veðri nema þegar alverst er hér á landi og engum út sigandi.

Gerð jarðganga og samgöngubætur yfirleitt efla búsetu víða á landinu. Slíkar breytingar hafa víðtæk áhrif. Í því samhengi flytjum við þá tillögu að skattheimtunni í Hvalfjarðargöngum verði aflétt svo að þróunin verði með sama hætti á Vesturlandi og verið hefur á Reykjanesi og í byggðum Suðurlands sem fá góðar tengingar við höfuðborgina. Við teljum eðlilegt, með tilliti til byggðaþróunar og aðstæðna á landinu, að taka gjaldtökuna til endurskoðunar þótt menn hafi vissulega verið sammála um að ráðast í verkefnið í einkaframkvæmd og með gjaldtöku þegar í var ráðist, sem átti að vera til 20 ára.

Menn tala um að líta þurfi á málin í samhengi, virðulegi forseti, og hafa farið yfir það í dag. Menn nefna ferjur og ýmislegt þar sem tekin eru gjöld. Það er algjörlega rétt. Ferjur eru jú þjóðvegur eyjabúa sem þurfa á þeim að halda þótt við séum ekki beinlínis að ræða það í þessu samhengi. Hér erum við að ræða um þessa vegi sem liggja út frá Reykjavík og tengja saman byggðir með tilliti til byggðaþróunar og hvernig hún þróast öðruvísi á Vesturlandi vegna gjaldtöku í Hvalfjarðargöngum heldur en á Suðurlandsundirlendinu sem tengist Reykjavík og hins vegar Reykjanesi og byggðum þar.

Spurningin er auðvitað þessi: Er eðlilegt að halda þessari gjaldtöku áfram? Við teljum svo ekki vera, m.a. með tilliti til búsetuþróunar og byggðaþróunar, þess að svæðin þróist út frá sambærilegum skilyrðum. Við teljum að gjaldtakan takmarki byggðaþróunina til vesturs og norðvesturs og stýri henni frekar inn á Suðurland og Reykjanes en ella væri. Þess vegna leggjum við þetta til.

Menn hafa rætt um að tvöfalda Hvalfjarðargöngin. Það kann að vera að sá tími nálgist. En ég bendi hins vegar á að Hvalfjarðargöngin hafa annað verulega mikilli umferð, meiri en menn bjuggust við. Þó það myndist tappar við Hvalfjarðargöng einstöku sinnum um helgar, kannski á föstudögum út úr borginni og á sunnudögum til borgarinnar, þá hygg ég að stytta mætti biðtímann í þeim umferðarteppum, sem myndast einkum að sumarlagi þegar fært er fyrir Hvalfjörð hvort sem er, með umferðarstýringu. Það er oft vitað fyrir fram og væntanlega veit Vegagerðin það út frá því hvernig umferðin hefur verið. Þeir hjá Speli vita hvernig umferðin hefur verið á ákveðnum álagspunktum að sumarlagi við Hvalfjarðargöng. Það mætti örugglega stytta þær umferðartafir verulega með tímabundinni umferðarstýringu sem hleypti umferðinni til norðurs í forgang á ákveðnum tímum, ákveðnum klukkutímum fyrir helgar og síðan í ákveðinn forgang til Reykjavíkur á sunnudagssíðdegi. Menn yrðu annaðhvort að una því að bíða tvo þrjá klukkutíma eða fara fyrir Hvalfjörð. Ég lít nú ekki á það sem sérstakt úrlausnarefni eða að umferð megi ekki tefjast. Þá væri úr miklu að leysa, hæstv. byggðamálaráðherra, hér í Reykjavík, ef umferð mætti ekki tefjast í Reykjavík.

Umræðan í dag hefur að mörgu leyti verið gagnleg, áhugaverð og skemmtileg. Við höfum rætt um þá valkosti sem við eigum í að bæta vegakerfið, sem ekki er vanþörf á. Á Vestfjörðum ökum við enn á 50 ára gömlum vegum, sömu malarvegum og lagðir voru fyrir hálfri öld. Við það er auðvitað ekki búandi, hæstv. forseti, af nútímamönnum sem gera kröfu til þess að aka á bundnu slitlagi o.s.frv. Miðað við þá flutninga sem almennt eru komnir á þjóðvegina þarf einnig að fara í verulegar samgöngubætur, á stöðum þar sem við búum enn við gamla og hlykkjótta og mjóa vegi sem ekki þola burðinn sem fylgir þungaflutningum.

Til að lagfæra vegakerfið á landinu er ýmislegt til ráða, m.a. að gera fleiri jarðgöng. Við höfum flutt um það mál í Frjálslynda flokknum að eðlilegt sé að leggja áherslu á að færa vegi af fjöllum og undir fjöll með gerð sérstakrar jarðgangaáætlunar. Við teljum að á því eigi að vera hraðari gangur og það ætti að hafa forgang í dag. Það er líka hægt að stytta vegalengdir með því að búa til brýr yfir firði, m.a. með því að þvera firði. Það er hægt að gera meira af því.

Eins mætti stytta vegalengdir, líkt og með gerð Bakkahafnar í Bakkafjöru og með góðri og hraðskreiðri ferju milli Vestmannaeyja og lands, lánist sú framkvæmd vel. Ég hef hins vegar nokkrar efasemdir um hafnarstæðið í Bakkafjöru eins og það er hannað, hæstv. forseti, og er ekki einn um það. Margir sjómenn sem þekkja til við suðurströndina hafa miklar efasemdir um þetta. En auðvitað vonum við öll að þar sem búið er að ákveða að fara í slíka höfn, þá muni hún reynast vel. Menn verða bara að halda áfram og gera þær endurbætur að hún dugi til þeirra verka sem henni eru ætluð.

Hæstv. forseti. Ég vildi koma þessu á framfæri af því að umræða hefur verið almennt um landsmál, samgöngur og verkþætti. Mér finnst ekkert að því að við skoðum það að fara í vissa verkþætti í svokallaðri einkaframkvæmd ef við teljum það hagkvæmt og eðlilegt. Almenna reglan finnst mér eiga að vera sú að samgöngur séu á vegum ríkisins og það að byggja upp samgöngukerfið. En ég útiloka ekki að vinna að sérstökum framkvæmdum, ef menn vilja flýta þeim, með einkaframkvæmd og þess vegna gjaldtöku.

Hæstv. forseti. Erindi mitt í ræðustól í dag var að fara almennum orðum um umferðar-, byggða- og búsetumál en málið snýst um að búsetuskilyrði séu sem jöfnust um landið.