135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

fjáraukalög.

148. mál
[16:35]
Hlusta

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Mig langar að segja örfá orð í lokin til að ljúka umræðunni af minni hálfu. Ég þakka þeim fyrir framlag sitt sem tekið hafa þátt í umræðunni og gert hana líflega og áhugaverða. Hún hefur greinilega marga snertifleti, snýr ekki eingöngu að því sem frumvarpið fjallar um heldur að fleiri þáttum sem varða samgöngur og byggðamál. Það er vel að menn reifi sjónarmið sín í þeim efnum, komi þeim á framfæri og skiptist á skoðunum.

Í sjálfu sér er ekki miklu við að bæta í lokin við það sem þegar hefur fram komið Ég vil þó nefna að auðvitað eru mörg verkefni mönnum ofarlega í huga. Menn vilja eðlilega koma áfram því sem horfir til framfara á einstökum landsvæðum, t.d. á Norðurlandi eða Suðurlandi, jafnvel vegtengingu þar á milli sem áhugi er fyrir þótt ekki hafi verið tekin afstaða til þess í þingsölum hvort meiri hluti sé fyrir því. En allt eru þetta viðfangsefni sem eðlilegt er að menn dragi fram í umræðunni. Ég vil þó hvetja menn til að horfa á slík mál út frá eigin forsendum og blanda ekki við önnur verkefni heldur meta hvert verkefni á sínum eigin forsendum.

Það hefur ýmislegt gerst á þeim langa tíma sem ég hef setið á þingi sem verið hefur á annan veg en menn hafa ákveðið með vegáætlunum. Ég man eftir því meðan Halldór Blöndal var samgönguráðherra var ansi oft sem það kom fyrir að einstakar framkvæmdir fóru hraðar í gegnum fjárlög ríkisins en til stóð miðað við vegáætlun. Ég man líka eftir því líka að ein jarðgöng fóru í gegn án þess að fara nokkurn tíma inn á vegáætlun. Ég man ekki eftir að þau hafi verið sett inn á vegáætlun. Þau voru búin þegar kom að endurskoðun vegáætlunar og fjármagn til þeirra fór fyrst inn í fjáraukalög. Þar á ég við jarðgöngin um Almannaskarð. Ég held ég muni rétt að það fór fyrst sem fjáraukalagapeningur og síðan inn í fjárlög árið eftir og svo var málið búið þegar kom að endurskoðun vegáætlunar. Ég held að þau jarðgöng hafi aldrei komið inn í vegáætlun.

Í sjálfu sér settu menn sig ekki upp á móti því, menn úr öðrum kjördæmum, og gerðu ekki kröfur til að þessi framkvæmd yrði dregin af kjördæmafé viðkomandi kjördæmis í framhaldinu. Þetta varð einfaldlega viðbót og fleiri dæmi eru af þessum toga. Ég held að menn verði alltaf að hafa svona hluti í huga.

Eitt vil ég segja að lokum sem mér finnst standa dálítið upp úr. Annars vegar tók ég eftir því að af hálfu Samfylkingarinnar talar aðeins einn þingmaður og lýsti mjög ákveðnum skoðunum sínum í þessu efni, sem menn þekkja. Aðrir töluðu ekki. Frá hinum stjórnarflokknum komu tveir þingmenn og töluðu báðir fyrir svipuðum sjónarmiðum, þ.e. að láta veggjaldið standa út samningstímann. Ég velti því fyrir mér hvaða ályktun megi draga af þessu. Það er auðvitað ályktun, ég get ekki sett það fram með neinni vissu eða sem fullyrðingu. En mér finnst ég geta séð út úr þessu að innan stjórnarflokkanna sé fyrst og fremst verið að ræða um hvernig eigi að fjármagna tilteknar framkvæmdir sem eru ekki fjármagnaðar í vegáætlun. Þar á ég við Suðurlandsveginn. Hann er ekki fjármagnaður í gildandi vegáætlun. Þar er stórri fjárhæð vísað út fyrir ríkissjóð og á eftir að finna lausn á því. Munu núverandi ríkisstjórnarflokkar leggja til að þess fjármagns sem vantar úr ríkissjóði verði aflað á annan hátt, að einkafyrirtæki verði fengin til þess að fjármagna veginn eða munu þau leggja til að taka upp veggjald á umferðina austur fyrir fjall?

Ég held, virðulegur forseti, að tekist sé á um þetta innan stjórnarflokkanna. Samgönguáætlun er ekki komin fram. Hún ætti að vera komin fram. Ef allt hefði verið eðlilegt og stjórnarflokkarnir náð saman um hana hefði hún komið fram fyrir jól. En hún er ekki komin fram enn. Ég vil túlka það þannig að ekki sé komið samkomulag um fjármögnun á tilteknum stórum vegaframkvæmdum. Ég held að Suðurlandsvegur sé ein þeirra. Hvort deilt er um aðrar framkvæmdir veit ég ekki en ég ímynda mér að þar séu Vaðlaheiðargöng inni. Mér finnst það líklegt að hv. þm. Kristján Þór Júlíusson sé í reiptogi við að halda fram hlut Norðlendinga og gera kröfu um Vaðlaheiðargöng. (Gripið fram í.) Mér finnst það líklegt, já. Einhverra hluta vegna kæmi það mér ekki á óvart. Mér finnst líklegt að það sé hluti af togstreitunni og e.t.v. Kjalvegur líka af því að hv. þingmaður nefndi þá framkvæmd. Þó er ég ekki eins viss um að það sé mál sem hann hafi afl til eða stuðning við, sem átakapunkt inn í þetta samningsferli. Ég held að Kjalvegur liggi þar fyrir utan af umhverfisástæðum.

Ég vil ljúka umræðunni af minni hálfu með því að segja að mér finnst ég hafa fengið út úr henni með beinum og óbeinum hætti upplýsingar um að stórir hlutir séu óuppgerðir hjá stjórnarliðinu um fjármögnun viðamikilla framkvæmda í samgöngumálum á næstu árum.