135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

endurskoðun á skattamálum lögaðila.

169. mál
[17:19]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um endurskoðun á skattamálum lögaðila.

Mér þótti miður, frú forseti, að hv. flutningsmaður Ellert B. Schram taldi ástæðu til að bera af sér þá sök að hafa vit á peningum. Mér finnst það engin sök að teljast hafa vit á peningum og mættu fleiri Íslendingar vera þeim eiginleikum gæddir.

Í greinargerð með tillögunni, sem mér finnst vera mjög athyglisverð, kveður við dálítið neikvæðan tón og er talað um að menn geti hagrætt sköttum sínum o.s.frv. Ég bendi á að skattrannsóknarstjóra ber að gæta þess að menn reikni sér endurgjald eins og um óskylda aðila væri að ræða. Hins vegar er í mörgum rekstri, t.d. búrekstri hjá bændum, ákveðin áhætta. Hjá trillukörlum og mönnum sem eru að gera út báta er líka heilmikil áhætta. Sú áhætta á ekki að teljast til launa. Það er hagnaður eða tap rekstrarins. Ég hef heyrt af því að menn hafi kvartað undan því að reiknaða endurgjaldið sé hærra en hagnaðurinn af rekstrinum, enda á það að geta komið upp þegar um er að ræða tap á rekstrinum.

En það vantar inn í umræðuna fjöldann allan af öðrum atriðum. Ef við t.d. tökum mann sem borgar 18% skatta af hagnaði fyrirtækis og síðan af rekstri, þ.e. af 82% greiðir hann 10% fjármagnstekjuskatt, þá er það um 26% sem hann greiðir í stað þess að greiða 36% tæp í staðgreiðslu. Hann sparar sér eitthvað um 10%. En það vantar inn í umræðuna að hann neitar sér um ýmislegt annað, t.d. ef hann verður atvinnulaus. Hann neitar sér um fæðingarorlof sem er háð tekjunum og ýmiss konar bætur eins og örorkulífeyrir hjá lífeyrissjóðum, réttindi í lífeyrissjóðum sem eru háðar tekjunum. Réttindi í sjúkrasjóðum eru háðar tekjunum sem greitt er af þannig að menn fórna ýmsum réttindum í kerfinu með því að telja fram of lágar tekjur, eins og gefið er í skyn í greinargerð tillögunnar.

Ég hugsa að ef menn mundu setjast yfir allt dæmið þá mundu menn sjá að það er ekki voðalega skynsamlegt að telja fram annað en raunverulegar tekjur. Það er hlutverk skattrannsóknarstjóra að sjá til að menn telji fram raunverulegar tekjur, eins og um óskyldan aðila væri að ræða. Þannig hygg ég að þetta eigi að vera. Síðan getur komið hagnaður eða tap af rekstrinum, vonandi yfirleitt hagnaður, að búskapurinn eða útgerðin, gangi þannig að hagnaður verði af því. Þá borga menn fyrst skatt af hagnaði, þ.e. 18% og síðan skatt af arðgreiðslu. Við getum svo að sjálfsögðu hugleitt að halda áfram að lækka prósentuna í staðgreiðslunni. Það er nokkuð sem ég er hlynntur þannig að munurinn á milli þessara tveggja forma hverfi.

Ég skora á hv. flutningsmann að vinna með mér í því að lækka prósentuna í skattkerfinu til að jafna þennan mun og jafnframt hvetja launþega og aðra tekjuskattsgreiðendur til dáða þannig að við höldum áfram að stækka kökuna eins og við höfum gert síðustu 15 ár. Hún hefur stækkað svo að launin hafa hækkað meira á Íslandi en annars staðar.